• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Minä Rakastan Sinua – Elvis

Minä Rakastan Sinua - Elvis
Einkunn: 1
Utgafuar: 2007
Label: Smekkleysa

Tilgangslausasta plata ársins?

Hljómsveitin Minä Rakastan Sinua hefur verið starfandi með hléum í nokkur ár og hefur eftir minni bestu getu lagt áherslu á tökulög. Fyrr á þessu ári hélt sveitin styrktartónleika til handa barnsföður skáldkonunnar Diddu, en hann mun hafa komið sér í einhver vandræði á Kúbu. Efnisskráin mun hafa samanstaðið af hinum ýmsu Elvislögum og efast ég ekki um að tónleikarnir hafi verið hin mesta skemmtun. Þrátt fyrir það er mér það nær óskiljanlegt afhverju sveitin ákvað að halda í stúdíó og hljóðrita lögin – hvað þá að gefa út á geisladisk.

Mér dettur helst í hug að meðlimirnir hafi í svitavímu og óráði eftir sjóvið fengið þá gölnu hugmynd að gefa þyrfti prógrammið út. Svo er auðvitað gítarleikari sveitarinnar einn eiganda Smekkleysu svo hæglega hefur gengið að tryggja útgáfu. Lífleg tónleikaupptaka hefði að líkindum verið mun skemmtilegri, enda er það stemmningin sem er hvað skemmtilegust þegar um svona verkefni er að ræða.

Ég viðurkenni alveg fordóma mína gagnvart tökulagaplötum og þrátt fyrir að þetta sé ekki idol/xfactor/annað jukk verkefni þá er þetta lítið skárra. Góðar tökulagaplötur eru vissulega til en þær hafa allar það sameiginlegt að gera eitthvað nýtt við lögin, t.d. breyta útsetningum á einhvern hátt svo hlustendur geti upplifað þau á nýjan hátt. Á Elvis virðist ekki verið haft fyrir slíkum lúxus, heldur lögin bara spiluð á sem einfaldasta hátt og fyrir vikið er mikill fljótfærnisbragur á plötunni. Hér hefði einmitt verið frábært tækifæri til að gera eitthvað, bara eitthvað, við lögin.

Minä Rakastan Sinua er skipuð nokkrum vel þekktum einstaklingum; að sjálfsögðu Diddu sem syngur (og svo sannarlega með eigin nefi), trommaranum Komma, Eldon bræðrum á gítar og bassa og svo einhverri Riinu, gítarleikara sem ég kann engin deili á. Flest eru frábærir hljóðfæraleikarar og er svo sem ekkert hægt að setja út á spilamennskuna, fyrir utan það að útsetningarnar hljóma allar hreinlega bara frekar ófrumlegar og óspennandi. Mig grunar að það sem skemmtilegast hafi verið á tónleikum sveitarnnar væri að sjá (og í minna mæli heyra) Diddu gaula – en á plasti er það nærri kvöl en skemmtun á að hlýða.

Það þarf vart að taka fram að Elvis innihaldi einungis lög sem svokallaður kóngur söng á ferli sínum og auðvitað eru hér fjölmörg góð lög. Varla er þó hægt að mæla með nokkru þeirra í þessum útgáfum þar nema fyrir masókista. Elvislög hafa nú um alllangt skeið verið vinsæl hjá illa syngjandi karókíraulurum en sem betur fer hafi þeir flestir haft vit á að færa útgáfur sínar ekki út fyrir slíka bari. Mig grunar að aðdáendur kóngsins munu að öllum líkindum fá illan sting fyrir hjartað við að heyra Diddu kyrja mörg ástsælustu Elvis lögin á þessari plötu og ættu því að halda sig víðsfjarri.

Þegar uppi er staðið er platan ekki skemmtileg, ekki áhugaverð og afar tilgangslaus. Líklegast tilgangslausasta plata ársins (ný plata Geirs Ólafs gæti reyndar keppt um þann titil). Þetta er plata sem á ekki erindi við neinn nema í mesta lagi nánustu vini og ættingja þeirra sem að henni koma. Líklega hefði nægt að brenna nokkur eintök af disknum til að gefa kunningjum því aðrir hafa vart nokkuð gagn né gaman af Elvis.

1 Athugasemd

  1. Arnar Þór · 12/11/2007

    Tilgangslausasta komment í heimi, á tilgangslausasta plötudóm ársins um sennilega tilgangslausustu plötu ársins.

Leave a Reply