• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Airwaves: Laugardagsdómar

  • Birt: 21/10/2007
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Airwaves: Laugardagsdómar

Laugardagskvöld Airwaves 07

Það var af nógu að taka á laugardegi Airwaves hátíðarinnar. Rjóminn brá sér á tónleika …

Ég hóf kvöldið á Dillon og ákvað að líta sveitina The End augum áður en lengra var haldið. Ég ákvað að forðast stóru salina þetta kvöldið mest megnis og athuga hvað væri að ske á litlu börunum um allan bæ.

The End:

Sveitin bauð ekki upp á mikið áhugavert á Dillon þetta kvöldið og mætti einnig allt of seint á barinn til að grípa í hljóðfærin sín. Hljómsvetin hefur samt sína aðdáendur og var Dillon vel stappaður þetta kvöldið, Hugmyndir og lagasmíðar eru ágætar en ekkert meira en það. Ófrumleikinn keyrði verulega fram úr hófi.

Næsti viðkomustaður kvöldsins var Grand Rokk.

noise:

Bræðrabandið noise steig á svið um miðnætti fyrir tómu húsi á Grand Rokk. Erfið samkeppni þetta kvöldið hefur sennilega leitt til þess að fáir sáu sér fært um að koma og hlýða á sveitina. Hljómsveitin lét skort á fólki ekki hafa áhrif á sig og kynnti tvö ný lög og rokkuðu vel og þétt í gegn. Sveitin er í raun farin að aðhallast mun meiri metal en gruggi þessa dagana og er stefnan sem sveitin er að móta sér mjög spennandi. Áhrif frá hljómsveitum á borð við Velvet Revolver eru greinileg. Smelltu þeir svo í lag af þeirra fyrstu plötu í endann. Spurning er hvort að noise hafi nú ekki þroskast það mikið sem tónleikaband að þeir eigi betur skilið að heilsa fleira fólki en þeir gerðu í gærkvöldi.

Mínus (Nasa):

Ég kom inn á Nasa og fékk fjöldann á móti mér líkt og það væri um sprengjuhótun að ræða. Svo var reyndar ekki og var fólk að hlaupa í smók áður rokksveitin Mínus steig á svið. Þetta var í fyrsta sinn sem undirritaður leit sveitina augum á sviði með nýjum bassaleikara.

Þung og skítug byrjun gaf tóninn og söngvarinn Krummi leiddi sína sveit vel. Þegar líða fór á fyrsta lag fór ég að hugsa til Mínus fyrir nokkrum árum og Mínus í dag. Ég saknaði ruddarokksins keyrt ruddalega upp og niður. Núverandi bassaleikari sveitarinnar, þó fær og vel þéttur, var ekki nóg fyrir mig þetta kvöldið. Tónlistin skilaði sér þó frábærlega og er það víst alveg aðal málið.

Dimma (Organ):

Dimma var í fullri keyrslu þegar komið var á Organ. Sveitin lék hart og drungalegt rokk með frábæru skrauti frá gítarleikaranum, Ingó. Til aðstoðar þetta kvöld, fengu þeir Karlottu úr sveitinni Vicky Pollard. Hljómurinn var vel góður og salurinn fylgdist vel með. Sykurmola slagarainn Mama gerði góða hluti og var söngur frábær. Dimma skipar sér á stall með stærstu rokksveitum landsins að mínu mati og eru lög þeirra bæði vel samin og catchy. Ný plata er á leiðinni skilst mér og verður hún án efa áframhald af sterku, þungu og dimmu rokki.

Kvöldið hafði verið erfitt og langt og ákvað ég að fara á vit annarra ævintýra og svo hvílast.    Iceland Airwaves 2007 fer senn að ljúka.

