Sprengjuhöllin – Tímarnir okkar

Sprengjuhöllin - Tímarnir okkar
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2007
Label: Skífan

Nú er tíminn fyrir gleðilegt popp þar sem má brosa og vera hress

Það er allt of gaman
Nú er tíminn fyrir gleðilegt popp þar sem má brosa og vera hress. Eftir áratugslanga þunglyndisstemmningu með krúttunum er hressi gæinn mættur aftur. Í fylkingarbrjósti þessarar hljóðlátu byltingar hins hressa, en þó um leið snjalla, er Sprengjuhöllin.

Sprengjuhöllin er íslensk poppsveit full af græskulausu fjöri, stemmningu og tilþrifum í lagi. Frumraunin þeirra, Tímarnir okkar, er full af ferskum poppsprettum, skemmtilega útsettum í hvívetna með fínum röddum og alls konar fíneri. Síðast en ekki síst skulu góðir textar sveitarinnar nefndir og taldir þeim strákunum til tekna. Í sumar og haust náði sveitin að taka yfir íslenskar útvarpsbylgjur með þremur lögum í röð. Meginþorra þjóðarinnar birtust fyrr á árinu lögin „Tímarnir okkar", „Verum í sambandi" og „Glúmur" í þessari röð og allt varð vitlaust. Geri aðrir betur.

Nú er komin plata, Tímarnir okkar. Plötudómarnir hafa margir hverjir jaðrað við oflof en platan er góð. Því skal alls ekki neitað. Ég ætla þó að leyfa þeim strákum að gefa út aðra plötu áður en ég greypi þeirra hlutdeild í íslenskri poppsögu í stein. Spurningin er hvort þessi plata sé meira en stórmögnuð?

Engin orð eru nógu dýr
Sprengjuhöllin leikur sykurhúðað spilverkspopp og gerir það vel. Þeir einbeita sér ekki bara að því að vera hressir. Þeir eru líka voða snjallir strákar og sérlega liprir textasmiðir. Margir textanna eru þrælgóðir. Óborganlegir frasar sem nota má við margs konar tilefni. Gullkornið „djöfull er ég sammála þér með þennan Bigga í Maus", sem er einn frasinn sem Sprengjuhöllin hefur prentað á boli nýlega, trónir þar hæst. Enda hefur Biggi sjálfur sést á götum bæjarins í slíkum bol.

Að frátöldum smellunum þremur, „Tímunum okkar", „Glúmi" og „Verum í sambandi" (sem margir hafa einnig heyrt í enskri útgáfu undir heitinu „Worry till spring") eru níu ágæt lög á plötunni. „Tímana okkar“ þekkja orðið allir með frábæru frösunum sínum og gríðargóðri hnittni. Tröllreið fyrst af öllum lögum sveitarinnar öllum útvarpsstöðvum frá Bylgjunni til X-ins líkt og hinir smellirnir tveir gerðu í kjölfarið. „Verum í sambandi" er hæglátur gítarsöngur, útsetningin einföld með fallegu brassspili og söngur Snorra mjög góður. „Glúmur" var svo stóra prófið þeirra. Gat Sprengjuhöllin komið með þrá smelli í röð? Þeim tókst það svo sannarlega og gáfu þeir þar tóninn um hvers væri að vænta á plötunni sem nú er komin út og hefur slegið svo rækilega í gegn. „Glúmur" flytur okkur svo íslenska alþýðusögu sem flytur okkur frá Freeport til Neskaupsstaðar með alls konar hörmungum og hressleika.

„Verum í sambandi“ bútur af Airwaves 2007

Upphafslagið „Keyrum yfir Ísland“ er mjög gott. Byrjar með skemmtilegu trommuintroi og áköfum bassaleik og svo kemur gítarinn inn. Mjög fínt allt saman, og voðalega hresst, og einstaklega auðvelt er að byrja að syngja með.

Það er júnínótt og enginn sefur rótt
Það er allt of gaman, allt of mikið grín

Annað lag, heimspekislagarinn „Síðasta bloggfærsla ljóshærða drengsins" um gæjann sem finnst fínt að vera til, lesa nokkrar bækur og hugsa mikið. Sagði einhver Nietzsche? Lagið syngur Bergur Ebbi sem að mínum dómi er stórmerkilegur söngvari. Snorri, hinn aðal- söngvarinn og gítarleikarinn, er miklu betri söngvari á alla mælikvarða en Bergur Ebbi en á einhvern undarlegan hátt virkar Bergur Ebbi mjög vel sem söngvari þrátt fyrir að vera ekki með mikla, stóra eða góða rödd. Hann nánast talar þegar hann syngur, með skýrri framsögn og töffaraskap. Mjög undarlegt allt saman, hið undarlega er að þetta virkar alveg þrælvel og Bergur Ebbi er mikilvægur hlekkur í keðju Sprengjuhallarinnar.

Ég stóð við sjoppudyr
og hafði keypt mér barnaís
ég var að  hugsa um nauðganir
og styrjaldir og hörmungar
og valdasjúka leiðtoga
þá fannst mér að ég væri ekki lengur til

Þriðja lagið er tregablandinn saknaðarsöngur „Frá gleymdu vori". Það er eftirminnilegur kósísöngur með birtu í hjarta sunginn af Bergi Ebbi af miklum rólegheitum. Maður skal muna það að þegar síst vænta má þá kemur alltaf aftur vor. Ansi gott.

