• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

MGMT – Oracular Spectacular

MGMT - Oracular Spectacular
Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: Columbia

.

Í október á síðasta ári kom út sem stafrænt niðurhal frumburður hinnar frábæru MGMT, Oracular Spectacular, en þar blandar sveitin saman glysirokki, diskói, elektróník, sækadelíu og nútíma indípoppi á stórkostlegan hátt. Platan vakti fljótlega athygli tónlistarnördanna sem geta glaðst yfir því að nú í janúar kemur platan út í föstu formi á vegum stórútgáfunnar Columbia. Því er ekki úr vegi að kynna lesendum Rjómans aðeins fyrir þessari frábæru plötu.

MGMT (borið fram Management) var stofnuð af þeim Andrew VanWyngarden og Ben Goldwasser árið 2002 og sendi frá sér EP-plötuna Time To Pretend þremur árum síðar, en titillag hennar auk hins frábæra „Kids“ er einnig að finna á Oracular Spectacular. Nú hefur sveitin stækkað í fimm manna læf-band og hefur m.a. tvívegis túrað með Of Montreal, nú síðast í haust – og því synd að MGMT skyldi ekki slæðast með á Airwaves hátíðina (við skulum bara krossleggja fingur fyrir næstu hátíð). Fyrir áhugasama má svo minnast á það að VanWyngarden og Kevin Barnes úr Of Montreal hafa eitthvað sýslað saman undir nafninu Blikk Fang og vonandi kemur afraksturinn af því einhvern tímann út.

 „Electric Feel“

Eins og áður segir blanda MGMT ótrúlegustu tónlistarstefnum saman tvist og bast og skapa þannig sinn sérstæða stíl þar sem allt virðist leyfileg. Á Oracular Spectacular heyrast tilvísanir hingað og þangað í tónlistarsöguna án þess að MGMT hverfi frá sínum eigin stíl. Í „Electric Feel“ umbreytast þeir í úrkynjað geldingadiskóband, í „Of Moons, Birds and Monster“ minna þeir á Sparks (sveit sem er nú sjálf þekkt fyrir að fara um víðan völl á plötum sínum) og í „Kids“ framkalla þeir ómótstæðilegt elektróstuð sem fær mann nær sjálfkrafa til þess að fá sér pillu og reifa fram á morgun.

Lagasmíðarnar eru allar frábærar og hvergi er dauðan punkt að finna á plötunni. Auk áðurnefndra laga má einnig minnast á „Weekend Wars“, „The Handshake“ og „Pieces of What“ þar sem sveitin sýnir fram á bragðskyn sitt fyrir allra handa poppmelódíum. Upphafslagið „Time To Pretend“ er svo einhverskonar stefnuyfirlýsing þar sem þeir tjá hlustendum m.a. ætlun sína að giftast fyrirsætum og taka nóg af heróíni – hvort slíkt sé vísun í ákveðnar persónur getið þið sjálf skorið úr um.

Oracular Spectacular er ein af þessum fágætu plötum sem hreinlega kalla á að vera spilaðar aftur og aftur. Jafnvel undirritaður, sem sjaldnast getur hugsað sér að hlusta á sömu plötuna oftar en einu sinni í viku, stendur sig að því að spila Oracular Spectacular tvisvar – jafnvel þrisvar – í röð án þess að finna fyrir vott af endurtekningu. MGMT hafa tekist frábærlega upp með frumburð sinn og nú er bara að vona, almennings vegna, að hróður þeirra eigi eftir að aukast um muna næstu mánuði – enda virðist allt líta út fyrir það. 

 „Time To Pretend“ læf hjá Letterman
 

2 Athugasemdir

  1. Egill · 18/01/2008

    Þetta er frábær plata og hefði eflaust verið á topp tíu listanum mínum fyrir síðasta ár hefði ég heyrt hana fyrr.

  2. Pétur Valsson · 18/01/2008

    Það er nú samt alveg hugsanlegt að hún verði gjaldgeng á árslistum 2008 þar sem hún var ekki til útgefin á diski fyrr en núna.

Leave a Reply