• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Bloodgroup – Sticky Situation

Bloodgroup - Sticky Situation
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2007
Label: Síld

Við dönsum

Ég er kannski fordómafullur en yfirleitt finnst mér það há dansmúsík hversu sjaldan slík tónlist er skemmtileg. Þetta hefur t.d. verið viðvarandi í íslenskri danstónlist lengi vel en undanfarið hafa verið að koma fram sveitir sem greinilega hugsa um að skemmta hlustendum. Þar fara fremstar Bloodgroup (væri ekki gaman ef hún héti Blóðflokkurinn?) og FM Belfast, en báðar eiga þær það sameiginlegt að vera frábærar tónleikasveitir – sem því miður er alltof sjaldgæft í þessum tónlistargeira.

Sticky Situation er frumburður Bloodgroup og strax frá fyrsta lagi sýnir sveitin að tónlistin á ekki síður heima á plötu en á sveittum tónleikastöðum. Upphafslagið „Moving Like A Tiger" kemur strax hjartslættinum af stað og ótrúlegt nokk nær Bloodgroup að halda sama dampi plötuna á enda. Hver slagarinn rekur annann og nokkuð ljóst er að flokkurinn kann vel listina að setja saman grípandi rafmúsík, sem ekki öllum er gefið.

„Moving Like A Tiger" í sjónvarpssal

Platan er mjög jöfn að gæðum út í gegn og vart hægt að setja út á nokkurt lag. Einnig eru þó fá lög sem standa sérstaklega upp úr. Þannig að ef finna þyrfti einhvern galla á plötunni er það að hún er helst til einsleit yfir heildina. Einsleitnin hefur þó þann kost að hún rennur fölskvalaust í gegn og virkar þannig vel sem hin fullkomna partýplata. Heitast er þó partýið í lögunum „What I Mean", „Try On" og „The Carpenter" og má vænta að þau lög framkalli nokkra lítra af svita næstu mánuði.

Bloodgroup hefur ansi skemmtilegan hljóðheim þar sem töff hljóðgervlahljóð eru í forgrunni. Það má greina bæði áhrif frá 80's og 90's danstónlist en það er unnið úr þeim á afar smekklegan og skemmtilegan hátt. Hérna er því ekki um neitt nostalgískt grín að ræða, líkt og vinsælt hefur verið undanfarin ár, heldur skapar Bloodgroup tónlist sem endurspeglar núið einar vel.

Það er ekki algengt að plötur sem grípa mann við fyrstu hlustun haldi svo áfram að vinna á en það á við um Sticky Situation sem virðist bara verða skemmtilegri með tímanum. Hún er kannski ekki nógu fjölbreytt til þess að verða tímalaust listaverk og efast ég því um að hún eigi enn eftir að rata í spilarann eftir nokkur ár – en slíkt leiðir tíminn í ljós. Það sem skiptir málií dag er að platan kemur manni í gott skap í dag og það skiptir ekki máli hvort ég sé í vinnunni, í bílnum eða heima við – Sticky Situation fær mig til að dansa.

„The Carpenter" á tónleikum

Leave a Reply