The Grand Archives – The Grand Archives

The Grand Archives - The Grand Archives
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2008
Label: Sub Pop

Stefnu- og samhengislaus snilld?

Seattle-sveitin The Grand Archives, sem skartar Mat Brooke fyrrverandi gítarleikara Band Of Horses, hefur gefið út sína fyrstu stóru plötu.

Ég verð að játa að ég er hálf ráðalaus þegar kemur að því að kveða upp dóm um þessa annars ágætu plötu. Annað hvort er platan plöguð af stefnuleysi eða þá að mér hefur mistekist að meðtaka snilldina sem liggur í ólíkum og fjölbreyttum lögum hennar. Þegar ég tala um stefnuleysi (eða samhengisleysi öllu heldur) þá meina ég að svo virðist sem meðlimir The Grand Archives eigi erfitt með að ákveða hvaða tónlistarstefnu þeir eiga að halda sig við sem og að sameinast um einn afgerandi hljóm sem einkenna á sveitina. Eftir að hafa hlustað á plötuna þó nokkrum sinnum hef ég enn ekki áttað mig á því hvort ég er að hlusta á poppplötu, jaðarpopp-, kantrí- eða rokkplötu. Einnig eru sum laganna það ólík að við fyrstu hlustun trúir maður því varla að þau eigi heima á sömu plötu hvað þá að þau séu flutt af sömu hljómsveitinni.

Kannski skiptir það svo bara engu andskotans máli þó samhengi eða skýra tónlistarsetnu vanti? Kannski er platan bara betri fyrir vikið? Hún er jú nokkuð góð og vex með hverri hlustun, því verður ekki neitað. Flutningurinn er góður og söngurinn hreint afbragð. Ljúfar raddir söngvaranna minna einna helst á þá Crosby, Stills og Nash þegar þeir voru upp á sitt besta og á stöku stað má greina arfleið The Beach Boys í grípandi samsöngnum.

Að mínu viti bera tvö lög af á plötunni og skyggja eiginlega á öll hin. Annað þeirra er upphafslagið, Torn Blue Foam Couch, en það er eitt það besta sem ég hef heyrt lengi og hef ég hlustað á það allt upp í fimm eða sex sinnum á dag síðustu misserin. Segja má að maður upplifi hálfgert spennufall að því loknu og eiga næstu lög á erfitt með að fylgja því eftir, svo gott er það. Hitt lagið, Sleepdriving, skilur álíka mikið eftir með sínum hæga stíganda og mikilfenglegum lokakafla sem Coldplay hefðu verið vel sæmdir af. Mér finnst að platan hefði átt að enda á þessu lagi því það hefði svo sannarlega verið punkturinn yfir i-ið.

Þessi fyrsta og samnefnda plata The Grand Archives er góð plata þó þessi dómur gefi ef til vill vísbendingar um annað. Hún skilur mikið eftir og kallar á ítrekaða spilun. Hún þjáist engu að síður, eins og ég minntist á hér í upphafi, af einhverskonar tilvistarkreppu og veit ekki alveg hvað hún á að vera eða fyrir hvað hún á að standa. Það má vel vera að ég sé einn um þessa skoðun eða það sé meðvitað gert hjá sveitinni að hafa lögin á plötunni eins ólík og fjölbreytt og hægt er. Hvað sem því líður þá mæli ég eindregið með þessari plötu og tel hana eigulegan grip. 

Að lokum vil ég taka það fram að eitt er víst, og þetta hef ég sannreynt, að platan er tilvalin til að róa og svæfa ungabörn. Ef eitthvað er þá eru það bestu meðmæli sem ég get gefið The Grand Archives. 

[MP3]

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.