• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Megas og Senuþjófarnir – Hold er mold

Megas og Senuþjófarnir - Hold er mold
Einkunn: 4
Utgafuar: 2007
Label: Sena

Ár Megasar!

Hold er mold er seinni platan sem Megas og Senuþjófarnir sendu frá sér á árinu og kom út nú á haustdögum. Um mitt sumar kom fyrri platan Frágangur út, poppað verk sem var einkar þétt og grípandi plata. Plöturnar voru teknar upp á sama tíma og skiptingin á milli þeirra í raun ekki ákveðin fyrr en að upptökum loknum. Það er því ekki fjarri lagi að kalla þær tvíburaplötur og sé goðsögninni um góða og illa tvíburann skellt á plöturnar má segja að Frágangur sé hin poppaða og sumarlega plata á meðan Hold er mold er aðeins tormeltari og þyngri. Þetta er þó kannski ekki algilt enda nóg af léttum sprettum á nýju plötunni.

Fyrirfram grunaði mig að Hold er mold væri hálfgerð afgangsplata en sem betur fer er ekki slíkt að heyra á henni. Platan virkar kannski ekki eins grípandi við fyrstu hlustun og er síður en svo eins auðmeltanleg og fyrirrennarinn. Hún leynir þó svo sannarlega á sér og kemur sífellt á óvart við hverja hlustun.

Senuþjófarnir standa sig vel líkt og á fyrri plötunni og er hljómur hennar jafn skemmtilega tímalaus. Saman mynda plöturnar góða heild og kallast skemmtilega á séu þær spilaðar hvor eftir annarri. Öll umgjörð þeirra samsvarar sér líka, t.d. hönnun umslaganna og því greinilegt að vilji sé til að spyrna þeim saman. Það verður þó að minnast á verk Ragnars Kjartanssonar á forsíðu Holdsins þar sem sjá má nokkrar stórbrjósta gálur njóta smóks á leiði Jónasar Hallgrímssonar og samsvarar titli plötunnar á skemmtilegan hátt.

Það er mikið um kræsingar á plötunni og í fljótu bragði má nefna „Hvörsu fánýt að fordildin sé", „Kæra Karí", „Ná þér" og „Upprisubúðir" sem hápunkta. Gaman er að heyra hið frábæra „Tímamót" fullbúið en demó af laginu leyndist á endurútgáfunni af Hættuleg hljómsveit & glæpakvendið Stella (1990) sem kom út í fyrra. „Tóbaksvísa" er frábært lag með skemmtilegum bakröddum en mætti alveg vera mun lengra. Í lokalaginu „Úr skúmlum skotum" heyrist svo á ný í kórnum sem opnaði Frágang og því má segja plöturnar séu þannig snyrtilega hnýttar saman.

Pakkinn er vissulega stór og safaríkur en því miður ekki alveg jafn þéttur og fyrri plata ársins og stendur því kannski hálfu skrefi aftar en Frágangur. Aðdáendur meistarans hafa hér nóg að kjamsa enda er Hold er mold fjölbreyttari og að sumu leyti bitastæðari en fyrirrennarinn. Hinn almenni hlustandi mun líklega hafa mun meira gaman af Frágangi en þeir sem virkilega vilja sökkva sér í Holdið fá ríkulega uppskeru.

Nú er bara vonandi að útgefendur haldi áfram að styðja við bakið á Megasi og sjálfur myndi ég ekki slá hendinni á móti tveim plötum á ári frá meistaranum í framtíðinni. Á þessum tveim skífum hefur Megas sýnt að hann á enn nóg inni og með réttum samstarfsmönnum (sem Senuþjófarnir voru svo sannarlega) getur útkoman verið stórkostleg.  Plöturnar standa saman sem eitt það besta sem hann hefur sent frá sér og því er ekki úr vegi að útnefna þetta ár Megasar!

2 Athugasemdir

  1. arnar · 06/12/2007

    en gaman. Tveir dómar um hundleiðinlegan tónlistarmann.

  2. Friðrik Sigurbjörn Friðriksson · 08/12/2007

    Merkilegasti tónlistarmaður íslenskrar tónlistarsögu kominn á sjötugsaldurinn og er ennþá sami snillingurinn

Leave a Reply