SIGN – The Hope

SIGN - The Hope
Einkunn: 4
Utgafuar: 2007
Label: R&R

Vonarneisti frá SIGN

-dgh

„The Hope" nefnist fjórða breiðskífa hafnfirsku rokksveitarinnar SIGN. Platan fylgir eftir plötunni „Thank God For Silence" frá árinu 2005. Hljómsveitin hefur verið að gera góða hluti hér heima sem erlendis í kjölfar frammistöðu þeirra á Iceland Airwaves hátíðinni árið 2005.
Platan er tekin upp í hljóðveri bræðranna Ragnars og Egils Rafnssona, Error og eru öll lög samin af SIGN. Um textagerð sér þó söngvari sveitarinnar, Ragnar Sólberg Rafnsson (Zolberg).
Auk Ragnars og Egils (Eagle) myndar Arnar G. (A.D) hljómsveitina SIGN. Ragnar leikur einnig á bassa á plötunni sem og Egill sér um ýmsa hljóðritun.

„The Hope" hefst á hinu öfluga „Dancing In". Lagið er hér í annarri mynd en hlustendur eru vanir en lagið var gefið út fyrir ekki svo löngu síðan. Blásturshljóðfæri einkenna lagið og er söngur og uppbygging afar góð. Grípandi viðlag og sing-a-long kaflar gera lagið verulega flott. Ruddaleg sprengja í andlitið sem byrjar plötuna með krafti og spennu.
Hrokafullt og ruddalegt grípur „Misguided" hlustanda vel. Viðlag er keyrt áfram af drífandi gítarlínum í bakgrunn og eru raddir mjög flottar. Flottur gítareinleikur í miðju lagi er plús og vel leikinn og einnig koma slagverk vel út.
„Hold Me Alive" er þristurinn en sveitin sendi lagið frá sér á MySpace síðu sinni fyrir stuttu síðan. Lagið er í sömu mynd hér á plötunni og er án efa eitt af bestu lögum þessarar fjórðu plötu sveitarinnar. Textar eru hér afbragð og er reiðin og vonin að koma vel fram. Þungar strengjaútsetningar og óreiða í bland. Allt er hér að ganga upp.

Ekki er hægt að gefa út almennilega rokkplötu án þess að power-ballöður séu til staðar og er fjarkinn ein öflug rokkballaða. „All Gone" býður upp á flottar raddútsetningar og tregafulla stemmingu eins og hún gerist best. Óvissa, efasemdir og leitin að einhverju skilgreina lagið. Mun lagið þó ekki vera það frumlegasta á plötunni en engu að síður ágætis lag.
Þungir tónar heilsa manni aftur í laginu „Beautiful/Depressing". Hér er um að ræða ekta ruddarokk með fínu viðlagi. Gítar-riff eru virkilega töff. Gítareinleikurinn í laginu er ekki of flókinn og er mjög góður.

Hingað til hafa lögin flest öll verið líkt og sniðin til að slá í gegn, sem er mjög gott. Viðlögin eru öll í sing-a-long geiranum og eru lögin afar grípandi.

Samnefnt plötunni býður „The Hope" upp á mjög svipaða hluti og áður hafa verið í gangi hér á plötunni. Öruggt, grípandi og þétt rokk. Raddir eru afar góðar og gítarlínur góðar. Hljóðblöndun er sérstaklega fín og vel unnin og þrátt fyrir lætin og hörkuna, kæfist í raun ekkert ofan í hvort öðru. Sem er afar jákvætt.  „The Hope" er vel hægt að flokka í betri lög plötunnar. Fersk, spennandi og magnþrungin rennur platan inn í poppað og ljúft „Moveless". Byrjar það á einföldum gítar og söng Ragnars. Keyrir það svo upp í poppað rokk og er án efa eitt poppaðasta lag sveitarinnar frá upphafi dögum Halím. Enn og aftur er hér viðlag sem festist við hlustanda í eyrum og anda. Hér þarf nú ansi margt að ganga á afturfótunum ef platan á teljast slæm. Raddir, sem voru teknar fyrir og skreyttar af Ken Thomas í Englandi ásamt Ragnari sjálfum, eru verulega vel unnar. Gítareinleikir eru einnig mun algengari á þessari plötu en öðrum frá sveitinni og er það frábært.

Með kröftugu og gæsahúðarframkallandi viðlagi í laginu „Immobilized By Fear" fer platan að klárast. „The Lonely Boy" býður upp á sögu af einmana dreng sem neitar glamúrdrottningunni um eld og ákveður að syngja fyrir hana lag. Flott lag og aðstaða sem eflaust margir geta tengt sig við. Eina sem ég gæti þó sett út á það lag er stoppið undir lokin. Lagið er í raun einum of mikið dregið niður til að það ná upphefð aftur. Þó hefur textabrotið ýmislegt að segja.
Platan endar svo á laginu „The Lost Way Of Self Remedy". Nýjungar blasa hér við hjá Sign og er lagið afar grípandi og flott. Frábært lokalag. Textar eru góðir og allt að ganga upp. Ólíkt flestu sem ég hef áður heyrt með sveitinni eins og svo margt annað á plötunni. Textinn minnir ögn á íslensku verk sveitarinnar. Harkan er ekki eins mikil en lagasmíðar afbragð.

„The Hope" stendur vel undir nafni. Textagerð er frábær til hughreystingar, vonar og ástar. Geta líklega margir tengt sínar eigin reynslur og vonbrigði við lögin. Útvarpsmellur ofan á útvarpssmell á skilar plötunni án efa meiri sölu en fyrirverar hennar.
SIGN þroskast meir og meir með árunum og tel ég þá nú hafa fullkomnað sinn hljóm og framtíðin sé mjög björt eftir útgáfu plötunnar. Einnig er vert að minnast á umgjörð plötunnar. Vatíkanið sá um hönnun bæklings og umgjörðar og verður að segjast að það er afskaplega flott og lýsandi fyrir tónlistina sem diskurinn inniheldur.

SIGN á framtíðina fyrir sér og rokka þessa dagana fyrir breska alþýðu í samfloti við glysrisana Skid Row.
Eftir þessa hlustun tel ég að skyldan kalli þann 1.desember á Nasa þegar SIGN snúa aftur heim í fylgd með Skid Row.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.