• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Skid Row og SIGN á NASA 1.des

Skid Row og SIGN á NASA 1.des

Glysrokkandi kvöld á NASA

SIGN fengu Skid Row í heimsókn á NASA.

-dgh

Kynslóðir mættust og húsfyllir var á Nasa þegar íslenska rokksveitin SIGN, steig á svið rúmlega 21:00.

SIGN hóf leikinn á lagi af nýjustu plötu sveitarinnar, The Hope. "Hold Me Alive" rokkaði stemminguna upp fyrir sannkallað sveitt og þétt rokkkvöld. Þakklátur fínni mætingu, kynnti Ragnar Sólberg sveit sína og blönduðu þeir saman gömlu og nýju efni þetta kvöldið. "Moveless", "All Gone","Dancing In", "Misguided" og "The Hope" voru öll frábærlega flutt. Sveitin verður þéttari og þéttari með hverjum deginum.

SIGN luku sínu setti með laginu "Thank God For Silence" af samnefndri plötu frá árinu 2005 og hituðu gesti kvöldsins vel upp fyrir komandi átök. Án efa einir bestu tónleikar sem ég hef séð með þessari sveit.

Eftir að hafa gefið gestum tækifæri á sígarettupásu og ferð á barinn, stigu Skid Row á svið. Halda mætti að Sebastian Bach sjálfur væri mættur en annað var upp á teningnum þegar núverandi söngvari, Johnny Solinger, steig á svið. Ekki var erfitt að ruglast á honum og goðinu Bach, vegna klæðaburðar Solinger. Fannst mér oft á tíðum Solinger ekki vera hann sjálfur, heldur einungis söngvari í Sebastian Bach-leik. Hljómveitin var afar skemmtileg og hress á sviðinu og tóku vel þekkta slagara á borð við "Monkey Business", "I Remember You" og ofurslagarana "18 and Life" og "Youth Gone Wild", áhorfendum og undirrituðum til mikillar gleði. "Youth Gone Wild" var þó afar vinsælt í flutningi SIGN fyrr á árinu hér á landi og hefur án efa haft áhrif á ákvörðun Skid Row að taka SIGN með sér á ferðalag.

Meðlimir sveitarinnar minntust í gríð og erg á hversu langt væri liðið frá síðustu heimsókn sveitarinnar en rúmlega 16 ár eru liðin frá því að sveitin tróð hér seinast upp. Hinn goðsagnakenndi bassaleikari, Rachel Bolan, þakkaði svo fólkinu fyrir stuðninginn og flutti lag á meðan Solinger fékk sér vænan andvara baksviðs. Í raun má segja að SIGN hafi stolið senunni frá þessum gömlu, góðu (sumir myndu kannski segja útbrenndu), rokkurum en Skid Row skiluðu þó sínu. Sveittu, ruddalegu rokki í bland við tregafullar kraftballöður.

Afbragðskvöld í alla staði og undirritaður var meira en sáttur við sína fyrstu Skid Row tónleika. Þó fjarvera Sebastian Bach skyggði ögn á kvöldið og var mér alltaf ofarlega í huga.

 

1 Athugasemd

  1. Viðar · 03/12/2007

    þetta var gaman !

Leave a Reply