• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Rökkurró – Það kólnar í kvöld

 • Birt: 20/12/2007
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 6

Rökkurró - Það kólnar í kvöld
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2007
Label: 12 Tónar

Jólahreingerningin er búin uppá háalofti, nú er bara að taka hljóðfærin fram og spila…

Rökkurró er hljómsveit skipuð 5 ungmennum úr Reykjavík. Meðlimir Rökkurróar komu saman í byrjun árs 2006 og var markmið bandsins í fyrstu að covera lög úr kvikmyndinni Amélie.  En (sem betur fer) varð ekkert úr því heldur tóku þau upp á því að gera sína eigin ´Amélie´-tónlist.  Þegar árið 2006 var rétt hálfnað var Rökkurró búin að gefa út fjögurra laga EP plötu sem seldist upp og gerði þeim kleift að fá plötusamning hjá 12 tónum.

Dyggir hlustendur Rásar 2 ættu að kannski að kannast við Rökkurró þar sem lagið Ringulreið hefur verið mikið spilað þar síðustu mánuði.

Ég verð að viðurkenna að þegar ég fékk fyrst Það kólnar í kvöld í hendurnar þá vissi ég ekkert um þetta band. Ég hélt að þetta væri einhvers konar þungarokksband. Boy, was I wrong. Rökkurró sko allt annað en þung. Hún er meira klassísk, seiðandi og full af dulúð uppi á illa lýstu háalofti.

Mér finnst svolítið erfitt að skilgreina hvernig tónlist Rökkurró spilar. Á vefsíðu Rökkurróar segja þau sína áhrifavalda vera rökkur, háaloft og pöndur (??) og hjálpar það svona dálítið við að útskýra tónlist þeirra því að hún minnir mig ótrúlega á einhvers konar háaloftsstemmingu og rökkrið sem liggur yfir landinu þessa daganna. Ég hef ekki enn fundið hvað pöndur hafa með málið að gera en það kemur kannski seinna.

Það kólnar í kvöld hefur varla farið úr spilaranum mínum síðan ég fékk hana og ég verð að segja að þetta er ein af þessum plötum sem mér finnst alveg magnaðar.  Hún hefur gjörsamlega brætt hjarta mitt (og það er ekki auðvelt).

Platan hefur nánast allt það sem mér finnst oftast leiðinlegt að hlusta á eins og klassísk hljóðfæri (fiðlur, selló og slíkt) og íslenska texta. Hér eru allir textarnir á  íslensku, textar sem segja sögur og eru góð tilbreytni í þeirri stækkandi flóru íslenskra banda sem syngja eingöngu á ensku.  Þessi plata tekur mig aftur í tímann en er á sama tíma nútímaleg. Mér finnst ég verða lítil stelpa aftur. Lítil stelpa að hlusta á sögustund. Textarnir ná til mín, þeir eru um eitthvað, þeir segja sögur. Sögur sem ég vil hlusta á.

Hér er smá textabrot úr fyrsta lagi plötunnar – „Hún".

 

Börnin grétu gleði tárum því hún var komin aftur…sú sem allir elskuðu…endurheimt úr helju..

  „Hún" er að mínu mati eitt besta lag plötunnar. Einnig eru „Ringulreið" og „Heiðskýr heimsendir" góð. Annars eru öll lögin góð. Ég get varla gert upp á milli þeirra.

Ég gæti farið út í langa romsu um hvað það er sem gerir þessa plötu svo frábæra en ég ætla ekki að blaðra og blaðra heldur bara mæla með að allir upplifi Það kólnar í kvöld sjálfir. Þið munið ekki sjá eftir því.

Einhvers staðar las ég umfjöllun um Rökkurró þar sem hún var sett í hóp svokallaðra ´krútthljómsveita´ (eins og Sigur Rós, Múm og álíka bönd) en ég verð að segja að mér finnst Rökkurró ekki alveg falla inní þann hóp. Jú, þau eru svo sannarlega krúttleg en þau hafa nokkuð fram yfir þessi týpísku krúttbönd að færa. Þau eru með jólaljósin kveikt á háaloftinu.

