Sigur Rós – Hvarf-Heim

Sigur Rós - Hvarf-Heim
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2007
Label: EMI

Engan veginn gert til að græða á heldur listrænt meistaraverk.

Nú hefur ný plata frá Sigur Rós litið dagsins ljós. Er platan tvöföld og nefnist Hvarf-Heim. Platan þessi kemur út samhliða kvikmyndinni Heima, en sú mynd fylgir Sigur Rós eftir á tveggja vikna tónleikaferðalagi þeirra um Ísland sumarið 2006. Það er því ekki ofsögum sagt að Sigur Rós séu með mörg járn í eldinum þessa dagana, en heimildarmyndin Hlemmur kom út fyrir stuttu og með henni tónlistin við myndina sem Sigur Rós sáu um. Snemma á næsta ári kemur svo út hinn langþráði Hrafnagaldur Óðins og plata með splunkunýju efni frá Sigur Rós er svo í bígerð og kemur líklegast út fyrri part ársins 2008. Ljóst er því að Sigur Rós hafa svo sannarlega ekki setið auðum höndum undanfarið og ættu aðdáendur þeirra að una sælir við sitt, sérstaklega í ljós þessarar nýjustu útgáfu sveitarinnar sem er algjörlega þess virði að tala um.

Það er kannski ekki rétt að kalla Hvarf-Heim „nýja“ plötu, en lögin sem prýða hana eru öll í eldri kantinum (það nýjasta er fimm ára gamalt) og er því um að ræða nýjar upptökur á gömlum lögum. Heim skiptist eins og áður sagði í tvær plötur, Hvarf og Heim.

Heitið Hvarf hæfir mjög sinni plötu, en nafnið vísar í tvennt: Bæði það að meirihluti laganna á Hvarf hurfu öll með einum eða öðrum hætti á sínum tíma og enduðu því ekki á breiðskífum sveitarinnar, en einnig vísar plötuheitið í orðið 'athvarf' sem má m.a. skilja sem heimili. Þar með er komin tenging við hina plötuna, Heim.

Á Heim er að finna sex tónleikaupptökur sem eiga það sameiginlegt að vera allar í órafmagnaðri útgáfu á plötunni. Lögin spanna feril Sigur Rósar allt frá Von til Takk… og eru tekin lög af helstu plötum sveitarinnar Það eru lögin„Samskeyti“, „Starálfur“, „Vaka“, „Ágætis Byrjun “ „Heysátan“ og „Von“. Upptökurnar bera það ekki með sér að vera teknar á tónleikum, því flutningurinn er til fyrirmyndar. Lögin hafa þó ekki mikið nýtt fram að færa og guggnar því Heim samanborið við Hvarf en síðarnefnda platan er óneitanlega töluvert áhugaverðari.

Hvarf státar af fimm gömlum lögum sem eru ýmist að koma út í fyrsta sinn eða eru nú í nýjum búning. Lögin „Salka“ „Hljómalind“ (áður „Rokklagið “) og „Í Gær“ (áður “Lagið Í Gær“) kannast kannski ekki margir við en lögin tvö sem reka lestina ættu fleiri að þekkja en þau hafa komið út áður. Það eru lögin „Von“ og „Hafsól“ , en bæði lögin komu fyrst út á plötunni Von, þá í allt öðruvísi útgáfum og er tæpast hægt að þekkja þau aftur. „Von“ hefur gjörbreyst við lifandi flutning þess í höndum Amiinu stelpnanna og „Hafsól“ er nánast óþekkjanlegt og státar af mjög kraftmiklum köflum og Gogga bassaleikara spilandi á bassann með trommukjuða. Mjög flottar útgáfur. Hin lögin þrjú eru svo stanslaus gæsahúð út í gegn. Salka átti upphaflega að koma út á ( ) en eitthvað fór úrskeiðis svo lagið endaði ekki á plötunni eftir allt saman. Voru það að mínu mati mikil mistök en er þó reynt að bæta úr þeim núna og er ekki seinna vænna. „Salka“ hefur allt sem Sigur Rósar lag þarf að hafa: stórkostlegan kraft, fallega melódíu og innihaldsríkan flutning. „Hljómalind“, ekki verra en það er í einfaldari kantinum og státar af léttri laglínu sem brýst út í stórfenglegan kraftkafla. „Í Gær“ er svo ekki beint skólabókardæmi um tónlist Sigur Rósar, en það byrjar á dulúðugu klukknaspili og endar svo í dramatískum hápunkti sem slær fáu við. Reyndar réttlæta þessi þrjú lög tilveru plötunnar og engu myndi skipta þótt hin lögin væru sorp (sem þau eru svo sannarlega ekki). Eftir að hafa heyrt áðurnefnd lög gæti undirrituð ekki hugsað sér lífið án þeira.

