Rjómadómur: The Mars Volta – The Bedlam In Goliath

Rjómadómur: The Mars Volta - The Bedlam In Goliath
Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: Universal Motown Records

Tónlistarveislan er bara einum of góð til að hreyfa sig eða þjóna öðrum þörfum líkamans. Þær geta beðið.

Stundum hafa plötur skapað það mikið umtal fyrir útgáfu að Rjómanum finnst við hæfi að fleiri en einn gefi álit sitt á henni. Slíkar plötur eru svokallaðar Rjómaplötur. Eftir sem áður er einn sem skrifar hefðbundinn dóm en að neðanverðu eru svo birtar örstuttar umsagnir annarra. Meðaltal einkunna er reiknað og aðaleinkunn ákveðin með námundun að næstu heilu eða hálfu tölu.

Það var mikill sorgardagur þegar andlát At the drive-in var tilkynnt . Relationship of Command var frábær plata þessarar kröftugu rokksveitar. Gleðin var þó á sama kalíberi þegar ég heyrði fyrst Tremulant EP, enda greinilegt að Mars Volta ætlaði sér stóra hluti. Greinilega betri helmingurinn og engan vegin á sama stað og hin drepleiðinlega Sparta sem hafði þá gefið út sýna frumraun tæpu ári áður. 23. Júni 2003 var svo rokið niður í Skífu með tvöþúsundkarl í vasanum og De-loused in the Comatourium var keypt – dýrðleg plata sem enn í dag er í hópi minna uppáhalds. Frances the Mute vakti svo upp enn frekari von um að þessi sveit myndi gera stórkostlega hluti um ókomin ár með sínu sérstæða latino progg-rokki. Árið 2006 kom svo út þriðja breiðskífa The Mars Volta, Amputechture, sem gerði nákvæmlega ekkert fyrir mig – sama kvæðið kveðið aftur, bara af minni innlifun, með þurri tungu og litlum leiktilburðum.

The Bedlam in Goliath er fimmta stúdíóplata og fjórða breiðskífa The Mars Volta. Enn og aftur þema-plata, sem í þetta skiptið snýst í kringum Ouija-spil (eða einskonar andaglas) sem þeir félagarnir höfðu keypt þegar þeir voru staddir í Ísrael. Með fjárfestingunni í þessu andaglasi upphófst röð undarlegra atburða. Auðvitað er þó ómögulegt að skilja neitt í neinu af þessu, sökum illskiljanlegrar og tilgerðalegrar textagerð Cedrics.

Opnunarlaginu, „Aberinkula“, er varpað yfir mann eins og napalm-sprengju á rólegum morgni í Víetnam. Kröfugt hávaðarokk sem gefur vissulega tóninn fyrir það sem koma skal – flott lagasmíði sem sómir sér vel á sínum stað. Á fyrri plötum Mars Volta duttu lögin gjarnan niður í rafrænan hljóðheim, djassbræðinga, effektasúpur og jafnvel létta latino sveiflu. En á Bedlam er hundrað prósent keyrsla nærri alla plötuna: þétt, kaótískt sýrurokk, fönkað á köflum og í raun enn meira afturhvarf til rokks áttunda áratugarins. Og svona rúllar þetta áfram með misgóðum útsetningum og rennur einhvern veginn saman í eina súpu með tilheyrandi gítarrúnki og bassastrengja „slappi“, effektadrekktum söng Cedrics og hörkurokkuðum trommuleik undir suður-amerískum áhrifum. Ekki bara einsleitt heldur ómögulegt að hlusta á samfellt til lengdar – í mesta lagi þrjú-fjögur lög (sem eru þó reyndar flest á bilinu 6 til 9 mínútur).

