• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

múm – Go Go Smear The Poison Ivy

múm - Go Go Smear The Poison Ivy
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2008
Label: Fat Cat

Ferskur andblær leikur um múm

Það er alltaf gaman að láta koma sér á óvart. Það hefur verið ákveðin þróun í tónlist múm sem smátt og smátt hefur færst frá hinum leikandi og óvænta hljómi sem einkenndi Yesterday Was Dramatic, Today is OK til þess stirða og dauflega sem heyrðist á Summer Make Good. Það var því óvænt og gleðilegt að heyra múm kollvarpa tónlistinni á Go Go Smear The Poison Ivy með því að bæta fjölbreyttum stílbrigðum – og jafnvel hressleika! – inn í tónlistina sína án þess að missa tengslin við hljóðheim sveitarinnar sem gerir múm að múm.

Á síðustu plötu múm-liða var sveitin komin í öngstræti þar sem hún sat föst og virtist hvergi geta sig hrært. Platan var uppfull af mis-áhugaverðum laglstúfum sem í besta falli minntu á fyrri verk, yfir öllu hvíslaði svo söngkona sveitarinnar á barnslegan hátt og gerði plötuna nær óþolandi áheyrnar. Söngur tvíburasystranna hafði nú alltaf verið umdeildur, en átti sína aðdáendur, og álíka umdeildur hefur söngurinn á nýju plötunni verið. Nú hefur annar upphafsmanna sveitarinnar hafið upp rausn sína og í stað hvísls síðustu platna eru Hildur Guðnadóttir, Ólöf Arnalds og Mr. Silla óhræddar við að láta loft leika úr lungum. Það þarf því vart að taka fram að þeir sem dáðu hvíslið finnst þetta hinn mesti óskapnaður á meðan þeir (og ég þar á meðal) sem hundleiðir voru á því, gleðjast yfir löngu tímabærri tilbreytingunni.

Strax í upphafslaginu „Blessed Brambles" gefur þessi samsöngur tóninn fyrir plötuna, en lagið sjálft – sem er líklega að „múm"-legasta á plötunni, sannfærir hlustendur um að hann sé ekki örugglega að hlusta á rétta hljómsveit. Svo dvelja þau ekki lengur við gamla tíma og taka til við að endurskapa og umsnúa múm-hljómnum á skemmtilegan hátt. Platan tekur almennilega við sér í „They Made Frogs Smoke Til They Exploded", lagi sem hefði verið óhugsandi á síðustu tveim múm plötu.
 

 They Made Frogs Smoke Til They Exploded:

  

Já, á Go Go Smear The Poison Ivy er eins og lífið færist aftur í múm og geislar platan af sköpunargleði. Það má t.d. heyra á gleðinni sem skín í gegnum lögin og fjölbreytninni sem á plötunni er að finna. Yfirleitt heldur múm sig við sinn einkennandi hljóm en breytir út af vananum með óvæntum laglínum og skemmtilegum stílbrögðum héðan og þaðan. Þannig eru t.d. „Marmalade Fires", „Guilty Rocks" og „Winter (What We Never Were After All)" greinilega múm-lög en bera með sér ferskan andblæ. „Moon Pulls" hljómar ólíkt öllu sem sveitin hefur sent frá sér en „Dancing Behind My Eyelids" minnir eilítið á hinn stórgóða frumburð sveitarinnar. 

Go Go Smear The Poison Ivy er fjölbreyttasta plata múm og hafa mannabreytingar greinilega gert sveitinni gott. Það mátti varla eiga von á einhverjum ferskleika frá sveitinni, svo föst og niðurnjörvuð var hún orðin í stíl sínum, en á þessari skífu er líkt og hún enduruppgötvi sig og leyfi sér að leika lausum hala. Platan er kannski ekki sú besta frá múm því hvergi nær hún stórkostlegum hæðum, líkt og kom fyrir á fyrstu tveim breiðskífunum, en hins vegar tekur hún Summer Make Good í nefið.
 

Dancing Behind My Eyelids (aðdáendamyndband):

 

3 Athugasemdir

 1. Símon · 10/01/2008

  Hvers vegna fékk hún ekki hærra ef þér fannst hún svona góð?

 2. Jens · 11/01/2008

  Þetta er án nokkurs vafa þeirra besta plata múm.

 3. Pétur Valsson · 11/01/2008

  Símon:

  Einkunnargjöfin hér er frá 0,0-5,0 þannig að 3,5 er nú ansi fín einkunn og alls ekki lág.

  Íslensk dagblöð virðast hafa það fyrir reglu að ef íslensk plata er ekki ömurleg fær hún annaðhvort 4 eða 5 stjörnur og yfirleitt 3 stjörnur lægsta einkunn sem gefin er fyrir íslenskt efni. Það heyrir t.d. til undantekninga ef lægri einkunn en það sé gefin í Mbl eða Fbl.

  Hér reynum við að nota allan skalann og má sjá viðmiðun einkunnargjafar á forsíðunni. Þegar plata fær 3 eða hærra finnst gagnrýnanda um nokkuð fína plötu að ræða þannig að þá er hægt að tala um góða einkunn fyrir viðkomandi plötu.

Leave a Reply