Það sem er sérslega merkilegt við Hvarf-Heim er hversu hógvær hljómsveitin er varðandi útgáfuna. Þeir hafa allt það besta að bjóða hlustanda en setja það fram af lítillæti og kalla plöturnar til að mynda bara fylgihlut myndarinnar Heima. Þær eru það vissulega, þar sem útgáfan kom til vegna sölu á kvikmyndinni, en þetta eru þó engan vegin einhverjir fylgifiskar gerðir til að græða á heldur listræn meistaraverk, hvor á sinn hátt.

Ef Hvarf og Heim eru bornar saman er ekki erfitt að dæma um það hvor þeirra ber af. Hvarf hefur eitthvað nýtt fram að færa, eitthvað sem ekki hefur heyrst áður, en Heim inniheldur nokkur af vinsælustu lögum Sigur Rósar sem maður hefur öll heyrt áður. Nýju upptökurnar gera Heim þó þess virði að hlusta á og eru lögin flott órafmögnuð og henta vel á köldum vetrarkvöldum sem þessum. Ég er samt á því að ekki eigi að bera plöturnar saman því þetta er jú tvíburaplata sem ber að meta í heild sinni.

Eflaust eru einhverjar óánægjuraddir varðandi útgáfu Hvarf-Heim og gæti ég helst trúað að óánægjan tengdist því að efni plötunnar væri útbrunnið. Ég hef bara eitt að segja við þá sem trúa því – hlustið virkilega á plöturnar. Ekki bara líta yfir lagalistann, renna plötunni í gegn og dæma. Reynið virkilega að finna þessar tilfinningar sem liggja að baki tónlist Sigur Rósar liða á þessari tvöföldu plötu þeirra. Hún græðir, hún léttir áhyggjum, hún bætir einhverju fallegu inn í líf þitt – bara ef þú gefur henni tækifærið til þess.

 

 „Von“ órafmagnað á tónleikum í Gömlu borg:

 

3 responses to “Sigur Rós – Hvarf-Heim”

  1. Haraldur says:

    Í sambandi við nafnið “Hvarf” má geta þess að Jónsi var meðeigandi í “Stúdíó Hvarf” sem var starfrækt í Mosfellsbæ á 10. áratugnum. “Hvarf” var lítið og krúttlegt stúdíó á frábærum stað inni í mosfellsdal. Ég held að Von hafi að mestu leiti (eða að einhverju leiti allavega) verið tekin upp þar.

  2. Haraldur says:

    já,nafnið gæti s.s. verið tilvísun í þetta stúdíó og tengingin við “heim” þýðir kannski að Sigur rós hafi einhverja nostalgíu tilfinningu gagnvart því. gæti verið.

  3. Pétur Valsson says:

    jú það er laukrétt, Hvarf heitir í höfuðið á stúdíóinu – það er dálítil nostalgíufílingur yfir plötunni sbr. Hljómalindarnafnið, enda var Kiddi umboðsmaður þeirra í denn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.