• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Megas og Senuþjófarnir – Frágangur

Megas og Senuþjófarnir - Frágangur
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2007
Label: Sena

Langbesta poppplata Megasar áratugum saman

Þegar það fréttist nú fyrr á árinu að loksins væri að vænta nýrrar plötu frá Megasi, þeirrar fyrstu í tæp 6 ár, glöddust margir. Og ekki var minni gleðin þegar tilkynnt að plöturnar yrðu meira að segja tvær. Ekki það að Megasaraðdáendur hafi verið sveltir síðan Far þinn veg… (2001) kom út því síðan þá hafa allfelstar skífur meistarans verið endurútgefnar með urmul af aukalögum auk áður óútgefinna tónleikaskífna. Reyndar kom út samstarfsskífa með Súkkati fyrir um tveim árum en sú plata var því miður æði auðgleymanleg. Megas hefur alltaf verið góður, reyndar mis-góður en sem betur fer aldrei lélegur, og því ríkti að sjálfsögðu nokkur eftirvænting eftir nýju efni frá kallinum.

Frágangur kom út um mitt síðasta sumar og hafði þar Megas Senuþjófana sér til halds og traust. Sú sveit er að miklu leyti skipuð liðsmönnum Hjálma en auk þeirra fitlar hinn ágæti Guðmundur Pétursson gítarinn þar. Frágangur er svo sannarlega poppað verk og sem slíkt einkar þétt og grípandi plata. Það sem vekur strax athygli er hversu tímalaus hljómur plötunnar er og má þar líklega þakka Senuþjófunum. Platan minnir t.d. töluvert á plöturnar Millilendingu (1975) og Fram og aftur blindgötuna (1976) og hefði þess vegna eins getað komið út fyrir 30 árum sem og síðastliðið sumar. Yrkisefni Megasar halda þó andrúmsloftinu fersku og svífur tíðarandi dagsins í dag yfir vötnum.

Helsti aðall Megasar hafa alltaf verið textarnir og varla þarf að taka fram að hér slakar hann ekekrt á þeim efnum. Vegna yfirburðastöðu meistarans meðal íslenskra popptextasmiða hafa lagasmíðar hans oft fallið í skuggann. Vissulega kemur fyrir að lögin eru beygð undir orðin en slíkt gerist aðeins endrum og eins. Yfirleitt standa lög meistarans nefnilega lítt að baki textunum og er hann að mörgu leyti vanmetinn lagasmiður. Á Frágangi er það augljóst því hér rekur hvert frábært lagið annað og langt er síðan Megas sendi frá sér svo grípandi lagapakka.

Hápunktarnir á Frágangi eru margir en varla er hægt að segja nokkur lápunktur finnist. Megas og Senuþjófarnir gefa strax hljóminn fyrir plötuna í upphafslaginu, „Konung Gustavs III:s mord", sem er bráðskemmtilegt og innkoma Hjálma-Svíanna heppnast fullkomnlega. „Freyjufár" er frábært og grípandi popplag með skemmtilegum hljóðgervlamillikafla sem endurómar Millilendingu. „Huggutugga" hefur verið læf-favorít lengi og hljómar mjög vel í útsetningu Senuþjófanna. Að öðrum lögum ólöstuðum rís platan þó hæst í „(Minnst tíu milljón) Flóabitanótt" þar sem Megas reitir af sér hvert snilldarerindið á eftir öðru og kemur hlustandanum til þess að skella upp úr hvað eftir annað.

Þegar uppi er staðið vefst varla fyrir neinum að Frágangur er langbesta poppplata sem Megas hefur sent frá sér áratugum saman. Ásamt Senuþjófunum hefur honum tekist að setja saman nær hnökralaust verk sem er aðgengilegt og skemmtilegt. Það kæmi mér lítið á óvart ef enn yrði litið á þessa plötu sem eina af hans bestu eftir nokkra áratugi. Ef einhver hefur haldið því fram að Megas væri komin af sínu besta skeiði þarf vart frekari afsönnun en Frágang.

Leave a Reply