Daníel Guðmundur Hjálmtýsson

 

————————–
 

Í Norræna húsinu var bæði tónlistardagskrá sem og ljósmyndasýning frá fyrri Airwaves hátíðum. Ég brá mér þangað eftir hádegi á laugardegi í þann mund sem Seabear var að hefja leik. Hljómurinn í húsinu var mun betri en á efri hæð Organ nokkrum dögum fyrr þó að einhverjir hnökrar hefðu verið í hljóðblönduninni. Sveitin spilaði tvö ný lög sem bæði hljómuðu vel en seinna lagið minnti þónokkuð á lagasmíðar Sufjan Stevens. Að auki spiluðu þau nokkur lög af frábærri plötu sinni frá því fyrr á árinu. Sebear stóð sig feykivel og helst saknaði maður þess að fá ekki lengri tónleika í þetta skiptið. 

Benni Hemm Hemm var næstur á dagskrá og var því miður einnig með alltof stutt prógramm. Bandið flutti líka nokkur ný lög sem líklega verða á stuttskífu sem væntanleg er frá þeim á næstu mánuðum. Nýju lögin gerðu svo sem ekki mikið fyrir mig við fyrstu hlustun en lokalagið „Snjórljóssnjór" heppnaðist best á þessum stuttu tónleikum. 

Seinna um daginn brá ég mér í Mál og menningu og náði þar rétt í skottið á FM Belfast sem voru við það að ljúka sínu prógrammi. Tónlist þeirra hentar betur í sveittu partýi en í rólegri bókabúð en sveitin var þó hörkugóð og skemmtu gestir sér vel. Flestir týndust út þegar FM Belfast hafði lokið leik og voru örfáar hræður eftir þegar Annuals byrjaði að stilla upp hljóðfærum sínum. Eitthvað fjölgaði þó þegar þeir byrjuðu að spila en tónlistin var fremur ómerkilegt og litlaust rokkað popp. Ég hélt út í nokkur lög en lét mig svo hverfa og var ég ekki sá eini sem gekk út á meðan sveitin spilaði. 

Í 12 tónum voru Reykjavík! að koma sér fyrir, en á daginn kom að þeir höfðu lánað Annuals trommusettið sitt og þurftu því að bíða eftir að sú sveit myndi ljúka sér af. Sveitin gafst upp á biðinni og byrjuðu fyrsta lagið trommulausir í þann mund sem trommuleikarinn Kristján kom hlaupandi með settið. Þegar Reykjavík! var komin á fullt skrið hitnaði í húsinu og gestirnir tóku vel í rokkið. Þeir tóku þétt prógramm og buðu svo öllum áheyrendum í óvænt partý í æfingahúsnæði sínu að tónleikum loknum. 

Þótt partýið freistaði ákvað ég frekar að kíkja í Nakta apann þar sem Retro Stefson voru að gera sig tilbúin til að spila. Sveitin var hress og var mun léttara yfir þeim en dagana á undan. Það er alltaf gaman að sjá sveitina spila en stjarna tónleikanna var þó MC Plútó, ellefu ára rappari, sem tók tvö lög við undirleik Retro Stefson. Mikil stemmning myndaðist þegar hann tók lögin sín og fögnuðu áhorfendur ákaft.

Ég hef ekki hugmynd um hverjir spiluðu næst en tónlistin var ekki það áhugaverð að ég nennti að hafa fyrir því að grennslast um það. Ég ákvað fremur að rölta í Skífuna þar sem Motion Boys áttu að spila. Þar höfðu einhverjar tafir orðið og var Radio LXMBRG að spila þegar ég gekk inn. Tónlistin virkaði hundleiðinleg og ekki bætti slæmt hljóð í húsinu hana. Ég varð strax fráhverfur því að sjá sveitina seinna um kvöldið og ákvað fljótt að fara frekar heim en að bíða eftir Motion Boys. 