Stundum fékk ég það á tilfinninguna að platan hefði verið gerð í of mikilli fljótfærni. Í stað þess að leyfa lögunum að sjatna aðeins í maganum, dúlla við þau, klippa burt það sem ónauðsynlegt er/var, setja nýja litríka kubba saman við hina og byggja upp á nýtt, þá hafi lögin farið beint af blaði á band og síðan bara hent niður úr trénu án þess að kenna þeim að fljúga. Dæmi um þetta er lagið „Cavalettes“ sem er að mörgu leiti sterkt og flott lag með miklum og tíðum kaflaskiptum. Afróhausarnir ná þó einhvernvegin að klúðra laginu með hræðilegum pródúseringa-mistökum og blásturhljóðfærum sem engan veginn falla að laginu – algjör kjánahrollur. Sama má segja um „Soothsayer“, sem á sér yndislegt upphaf sem grípur Mið-Austurlensku stemninguna með bænaköllum og strengjum sem dregur mann svo inn í fönkað og pínu móðukennt progg-rokkið, stemning sem ég hélt nú að ætti kannski að ríkja á plötunni. Og svo rennur þetta bara í sama farveg og restin af plötunni.

Fyrsta smáskífan og fjórða lag plötunnar, „Wax Simulacra“, er í raun undarlegt val á singúl sökum þess að það er annað af óáhugaverðustu lögunum (hitt er „Tourniquet Man“). Auk þess er því smellt á milli , „Ilyena“ og „Goliath“, sem eru þau sterkustu. „Goliath“ hefði í raun skipað sér best sem fyrsti singúll plötunnar, og þar af leiðandi kynning hennar, einfaldlega vegna þess að viðlagið er grípandi og brúin í miðju laginu er virkilega flott – rythmísk, þétt en minnir þó einhvernvegin á óreiðukennt flogakast. Lagið hefði meira að segja sómað sér vel í útvarpsútgáfu (radio-edit). „Ouroboros“ ber einnig að nefna, hálfgerður glam-metall fullur af flottum gítarmelódíum og -riffum og auk þess er viðlagið óborganlegt þar sem melódískur og ljúfur söngur Cedrics rennur saman við 80's-legan hljóðgervil, frábært lag!

Platan á vissulega sína spretti og einstaklega færir hljóðfæraleikararnir vita upp á hár hvað þeir eru að gera. Og sköpunargleðina vantar ekki (tja, eða eiturlyfjaneysluna). En það er bara ekki nóg því að platan minnir á drukkið kynlíf; hálf stefnulaust, of ákaft og jafnvel ofsafengið, kemur manni sjaldnast á óvart og fullt af vandræðalegum augnablikum, laust við tilfinningar, innlifun og ástríðu – í raun bara tóm gredda. Og enginn nær svo að ljúka sér af þrátt fyrir að þetta hafi verið langdregið og leiðinlegt – og daginn eftir er þetta bara ekkert eftirminnilegt!

Félagarnir í The Mars Volta ættu aðeins að slaka á yfirvinnunni og framkvæmdagleðinni og gefa sér meiri tíma í að melta hlutina. Þetta mætti í raun kalla Smiths-syndrome, að geta ekki tekið því rólega um helgar sökum þess að 'vinnan bíður' og framleiðslan verður að vera áþreifanleg. Persóna Jack Nicholson í The Shining hafði rétt fyrir sér: All work and no play makes Jack a dull boy. 

-Guðmundur Vestmann  Einkunn: 2,5

 

 „I realize that if I wait until I am no longer afraid to act, write, speak, be, I'll be sending messages on an Ouija board, cryptic complaints from the other side" – Audre Lorde

Andaglas („Ouija", wee-gee boards) er oft á tíðum ekki sniðugt leikfang. Reynsla meðlima hljómsveitarinnar The Mars Volta af þeim leik varð, að þeirra sögn, háskaleg. Meðlimir sögðust hafa komist í samband við anda sem kallaði sig Goliath. Eftir kynni þeirra af andanum fór allt að fara um þúfur. Lagaupptökur hurfu af tölvuskjám, meðlimur slasaðist á furðulegan hátt, upptökustjórar fengu taugaáfall og trymbill sveitarinnar sagði skilið við félaga sína. Fjórða breiðskífa þessarar mögnuðu sveitar hafði afar dularfullan og óhuggulegan aðdraganda. Afurðin skilar sér þó í einni skemmtilegustu, dularfyllstu og áhugaverðustu plötu síðari ára.

