Chris Potter Underground – Follow The Red Line

Chris Potter Underground - Follow The Red Line
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2008
Label: Sunnyside

Það sem einkennir plötuna er djammið. Þetta eru bara afburðagóðir hljóðfæraleikarar að skemmta sér.

Chris Potter er líklega ein skærasta saxófón stjarnan í dag. Fyrir stuttu gaf Potter út tvær plötur á sama tíma, Follow The Red Line sem er tónleikaplata og Song For Anyone. Hér verður tónleikaplatan tekin til umfjöllunar.

Hljómsveit Chris Potter's, Underground, samanstendur af honum sjálfum á tenór saxafón og bassa klarínett, Craig Taborn á Fender Rhodes hljómborð (alvöru retro), Adam Rogers á gítar og Nate Smith á trommum. Vert er að taka eftir því að bassaleikari er enginn, hljómborðsleikarinn og gítarleikarinn skiptast á að leika það hlutverk. Bassaleikarar hefðu samt ábyggilega gaman að hlusta á þessa plötu.

Fyrsta lag plötunnar, Train, byrjar rólega. En svo, hlustendum að óvörum þá byrjar Nate Smith að slá þennan æðislega funk takt. Ég veit ekki hvernig á að lýsa þessu, en ofur þétt grúf er það eina sem mér dettur í hug. Yfir grúfið koma flóknar og töfrandi línur Chris Potters og angurvært gítarsóló. Eins og í flestum lögunum þá sést að trommarinn er með á nótunum. Næsta lag er í svipuðum dúr nema hér má heyra ögrandi laglínur sem fara með hlustandann út á ystu nöf.

Pop Tune #1
leyfir hlustandanum aðeins að slaka á eftir æsinginn í fyrstu tveimur lögunum með rólegri laglínu. Sólóröðin byrjar á gítarleikaranum og byggir hann rólega upp afar blúsað sóló. Síðan kemur laglínan aftur í nokkur skipti sem endar með upplausn. Potter spilar einn í nokkrar sekúndur og viti menn! Funk geðveikin byrjar aftur. Fantagott saxófón sóló yfir stöðugan funk takt. Það er ekki hægt annað en að dást að trommaranum Nate Smith. Maður á erfitt með að hreyfa sig ekki við taktinn.

Lagið Zea er mesta tónverk plötunnar og jafnframt eina rólega lagið. Þetta er ekki plat rólegheitalag eins og Pop Tune #1. Hér spilar Chris Potter á bassa klarínett sem er ágætis tilbreyting. Það er enginn spuni í laginu enda sést það á lengd þess. Tæpar sjö mínútur? Það er ekki neitt. Þetta hefur líklega verið síðasta lag fyrir uppklapp.

Notkun bassa klarínettsins heldur áfram í Togo, lokalagi plötunnar. Togo hallast dálítið út í afro-beat tónlistarstefnuna sem er náttúrulega komin frá meistara Fela Kuti. Það besta við Togo er hljómborðssólóið sem endar í einhverju brjálæði. Ég man að ég öskraði eftir að hafa heyrt það í fyrsta sinn. Undirleikur Potter's á klarínettið á meðan Taborn tekur sóló gefur góða fyllingu. Til þess að ljúka plötunni tekur Potter aftur upp saxófóninn og gleður eyru hlustenda.

Það sem einkennir plötuna er djammið. Þetta eru bara afburðagóðir hljóðfæraleikarar að skemmta sér. Lög disksins eru einungis sex en það stafar af lagalengdinni sem er oftast 13-14 mínútur. Diskurinn var tekinn upp á litlum klúbbi í New York sem nefnist Village Vanguard. Sá klúbbur er ansi frægur innan jazzheimsins og telst mikið afrek að hafa spilað þar.

Hvað er hægt að segja meira um þessa plötu? Þetta er funk í hæsta gæðaflokki þar sem spilagleðin ræður ríkjum. Hér er oftast djammað yfir einn eða tvo hljóma, ekkert flókið. Þó eru lagasmíðarnar oft ansi flóknar og alvarlegar. En samt sem áður þá snýst þetta allt um gleði.

Ég ákvað að finna myndband með þeim félögum en fann bara eitt sem er ekki farsímaupptaka. Hér er reyndar annar gítarleikari, Wayne Krantz, í sviðsljósinu og við sjáum ekki mikið af Chris Potter spila. En myndbandið gefur góða sýn á hljómsveitina í heild:

Chris Potter Underground – Ever Present (ekki á disknum):

Ég hef mínar efasemdir um að þessi diskur fáist í plötubúðum hérlendis. En það má alltaf kaupa diskinn á Amazon, CDConnection eða einhverju álíka.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.