Nick Cave & The Bad Seeds – Dig, Lazarus, Dig!!!

Nick Cave & The Bad Seeds - Dig, Lazarus, Dig!!!
Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: Mute

Endurrokkaður Cave rís úr grafhvelfingu ballaðana

Nick Cave byrjar nýjustu afurð sína á söngi um hann Lazarus sem rís upp frá dauðum. Það er kannski ofsögum sagt að Cave sé sjálfur að rísa upp á plötunni, hann hefur jú verið iðinn við kolann undanfarin ár. Hins vegar hefur verið deilt um gæðin á því efni sem hann hefur sent frá sér og skiptast menn þar í nokkrar fylkingar. Hins vegar verður varla deilt um að Dig, Lazarus, Dig!!! rís höfðinu hærra en aðrar plötur sem Cave hefur komið nálægt undanfarin ár.

Sá sem hér ritar hefur ekki verið neitt sérstaklega hrifinn af afurðum síðustu ára eða allt frá því hann sendi frá sér Nocturama (2003), slökustu plötuna á annars nokkuð mögnuðum ferli. Síðan þá hefur bara ein Bad Seeds plata komið út (reyndar tvöföld) sem var jú svo sem ágæt, en annars virðist hann helst hafa eytt tíma sínum í lítt spennandi kvikmyndamúsík auk þess sem að hljóðskreyta nokkur Vesturportsleikrit. Grinderman verkefnið var svo virðingarverð tilraun til þess að rokka af sér slenið – og af Dig, Lazarus, Dig!!! að dæma virðist það loksins hafa heppnast.

Það sem er einmitt svo gott við endurnærðan Nick Cave að hann hefur fengið almennilegt rokk aftur í æðarnar. Undanfarinn áratug hafa ballöðurnar verið í aðalhlutverki hjá honum og þó að einstaka rokklög hafi fylgt með hafa þau ætíð verið í slappari kantinum. Á Dig, Lazarus, Dig!!! liggur einbeitingin á rokkinu og hefur kallinum ekki tekist jafn vel upp í þeim geira síðan Let Love In (1994) kom út. Hér er þó engin endurtekning í gangi heldur ferskur Cave með myrkrið og drungann að leiðarljósi.

Nick Cave er hér í essinu sínu og sýnir að nóg rokk sé eftir í skrokknum þó hann sé nýskriðinn á sextugsaldurinn. Það má þó ekki skiljast þannig að hér sé þrumandi keyrsla út í gegn. Rólegi Cave er ekkert langt undan þótt hann sé sjaldséðari en venjulega. Þó einkennast rólegri lögin „Jesus Of The Moon“ og „Night Of The Lotus Eaters“ af drungalegri stemningu sem gera þau mun áhugaverðari en ballöður undanfarins áratugar.

Kannski skyggir það dómgreind undirritaðs að hafa um árabil á unglingsaldri vart hlustað á annað en drungalegustu söngvana úr sarpi Nick Cave. Það fer þó vart framhjá nokkrum sem á  Dig, Lazarus, Dig!!! hlýðir að hér er besta plata kappans í nokkurn tíma og gleður það ugglaust mörg gömul aðdáendahjörtun að heyra gamla goðið komið aftur á flug.

 

„Dig, Lazarus, Dig!!!“

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.