The Bedlam In Goliath hristir upp í hlustanda strax og sleppir ekki af honum takinu út í gegn. The Mars Volta hafa þetta einstaka aðdráttarafl sem einkennir frábæra hljómsveit. Aðdráttarafl svo öflugt að erfitt er að standa upp úr sófanum þegar platan er komin af stað og klósettpásur eru vart hugsandi því hlustandi skemmir upplifunina algjörlega með því að smella á pásu í augnablik. Tónlistarveislan er bara einum of góð til að hreyfa sig eða þjóna öðrum þörfum líkamans. Þær geta beðið.

Á fyrri plötum The Mars Volta hefur krafturinn og skær og há rödd Cedric Bixler-Zavala einkennt hljóm sveitarinnar. Hér hefur ekkert verið dregið úr þessum dáleiðandi krafti og frekar hefur verið bætt í. Hljómsveitin kynnir hér hinn 24 ára gamla Thomas Armon Pridgen. Undrabarn frá Kaliforníu í Bandaríkjunum. Trommuleik plötunnar er vart hægt að lýsa í skrifum og verða tónlistarunnendur að fá þá upplifun sjálfir beint í æð.

Lög plötunnar eru alls 12 talsins og fjalla um reynslu þeirra félaga af andanum Goliath og þeirra ógnvænlegu og skelfingarþrungnu eftirleikja af sambandi þeirra við andann. Fáum við að skyggnast inn í þá drungalegu reynslu meðlima sveitarinnar og vægast sagt finnur hlustandi fyrir skelfingu, ótta og spennu. Sem og gæsahúðin er aldrei langt undan. Lög eins og fyrsta smáskífan „Wax Simulacra“, „Ouroboros“ og „Goliath“ bjóða upp á taugatrekking, spennu, fegurð og leyfa þér að loka augunum og mála þér mynd í kringum frásögn Cedric Bixlar-Zavala og ótrúlegan tónlistarheim sem er The Mars Volta. Sömuleiðis sem næstseinasta lag plötunnar, „Soothsayer“, veitir hlustanda innsýn í persónulega reynslu þeirra af orðum og gjörðum andans Goliath.

Leiðtogi sveitarinnar, Omar Rodriguez-Lopez, skýrði frá því að hann hefði grafið spjaldið sem hann hafði gefið söngvara sveitarinnar að gjöf og með því reynt að aflétta þeirri bölvun sem hann taldi sveitina vera undir. Hvort sem um bölvun á sveitina var að ræða eða ekki er annað mál. Hér er einfaldlega snilldarplata á ferð sem enginn áhugamaður um tónlist má láta framhjá sér fara. Enginn!

 

Mars Volta stíga enn einu sinni fram á sjónarsviðið með plötu sem toppar léttilega forvera sinn frá 2006 og afsannar rækilega kenningu margra um að hljómsveitin sé búin að syngja sitt síðasta. The Bedlam in Goliath er kraftur út í gegn og inniheldur á margan hátt flóknari tónsmíðar en fyrri verk sveitarinnar. Eðal gripur sem allir ættu að gefa séns – hugsanlega besta plata sveitarinnar síðan De-Loused.

 – Hildur Maral Hamíðsdóttir Einkunn: 4,5

 

 

WAX SIMULACRA LIVE HJÁ LETTERMAN 

 

GOLIATH – VEFMYNDBAND

4 responses to “Rjómadómur: The Mars Volta – The Bedlam In Goliath”

 1. Þórir says:

  Úff.. ég verð að vera sammála efsta dómnum.. þetta finnst mér ekki góð plata.

 2. Símon says:

  Já, slappari en fyrri plötur að mínu mati. Því miður.

 3. 4,5 ef ekki bara 5 í einkunn !
  Ég gæti ekki verið ósáttari með þessa 2,5 þarna efst.

  Sjúklega góð plata !

 4. Andrés Már Harðrason says:

  Mér finnst þetta geðveik plata, ekki í stíl við fyrri plöturnar þeirra, en samt algjör snilld. Ég væri til í að sjá endurmat hjá Guðmundi Vestmann eftir svona mánuð, ef hann myndi ekki gefa henni meira en 2,5 í það skiptið, þá getur þessi maður bara farið að gera eitthvað annað…

  Þessi plata tekur aðeins lengur að sogast inní mann heldur en fyrri plötur þeirra, og ef maður er virkilega búinn að hlusta vel á þessa plötu er hún algjör snilld.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.