Venetian Snares – My Downfall (Original Soundtrack)

Venetian Snares - My Downfall (Original Soundtrack)
Einkunn: 3
Utgafuar: 2008
Label: Planet-Mu

Eðal sinfónísk breakcore orgía en þó full þung og dimm.

Raftónlist hefur ekki fengið mikla umfjöllun hér á síðum Rjómans í gegnum tíðina og þá enn síður tormeltir og strembnir afkimar hennar eins og breakcore og IDM (intelligent dance music). Kannski ekki nema von enda er tónlist sem þessi ekki fyrir hvern sem er. Af flytjendum eins og Aphex Twin og Squarepusher undanskildum er Aaron Funk, sem tekið hefur sér listamannsnafnið Venetian Snares, óumdeilanlega einn af fánaberum þeirrar tegundar raftónlistar sem hér um ræðir og er helst þekktur fyrir að vera mikið ólíkindatól og ótrúlega vinnusemi enda er útgáfugleði hans með eindæmum (lágmark þrjár plötur á ári).

My Downfall (Original Soundtrack) er framhald plötunnar Rossz Csillag Alatt Szuletet sem kom út árið 2005 en platan sú þykir almennt besta verk Venetian Snares til þessa. Maður kemst því ekki hjá því að bera þessar tvær plötur saman og verður að segjast, þrátt fyrir laglega tilburði herra Funk, að skífan sem nú sætir gagnrýni stenst ekki samanburð við forvera sinn.

En slæm er hún ekki. Alls ekki. Þegar Funk nær sér á flug með trylltum, tilviljanakenndum og tættum breakcore taktinum (sem er í grunninn hið fræga Amen bít), umlukinn drungalegum samsetningum strengja- og sinfóníusveita, er sannkölluð unun að hlusta á plötuna. Við þetta allt bætist svo kunnuglegur dub-bassinn, ýmiskonar sömpl og hljóðgervlar. Þegar platan nær sínum hæstu hæðum finnur maður sjálfan sig á kafi í sinfónískri breakcore orgíu og veltist þar um uns manni er kippt aftur niður í drungalegt svartnætti og þunglyndi.

Og þar liggur einmitt aðal galli plötunnar. Hún er allt of þunglamaleg á köflum og óþarflega dramatísk. Ég vil vera þar sem fjörið er og fjörið er brjáluðum breakcore-taktinum og ruglingslegum og tilviljanakenndum sinfóníu- og strengjabútunum. Kannski vill Aaron Funk vera álitinn meiri listamaður og er hægt og rólega að feta sig yfir klassíska nútímatónlist en ef svo er misheppnast þær tilraunir hans hér.

Ég get hinsvegar ekki neitað því að þegar ég heyri talað um nútímatónlist er Venetian Snares það fyrsta sem mér dettur í hug því Aaron Funk nær hér enn og aftur að sameina þá tvo heima (klassíska nútímatónlist og raftónlist) sem einkennandi eru fyrir þetta hugtak. Mér finnst þó að hann ætti að gera það upp við sig hvort hann vill vera álitinn raftónlistarmaður eða nútímatónskáld. Kannski nær hann að sameina þetta tvennt með fullkomnum árangri en á My Downfall nær því ekki.

Venetian Snares – Colorless 

[MP3]

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.


[MP3]

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

 

3 responses to “Venetian Snares – My Downfall (Original Soundtrack)”

 1. Tumi Árnason says:

  Geeðveik plata og góður dómur! Samt ósammála þér með hægu kaflana, ég kann vel að meta að hægja á mér aðeins eftir 7 mínútna langar syrpur af taktfastri hljóðhimnumisnotkun. Ég hefði alveg skellt einkuninni upp í 4. Fylgir ungversku plötunni alveg fast á eftir sem ein af hans bestu.

 2. Húni says:


  Vissi ekki að hann hefði gefið út nýja plötu í ár, hugsa að ég næli mér í hana sem fyrst.

  Annars varð ég bara að monta mig aðeins þar sem ég og fjórir félagar erum á leiðinni
  á Bang Face Weekender hátíðina, en Venetian Snares kemur fram þar ásamt Squarepusher of fleirum snillingum.

  Líst annars vel á þessi nýju stefnumið rjómans að taka fyrir raftónlist.

 3. Hildur Maral says:

  Skemmtileg lesning 🙂

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.