• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Editors – An End Has A Start

Editors - An End Has A Start
Einkunn: 4
Utgafuar: 2007
Label: Fader / Columbia

Ég er hreinlega ekki frá því að An End Has A Start komi til greina sem ein af plötum ársins.

Margt misjafnt hefur verið skrifað, skrafað og rætt um þessa ágætu plötu og oftar en ekki frekar óverðskuldað. Margumrædd stefnubreyting sveitarinnar virðist eitthvað hafa farið í taugarnar á mörgum og er eitt það algengasta sem gagnrýnendur finna að hinum nýja hljómi Editors það að þeir líkist um of sveitum eins og Coldplay. Persónulega finnst mér það alls ekki vera svo slæm samlíking né að það sé sveitinni á einhvern hátt ekki til framdráttar. Ég á bágt með að heyra, eins og sumir vilja meina, að Editors hafi fórnað listrænum hugsjónum sínum á altari sölumennskunnar og tileinkað sér aðgengilegri og auðmeltanlegri hljóm aðeins til þess eins að auka plötusölu. Ef eitthvað er finnst mér hljómsveitin hafa þroskast og lagasmíðar þeirra aðeins orðið áheyrilegri fyrir vikið.

EditorsÁ An End Has A Start hafa Editors að mestu sagt skilið við hinn stífa, knappa og kuldalega stíl sem einkenndi fyrstu plötu þeirra The Back Room. Við er tekinn íburðarmeiri, mikilfenglegri og ljúfsárri tónn sem er oft á tíðum hlaðinn tilfinningum og dramatík. Sjálfur hefur Tom Smith söngvari sveitarinnar lýst þessari stefnubreytingu sem tilraun til að gera sveitina mannúðlegri og leita leiða til að túlka, eins og hann orðar það sjálfur (í minni eigin frjálslegu þýðingu), „kraft syndaaflausnarinnar og hina mannlegu þörf fyrir fjölskyldu og vini þegar staðið er við dauðans dyr". Vissulega eru þetta háfleyg orð en þau útskýra þó, að mér finnst, fullkomlega andrúmsloftið og stemminguna á plötunni og gefa bæði laga- og textasmíðunum meiri vigt og gildi.

Platan hefst á hinu stórgóða lagi „Smokers Outside The Hospital Doors“ en það grípur mann strax með föstum takti, kröftugri og ákveðinni uppbyggingu og mikilfenglegum lokakafla. Titillag plötunnar kemur í kjölfarið og tekur upp þráðinn þaðan sem frá var horfið á síðustu plötu. Lagið er bæði einkennandi og dæmigert fyrir Editors, drífandi, kraftmikið og með alltumlyggjandi gítarsánd sem myndar órjúfanlega heild með bassaleiknum.

Þrátt fyrir að platan beri afar sterkan heildarsvip og keyrslunni sé haldið nokkuð jafnt og þétt út í gegnum hana, ber að nefna nokkur lög sem skera sig úr. Áðurnefnt upphafslag plötunnar er klárlega það lag sem átti að sinna hlutverki "hittarans" en lögin „Bones“ og „The Racing Rats“ eru ekki langt undan hvað það varðar. „The Weight Of The World“, „Put Your Head Towards The Air“ og „Escape The Nest“ eru dramadrottningar plötunnar, yfirhlaðin og mikilfengleg og ná öll íburðarmiklum hápunkti í lokin. Lokalagið, „Well Worn Hand“, er sorgleg, einföld en áhrifarík ballaða þar sem umfjöllunarefni plötunnar er gert upp með einhverskonar játningu um uppgjöf og eymd.

Eftir ítrekaða og ánægjulega hlustun hef ég komist að því að An End Has A Start er á margan hátt betri plata en forveri hennar. Hún er aðgengilegri, kraftmeiri, eftirminnanlegri og grípur mann einhvernvegin fastari tökum en sú fyrri. Platan inniheldur líka mjög áþreifanlegan trega en þrátt fyrir myrk og þung umfjöllunarefnin má samt finna vott af von og lífsgleði. Ég er hreinlega ekki frá því að An End Has A Start komi til greina sem ein af plötum ársins. Ég er allavega kolfallinn fyrir henni.

Egill er ritstjóri Rjómans, vefhönnuður, bloggari, faðir, hundaeigandi og tónlistar- og fótboltaunnandi. Egill hefur m.a. setið í dómnefnd Kraums Tónlistarsjóðs, fagráði Airwaves og verið álitsgjafi um ýmislegt tengt tónlist og tengdum málefnum.

Leave a Reply