Xiu Xiu – Women As Lovers

Xiu Xiu - Women As Lovers
Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: Kill Rock Stars

Aðgengilegasta og mögulega besta plata Xiu Xiu til þessa.

Ég verð að játa að ég hef ekki haft mikla þolinmæði í mér undanfarin ár til að hlusta mig í gegnum listrænar og oft afar tormeltar plötur Jamie Stewart og félaga hans í Xiu Xiu. Á nýjustu plötu þeirra, Women As Lovers, kveður hinsvegar við annan tón. Tónlisitin á henni er öll mikið aðgengilegri og auðmeltanlegri heldur en á fyrri plötum og þó tilraunastarfsemin og listrænu tilburðirnir séu enn til staðar er þeim beitt á mikið sparlegri hátt en áður. Einnig er meira samhengi og tenging milli laga sem mér hefur oft fundist vanta í tónsmíðar sveitarinnar.

Eins og svo oft áður ægir saman stefnum og stílum hjá Xiu Xiu (borið fram sjú-sjú). Pönk, noise-rokk, folk, ambient og klassísk nútímatónlist mætast hér í litríkum avant-garde hrærigraut. Allt í kring hljómar svo tryllingslegt slagverk, ærðir saxóphónar og tilviljanakennd óhljóð í bland við raddir þeirra Stewart og frænku hans Caralee McElroy.

Einn af hápunktum Women As Lovers er án efa meðferð Xiu Xiu á gamla Queen og David Bowie slagaranum "Under Pressure". Jafn tilfinningarríka og kröftuga ábreiðu af nokkru lagi hef ég ekki heyrt í lengri tíma. Önnur lög sem standa uppúr eru upphafslagið ljúfa "I Do What I Want, When I Want", hið kraftmikla "In Lust You can Hear The Axe Fall" og "No Friend Oh!" sem er bæði taktfast og grípandi. "You Are Pregnant, You Are Dead" er svo hápunkturinn, aðal lagað. Það hlykkjast áfram drifið af gruggugum, flóknum takti, einkennandi klukkuspili, banjói og tælandi samsöng þeirra Stewart og McElroy. Frábær tónsmíð það.

Yrkisefni Jamie Stewart hafa í gegnum tíðina þótt bæði myrk og þunglyndisleg og er hér engin breyting á. Sjálfsmorð, stríð, sifjaspell, sjúkdómar og plágur eru ekki beint heillandi viðfangsefni en þau hæfa þó tónlistinni fullkomlega og magna upp heildar upplifunina. Manni þætti þó vænt um að heyra, þó ekki væri nema örlítið brot, ort um gleði, birtu og von svona til að forða plötunni frá að því sökkva manni algerlega í sortann.

Þó þessi sjötta plata Xiu Xiu sé, eins og áður sagði, mun aðgengilegri en fyrri verk sveitarinnar markar hún engu að síður sérstöðu sveitarinnar enn frekar og styrkir. Þeir eru fáir ef einhverjir sem hljóma eins og Xiu Xiu og enn færri sem ná að fylgja þeim eftir án þess að falla í gryfju tilgerðar og falskheita. Jamie Stewart er samkvæmur sjálfum sér. Hann er ekki listrænn listarinnar vegna heldur heldur hann tryggð við sérstæðan tón- og hugarheim þann sem hann hefur skapað, hugarheim sem nú virðist fullkomnaður með tilkomu þessarar plötu.

[MP3]

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

[MP3]

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

 

One response to “Xiu Xiu – Women As Lovers”

  1. Benni says:

    Hún er algjör eðall þessi skífa. Án vafa þeirra besta síðan Fabulous Muscles sem var tímamótaverk.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.