Bella – No One Will Know

Bella - No One Will Know
Einkunn: 3
Utgafuar: 2008
Label: Mint

…fínasta hlustun þó hún hreyfi lítið við manni.

Ég hef alltaf og mun sjálfsagt alltaf vera ginkeyptur fyrir hressilegum og grípandi laglínum í hvaða mynd sem þær kunna að birtast mér. Það er eitthvað svo sjálfsagt og unaðslegt við að vera hrifinn með og geta gleymt sér, þó ekki sé nema í stutta stund, í grípandi laglínu eða viðkunnanlegum hljómagang. Og það að nokkurt lag geti haft þau áhrif á mann, valdið slíku tilfinningaróti, að geð manns og lund léttist svo að maður gangi glaðbrosandi og ánægður til móts við hversdagsleikann, hlýtur að vera eitt að æðstu sköpunarverkunum. Hljómsveitir og tónlistarmenn sem reyna, meðvitað og ómeðvitað, að notfæra sér  þennan kraft eiga því allt mitt lof skilið og þá nánast óháð því hvernig þeim gengur upp.

Meðlimir Vancouver-sveitarinnar Bella kunna svo sannarlega að beisla þann kraft sem þarf til að búa til grípandi laglínu en beita honum kannski full sparlega. Þrátt fyrir að öll tólf lög plötunnar séu afar viðkunnanleg og í meira lagi áheyrilega kemst maður ekki hjá því að finnast þau oft ansi keimlík eða að ekki hafi verið lagt í lagasmíðarnar af fullum krafti og/eða heilum hug. Líklegast gæti þó verið að eitthvað sé minni innri væntingastjórn ábótavant og ég geri hreinlega of miklar kröfur. En ég spyr, er það til of mikils ætlast, á þessu herrans ári 2008, að plöturnar sem maður hlustar á haldi athygli manns út í gegn?

No one will know hefst á einu besta lagi hennar "Give it a night" og hefðu næstu lög haldið sama flugi er víst að þessi dómur og einkunnargjöfin væru talsvert jákvæðari. Reyndar nær næsta lag "Stay here" að halda í við opnunarlagið en með herkjum þó. Eftir þetta er sem stemmingin á plötunni falli í gryfju meðalmennsku og málamiðlanna þar sem lögin skilja lítið eftir þrátt fyrir að renna nokkuð ljúflega í gegn. Það er fjærri lagi að lagasmíðarnar séu vondar því þær eru þvert á móti hreint ágætar en maður fær það einhvernvegin á tilfinninguna að maður hafi heyrt þetta allt saman áður. Reyndar hef ég, þegar ég hugsa út í það, heyrt þetta áður og þá betur gert í flutningi sveita eins The Rentals (blessuð sé minning þeirra).

Á heildina litið er þessi fyrsta plata Bella fínasta hlustun þó hún hreyfi lítið við manni. Ég get ímyndað mér að hún henti vel til undirleiks þar sem góður hópur fólks kemur saman til að gera sér glaðan dag og jafnvel betur á ísrúntinum um sumarkvöld. Annað hvort það eða þá að maður gleymir algerlega að setja plötuna á fóninn. Sem mér finnst því miður líklegra.

[MP3]

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.