• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Hjálmar – Ferðasót

  • Birt: 29/12/2007
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Hjálmar - Ferðasót
Einkunn: 3
Utgafuar: 2008
Label: Sena

Sama gamla tuggan, nema bragðbætt!

Hljómsveitina Hjálma ættu flestir íslendingar að kannast við, en þeir félagarnir unnu hug og hjörtu þjóðarinnar með notalegum reggí lögum sem komu eins og ferskur andblær inn í íslenskt tónlistarlíf með frumburði hljómsveitarinnar, Hljóðlega af stað. Platan sú kom út árið  2004 en síðan þá hafa Hjálmar sent frá sér tvær plötur; Hjálmar (2005) og svo hina ljúfu Ferðasót sem kom út seint á síðasta ári.

Við fyrstu hlustun veldur Ferðasót hlustanda sínum vissulega vonbrigðum. Hvar eru grípandi laglínurnar, skemmtilegu reggítaktarnir og frumlegu pælingarnar? Þegar betur er að gáð kemur þó svarið glögglega í ljós; þær eru þarna, það þarf bara að venjast plötunni fyrst. Það tekur nefnilega lengri tíma að sættast við Ferðasót en ég hefði haldið. Þótt platan hafi lítið sem ekkert nýtt fram að færa (sömu taktpælingar, svipaðar textasmíðar) er hún rökrétt framhald af plötunni Hjálmar og kærkomin viðót í jóladiskaflóruna.

Það fer ekki mikið fyrir mannabreytingum hljómsveitarinnar á þessari nýjustu plötu hennar, en svíarnir Petter Winnberg, Nils Olof Törnqvist og Mikael Svensson sögðu skilið við hljómsveitina og í þeirra stað komu þeir Helgi Svavar, Davíð Þór og Valdimar úr Flís. Gamla góða reggíið er enn við völd, en eitt og eitt lag sker sig þó úr  sem eilítið íslenskari lagasmíð en áður. Í því samhengi má meðal annars nefna lagið „Ferðasót“, en þar yrkja Hjálmar undir ferskeytluhætti sem kemur skemmtilega út og lífgar upp á plötuna. Meðal annarra laga sem standa upp úr á Ferðasót má nefna lögin „Nú er lag“, „Úr varabálki“ og „Vagga vagga“ auk hins frábæra „Vísa úr álftamýri“, en það lag er að mínu mati eitt besta lag ársins 2007 og verður eflaust langt þar til það hættir að hljóma á öldum ljósvakans. Plötunni líkur svo á krúttlega laginu „Sálmur Boeves“ og skilur hlustandann eftir sáttan með sitt.  

Það er samt ekki laust við að ég sakni hinnar myrku hliðar Hjálmaliða, ef svo má kalla lögin sem ekki er eins bjart yfir. Þau hafa verið nokkur í gegnum tíðina („Hljóðlega af stað“, „Húsið hrynur“…) og eru yfirleitt flottustu lögin hverju sinni. En þá er bara að bíða og vona að næsta plata verði í myrkari kantinum – þar sem ég er strax farin að hlakka til næstu plötu og þess sem hún mun hafa upp á að bjóða. Þangað til mun Ferðasót sjá mér fyrir afþreyingu á köldum vetrarkvöldum eins og henni einni er lagið.
 

Leave a Reply