Vampire Weekend – Vampire Weekend

Vampire Weekend - Vampire Weekend
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2008
Label: XL Recordings

Hér ríkir gleði, sköpunarkraftur og smitandi ungæðingsháttur sem hrífur mann auðveldlega með.

Þó árið sé rétt byrjað þykist ég nokkuð viss um að hér sé ein af plötum ársins á ferð. Jafn ferska og upplífgandi tóna hef ég ekki heyrt lengi og verður að segjast að enn lengra er síðan nokkur plata hefur fallið mér jafn auðveldlega í geð.

Þessi samnefnda plata Brooklyn-sveitarinnar Vampire Weekend er jafnframt hennar fyrsta og glæsilegur frumburður í alla staði. Á henni ægir saman stefnum og tónlistarlegum tilvitnunum úr ólíkustu áttum og er það fyrst og fremst hversu vel tekst til með þennan bræðing sem gerir plötuna að því snilldarverki sem hún er.

Tónlist Vampire Weekend byggir á ólíklegri en þó afar vel heppnaðri blöndu af afrískri popptónlist, 60's pönki og amerísku háskólarokki sem búið er að krydda með tilvísunum í listamenn eins og Paul Simon og Peter Gabriel. Í raun mætti segja að Vampire Weekend sé nokkurskonar nútímaútgáfa af Graceland plötu Paul Simon.

Af grípandi og smitandi lögunum undanskyldum eru það útsetningarnar á plötunni sem heilla hvað mest. Þrátt fyrir hefðbundna hljóðfæraskipan (trommur, gítar, hljómborð og bassi) eru kynnt til sögunnar aragrúi af hljóðfærum á einstaklega hugvitsamlegan og frumlegan hátt og gefur það lögunum allt í senn ævintýralegan, tignarlegan og afar dramatískan blæ. Hefur þetta þau áhrif að við endurtekna hlustun bíður maður oft spenntur eftir því að ýmist strengirnir, mellótrónið (eins og heyra má í viðlaginu í A Punk), harpsíkordið eða afró stemmingin í bongótrommunum í Cape Cod Kwassa Kwassa taki að hljóma.

Hljómurinn á plötunni er skemmtilega hrár og blessunarlega laus við hinn gervilega og ofnhljóðblandaða hljóm sem einkennir svo margar plötur um þessar mundir. Hér fær tónlistin að njóta sín og virðist nánast ómenguð af öllu því sem nútíma tölvutækni, þrátt fyrir alla sína kosti, er svo oft fær um að skemma. Maður fær það stundum á tilfinninguna, þegar maður rennir plötunni í gegn, að maður sé að hlusta á gamla vínyl plötu sem tekin var upp í átta rása steríó. Nú veit ég ekki hvort það hafi verið meðvituð ákvörðun eða ekki hjá hljómsveitinni og upptökustjóranum (Rostam Batmanglij hljómborðsleikari sveitarinnar sá um upptökustjórn) að láta plötuna hljóma svona en mikið er ég samt glaður að svo sé.

Það sem mér finnst umfram allt einkenna góðar hljómplötur eru hversu helsteyptar þær eru og hversu miklar og ríkar tilfinningar sú heild nær að vekja upp hjá manni. Hjá Vampire Weekend ríkir mikil gleði, sköpunarkraftur og smitandi ungnæðingsháttur sem hrífur mann auðveldlega, fær mann til að syngja með og gleyma stað og stund. Meira getur maður ekki beðið um.

One response to “Vampire Weekend – Vampire Weekend”

  1. Torfi says:

    Ég er sammála öllu sem þú sagðir í þessum dómi. Frábær plata!

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.