Plants and Animals – Parc Avenue

Plants and Animals - Parc Avenue
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2008
Label: Secret City Records

Plants and Animals sleppa af sér beislinu og bjóða hlustendum með

Ein af uppgötvunum síðustu Airwaves hátíðar var kanadíska sveitin Plants and Animals. Undirritaður sá nú bandið bara spila örfá lög en það var nóg til að kveikja áhuga á þeim. Sveitin hefur verið starfandi nokk lengi og gaf út sína fyrstu plötu árið 2003, ósungna plötu samnefnda sveitinni sem er að þeirra eigin sögn lítil sameiginlegt með tónlist þeirra í dag. Parc Avenue telst því tæknilega vera önnur breiðskífa sveitarinnar þó svo að hér sé alveg um nýtt upphaf að ræða.

Tónlist Plants and Animals sver sig í ætt við marga samlanda sína, t.d. Patrick Watson og Arcade Fire, þó svo að sveitin hafi vissulega sinn eigin stíl og sjarma. Nett hippískt andrúmsloft umlykur einnig sveitina og virðast þeir vera óhræddir að sleppa aðeins beislinu og leyfa músíkinni að flæða óhindraða. Sem sagt allt voða skemmtilegt.

„Good Friend“:

Á Parc Avenue fer sveitin um víðan völl og tekst nokkuð vel upp. Platan byrjar frábærlega og býður hlustendum upp á hvern konfektmolann á fætur öðrum. „Bye Bye Bye“ nær að krækja í eyru áheyrenda og ekki losa „Good Friend“ eða „Feedback In The Field“ um öngulinn. Þegar líða tekur á skífuna fækkar þó þeim augnablikum sem halda athyglinni lifandi og fjarar hún aðeins út um miðbikið. Það eru alls engin slæm lög á Parc Avenue en platan byrjar svo ótrúlega sterkt að manni finnst óneytanlega nokkuð ójafnt milli plötuhelminga. Af seinni hlusta skífunnar stendur svo hið hressa „Mercy“ upp úr og rífur stemminguna nokkuð upp.

Parc Avenue er hörkuplata og með þeim betri sem komið hafa út það sem af er þessu ári þó svo hún nái kannski ekki alveg þeim hæðum sem fyrri hluti hennar gaf fyrirheit um. Þeir sem alla jafna hafa gaman af skemmtilegri og ferskri rokktónlist, þar sem klisjur og tilgerð eru látin eiga sig, munu taka Plants and Animals fegins hendi enda ekki á hverjum degi sem jafn skemmtileg sveit rekur á rokkfjörur.

Plants and Animals í stuði í stúdíóinu:

 

One response to “Plants and Animals – Parc Avenue”

  1. Gummi Jóh says:

    Hjartanlega sammála. Bye bye bye segi ég að sé besta lag fyrsta ársfjórðungs 2008 og platan er fyrstu mínuturnar á þvílíku róli en því miður dampast hún aðeins niður.

    En það kemur ekki að sök því eins og þú segir að þá er ekkert slæmt lag á plötunni.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.