Eitt af gömlu Sprengjuhallarlögunum, „Þá hlupu hestar á skeið" er skemmtilegur sveitalegur Crosby, Stills, Nash & Young legur rólyndissöngur með sagnfræðilegum undirtóni. Vel raddað og mjög snyrtilega útsett. Eins og fleiri lög með sveitinni hljómaði það upphaflega með enskum texta og hét þá „All the Horses are Gone". Ég er ekki frá því að mér líki betur að heyra Sprengjuhöllina syngja á íslensku. Þetta lag leynir mjög á sér. Meira að segja með millikafla með lúðrasveit. Skemmtilega hnyttið og spennandi. Gæti jafnvel verið stoðefni í Íslandssögukennslu í grunnskólum. Eða kannski ekki. Það er líklega ekki töff.

Einn fékk stein í höfuðið og hreyfðist ekki meir.
Það hefðu dáið fleiri en vopnin voru úr eir.
Samt var mikið skrifað, og ort um þessa öld.
Því óskrifaðir bardagar skapa engin völd.

Ég sakna stelpnanna
Fyrst þegar ég hlustaði á plötuna var „Hamingja" eina lagið sem greip mig ekki. Það er hress píanóslagari með ákveðnum hljómaintrói og barnalegri kímni. Þetta er svona „Hopp í polla" bjartsýna stuðkallsins vs hið gamla sem var skrifað fyrir krúttkynslóðina sem var á bömmer. Lagið venst þó ágætlega og er miklu betra þegar líður á og eins og í fleiri lögum er maður ósjálfrátt farinn að syngja með. Ég get þó ekki varist þeirri hugsun að ég hefði alveg verið til í að fórna þessu lagi fyrir „Svona fer fyrir stelpunum" eða einhverju í þeim dúr sem ekki er að finna á plötunni. Ég sakna stelpnanna.

Ég er mjög hrifinn af hinum bítlalega harmsöng, „Flogin er finka", sem platan endar á. Mjög fallegur píanóinngangur sem leikur sér svo í gegnum lagið á mjög skemmtilegan hátt og er flottur lokapunktur á plötunni. Er þetta ekki bara næsti smellur?

Allir eru djúpir á einhverjum sviðum
Í heildina sækir Sprengjuhöllin grimmt í íslenska popphefð og margs annars góðs utan úr heimi. Þeir gera þetta þó allt ágætlega og þurfa ekkert að skammast sín fyrir tilvitnanirnar. Mér datt í hug allt frá Spilverkinu til Megasar (held að Sprengjuhöllin og Megas séu þeir einu sem hafi haft sagnorðið "að sæða" í dægurlagatexta). Hugsaði jafnframt bæði um Beach Boys og Belle and Sebastian. Það er flott. Textarnir eru víðast hvar mjög lunknir, nokkuð djúpir og góðir oft á tíðum. Nokkur dæmi eru um orðalags- og málfarsatriði sem fara í taugarnar á mér. Þetta er þó minni háttar. Til dæmis „Þú finnur mig hér upp frá því ég lifi hér uppfrá" í  „Keyrum yfir Ísland" og „það fer bara eftir hverju við miðum" í „Tímunum okkar". Góðu punktarnir í textunum eru þó miklu fleiri en þeir slæmu, miklu miklu fleiri.

Sprengjuhöllin hefur sent frá sérlega vandaða poppplötu. Raddanir skemmtilegar og strengjapælingar, sem eru víst ættaðar úr gnægtarbrunni Högna úr Hjaltalín, koma vel út. Lögin er fín, mörg ekki stórar smíðar en er heldur ekki ætlað það. Textarnir eru svo kremið á góðri köku. Margir sérlega snjallir og mjög ánægjulegt að íslensku útgáfur textanna eru á plötunni en ekki hinar ensku sem hafa líka fengið að hljóma.

Tíminn er okkar
Heildarsvipur plötunnar er sterkur og pælingarnar ganga klárlega upp. Vonandi fáum við plötu númer tvö innan tíðar. Þangað til ætla ég að bíða með að útlista status Sprengjuhallarinnar í íslenskri poppsögu. Platan er tímanna tákn, þess tíma sem nú ríkir. Þetta eru tímarnir okkar og þeir eru ekkert á enda strax.

4 responses to “Sprengjuhöllin – Tímarnir okkar”

 1. Haukur says:

  Hvar er sungið “ég mun skola upp á land” og hvað er vitlaust við að segja “það fer bara eftir hverju við miðum”?

  I bæklingnum stendur “svo mun mér skola upp á land” og þar er líka sungið. Svo get ég ekki séð að Vlageir Sigurðs hafi útsett nokkuð. Þetta er illa unnin dómur.

 2. Áhugasamur says:

  Reyndar frekar illa skrifað komment líka Haukur. Reyndar er rétt að segja “Það fer eftir hverju við miðum við” Að miða…miða við. Simple as that….

 3. Arnar says:

  ég skil ekki þetta sprengjuhallarfár. Þeir eru vissulega hressir, en þeir eru alls ekki frumlegir (eins og margir hafa sagt) og textarnir þeirra eru verri en Keanu Reeves að leika. Ég myndi ekki gefa þessari plötu meira en 50%

 4. Sammála Arnari!
  Ég er ein af þeim sem hreinlega þolir ekki (!) Sprengjuhöllina.
  Henta alls ekki mínum smekk, og þó er sá smekkur mjög opinn fyrir öllu.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.