Yndi Halda – Enjoy Eternal Bliss

Yndi Halda - Enjoy Eternal Bliss
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2008
Label: Big Scary Monsters

Adrenalínsprauta beint í hjarta Post-Rock stefnunnar

Þeir eru margir sem hafa sagt að post-rock stefnan sé dauð og að nú sé ekkert eftir nema dauðakippir hjá hinum og þessum þrjóskum hljómsveitum sem sífellt reyna að endurvekja stefnuna. Þessar kenningar voru þó afsannaðar þann 13. nóvember 2006 þegar fyrsta plata bresku post-rock sveitarinnar Yndi Halda kom út, en platan er hávær rödd í hóp þeirra mótmælenda sem lýsa stefnuna á lífi.

Yndi Halda samanstendur af fimm ungum mönnum og rekur hljómsveitin ættir sínar til Canterbury á Englandi þar sem hún var stofnuð árið 2001. Platan, Enjoy Eternal Bliss, ber „sama“ nafn og hljómsveitin nema á fornnorrænni tungu og var gefin út, eins og áður var sagt, árið 2006 en þó aðeins á stafrænu formi í gegnum vefsíðu hljómsveitarinnar. Það var ekki fyrr en ári seinna sem platan kom í búðir, merkt sem LP plata þó svo að hún beri aðeins fjögur lög. Þó ber þess að geta að lögin eru á skalanum 11 – 22 mínútur svo hér er ekki stutt plata á ferð, en í heild er platan 65 mínútur að lengd.

Enjoy Eternal Bliss er að mati undirritaðs ekki einungis ein af betri erlendu plötum ársins 2007 heldur hefur hún sett fordæmi í heimi post-rocks um að sá skortur á frumleika sem sagður er hafa átt sér stað er ekki að öllu leyti réttur. Platan inniheldur öll venjulegu einkenni Post-Rocksplötu; hún er mestmegnis instrumental með hæga uppbyggingu að power-köflum og sveifla lögin hlustandanum upp og niður tilfinningaskalann eins og laufblaði í vindi. Það sem Yndi Halda hins vegar koma með inn í sína tónlist er fiðluleikur og þar með nokkurskonar folk bragur á plötunni. Þessi litli hlutur (sem þó telur 1/5 af hljóðfæraleikurum sveitarinnar) gefur plötunni ferskan tón og er hann ólíkur flestu í þeirri stefnu sem platan heyrir til.


Platan í heild er mjög vel gerð að öllu leyti og er hljóðfæraleikur og hljóð til fyrirmyndar – og fannst mér satt að segja ótrúlegt að hér væri um að ræða frumraun hljómsveitarinnar þegar ég heyrði plötuna í fyrsta skipti. Sjónrænir tilburðir plötuumslagið sjálft er heldur ekki neitt til að skammast yfir, en þegar umslagið er skoðað liggur enginn vafi á hvaða tónlistarstefnu hljómsveitin tilheyrir.

Sú formúla sem einkennt hefur lög síðrokks frá upphafi, hæg uppbygging sem leiðir að þungum rokk kafla, er enn í fyrirrúmi á Enjoy Eternal Bliss. Í fyrstu bjóst ég við því að þetta myndi skemma þann frumleika sem hljómsveitin væri að skapa sér, en allt kemur fyrir ekki og njóta allir kaflar sín mjög vel í þessari „týpísku“ uppröðun. Ég mæli svo sérstaklega með power-kaflanum í „We Flood Empty Lakes“, en hann er án efa með þeim betri sem heyrst hefur.

Enjoy Eternal Bliss er adrenalínsprauta beint í hjarta Post-Rock stefnunnar í fögru umslagi sem enginn ætti að láta framhjá sér fara, hvort sem á ferð sé post-rock aðdáandi eður ei og er það vonandi að sambærilega frumleg plata muni líta dagsins ljós frá Yndi Halda í náinni framtíð.

One response to “Yndi Halda – Enjoy Eternal Bliss”

  1. Hildur Maral says:

    ..yndisleg plata.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.