Um kvöldið byrjaði ég á Gauknum á tónleikum með Ultra Mega Technobandinu Stefáni. Sú sveit er alltaf jafn skemmtileg á tónleikum og strax við fyrstu tónana myndaðist mikil stemmning á staðnum. Sveitin renndi í gegnum lögin sín af öryggi og söngvarinn Siggi lét öllum illum látum líkt og venjulega. Ekki kom að sök þó að hljóðneminn klikkaði í smá stund í „Story of a Star" því áhorfendur þekktu lagið út og inn og sungu hástöfum með. Flestir svitnuðu ærlega á tónleikunum og er ég viss um að enginn hafi gengið vonsvikinn út af Gauknum þetta kvöldið. Já, flestir gestir gengu líkt og undirritaður út þegar UMTBS hafði lokið sér af enda var ein leiðinlegasta og tilgerðilegasta sveit íslandssögunnar næst á dagskrá og gæti ég fátt hugsað mér verra en að þurfa að sjá Steed Lord aftur. 

Þegar ég kom í Iðnó var Ms John Soda sem betur fer enn að spila og náði ég síðustu þrem lögum þeirra, þar á meðal „Go Check" og „Hiding / Fading" sem ég hef miklar mætur á. Sveitin vex greinilega um helming á tónleikum og voru mun rokkaðri en á plötu sem var ágæt tilbreyting þó mér hafi fundist lögin aðeins missa sjarmann. 

Næst spilaði Seabear og hélt sig að mestu við lög af The Ghost That Carried Us Away en spilaði þó annað af nýju lögunum sem bandið hafði spilað fyrr um daginn í Norræna húsinu. Sveitin var greinilega vel æfð og þrátt fyrir að tónlistin sé yfirleitt í rólegri kantinum einkenndist flutningurinn af miklu fjöri. Fjöldi fólks var kominn til að sjá Seabear og var þónokkur biðröð fyrir utan Iðnó þegar tónleikarnir hófust. Flestir voru að vonum ánægðir með framstöðu bandsins og hef ég sjálfur aldrei séð þau svona góð áður. 

Tónleikar Benna Hemm Hemm byrjuðu á nokkrum nýjum lögum líkt og fyrr um daginn og náði sveitin sér ekki almennilega á flug fyrr en um miðbik tónleikanna. Þá tóku við nokkrir eldri og fjörugri smellir og skyndilega var sveitin öll í essinu sínu. Blásararnir voru hinir hressustu og lífguðu mikið upp á tónleikana og smituðu salinn fljótt af gleði sinni. 

Dagskráin í Iðnó hafði hliðrast um meira en hálftíma og voru því flest stóru erlendu bönd kvöldsins, sem öll áttu að spila á miðnætti, löngu byrjuð. Því ákvað ég að hlaupa frekar á Grand Rokk og kíkja rétt á Dýrðina fremur en að reyna að ná í skottið á !!!, Bloc Party eða Chromeo. Það var greinilegt að flestir höfðu valið erlendu böndin þetta kvöld því það var ansi fámennt á Grand Rokk. Dýrðin stóð sig samt vel þrátt fyrir fámennið og spilaði bæði ný og eldri lög og uppskar mikið lófaklapp frá þeim sem létu sjá sig.

Ég hefði gjarnan viljað sjá allt prógram Dýrðarinnar en vildi ekki fyrir nokkurn mun missa af stuðsveitinni FM Belfast sem voru á dagskrá klukkan 1. Það sem kom mér mest á óvart var hversu góð sveitin var orðin og strax frá fyrsta lagi hoppuðu og dönsuðu allir tónleikagestir í takt við tónlistina. Það virðist litlu máli skipta hvort maður hafi yfir höfuð gaman af danstónlist því FM Belfast nær hverjum sem er á sitt band. Það er eiginlega ekki hægt að lýsa tónlist þeirra öðruvísi en skemmtilegri danstónlist og sanna þau að maður þarf ekki að bryðja handfylli af einhverjum töflum til þess að njóta slíkrar tónlistar. Hérna er sveit sem GusGus ætti að taka sér til fyrirmyndar enda er mér óskiljanlegt hvernig í ósköpunum er hægt að hlusta á lög þeirra ódópaður.

Það var eiginlega ekki hægt að hugsa sér betri endi á kvöldinu en ótrúlega stuðtónleika FM Belfast en hún og Ultra Mega Technobandið Stefán voru langeftirminnilegustu atriði kvöldisins.

Pétur Valsson

 

 

 

Leave a Reply