Þessi plata fær 4,5 í einkunn hjá mér.  Mér finnst hún frábær, vel spiluð, vel sungin og augljóslega hefur verið sett mikil sál í hana.  Það eina sem ég gæti fundið að henni er að ég held ég eigi ekki eftir að hlusta mikið á hana svona rétt yfir hásumarið.

Rökkurró á tónleikum @ Lantaren/Venster, Rotterdam Netherlands

 

6 Athugasemdir

 1. Einar · 23/12/2007

  Hér með er ég alveg hættur að taka mark á rjómanum

 2. Alex · 25/12/2007

  Gleðileg jól Einar, og takk fyrir að skrifa góðar athugasemdir. Gaman væri að fá að lesa rökstutt mál þitt, þ.e. ef þú hefur tök á því.

 3. Beggi · 27/12/2007

  Ég hef bara aldrei vitað annað eins.

  Ég skil ekki hvernig skoðun eins gagnrýnanda, sem ég held að sé þannig sem að Rjóminn virkar geti stuðað fólk þannig að allir pennar Rjómans eru settir undir einn hatt og dæmdir eftir því.

  Ég hef ekki og er ekki sammála öllum dómum hér en ég tek því bara eins og hverju öðru en þó tek ég það sérstaklega gilt ef dómurinn er rökstuddur. Ef dóma er hraunuð niður og rökstutt að þá kaupi ég alveg skoðun þessarar einu manneskju sem tók sér tímann í að skrifa dóminn. Verra finnst mér ef hlutir eru dregnir niður já eða hent upp í hæstu hæðir án nokkurs rökstuðnings, bara svona af því bara.

  Rjóminn var betri fyrir ári síðan finnst mér, þá var meira verið að skrifa um nýja tónlist sem var ekki komin í allra eyru og Rjóminn var fljótur að því. Núna finnst mér hann alltaf skrefinu á eftir. Það eru hérna engar auglýsingar sem þýðir að væntanlega er engin er að fá greitt fyrir sitt framlag á síðunni.

  Haldið áfram því sem þið eruð að gera, brýnið hnífana og komið sterk inn í árið 2008. Það eru ekki margir vefir sem haldast í loftinu svona lengi eins og þið hafið gert á Íslandi, það deyja flestir og detta niður í eitthvað rugl.

  Gleðilega hátíð.

 4. Pétur Valsson · 28/12/2007

  Sæll Beggi og takk fyrir hvatninguna.

  Þó er leiðinlegt að þér finnst Rjóminn hafa farið aftur á undanförnu ári og sé ekki eins með puttann á púlsinum og áður.

  Það hefur ætíð verið þannig að meiri hlutinn af þeim plötum sem skrifað er um fáum við frá íslenskum útgáfum og dreifingaraðilunum og hefur umfjöllun okkar því alltaf að einhverju marki miðast af því hvaða plötur þessir aðilar senda okkur.

  Hins vegar reynum við líka að skrifa reglulega um nýja áhugaverða tónlist en það fer auðvitað eftir áhugasviði hvers og eins penna hvaða og hvernig plötur verða þá fyrir valinu.

  Á undanförnu ári hafa þónokkrur pennaskipti átt sér stað hérna og þá fylgja sjálfkrafa einhverjar árherslubreytingar – enda er enginn tónlistarsmekkur eins.

  Sé litið yfir undanfarið ár má sjá mikla fjölbreytni í umjöllunum og hefur Rjóminn t.d. tekið fyrir fjöldann allann af plötum sem hvergi hefur verið minnst á í öðrum íslenskum fjölmiðlum. Auk þess birtust dómar um margar lykilplötur ársins fyrr hér en í öðrum fjölmiðlum. Einnig verður að viðurkennast að fjölmargar áhugaverðar og merkilegar plötur urðu útundan, enda er ógerningur að komast yfir allt þar sem öll vinna við síðuna er unnin af fámennum hópi sjálfboðaliða.

  m/kveðju
  Pétur Valsson

 5. Arnar · 06/01/2008

  ég get nú ekki sagt annað en að mér finnist þessi dómur bara fínn.

 6. Hildur Maral · 08/09/2008

  Þetta er svo yndisleg plata…

Leave a Reply