Cloud Cult – Feel Good Ghosts (Tea-Partying Through Tornadoes)

Cloud Cult - Feel Good Ghosts (Tea-Partying Through Tornadoes)
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2008
Label: Rebel Group

Sjaldan hefur eins mikil tilfinning, líf og sál, verið tjáð jafn vel á einni og sömu plötunni.

Ég er sjálfsagt farinn að hljóma eins og rispuð plata þegar ég byrja dóma á að segja að umrædd plata sé mögulega með þeim betri sem ég hef heyrt á árinu. Ég ætla bara ekkert að láta það trufla mig og halda því fram enn og aftur að platan sem hér um ræðir sé í hópi þeirra bestu sem ég hef heyrt á árinu.

"You had me at hello" sagði Dorothy eins og frægt er og hvað þessa nýjustu afurð Cloud Cult varðar hafði hún mig heltekinn strax við fyrsta lag. Það lag var reyndar ekki fyrsta lagið á plötunni heldur fjórða lag plötunnar, hið stórgóða "When Water Comes To Life", sem fangaði mig með sínum grípandi laglínum og hæga en örugga stíganda sem endar með kröftugum og tilfinningamiklum lokakafla. Án efa eitt af lögum ársins (sjá neðst á síðu).

Grípandi, stígandi, kröftug og tilfinningamikil eru reyndar allt orð sem ég myndi nota til að lýsa plötunni í heild sinni. Hún er líka fjörug, tilraunakennd, örlítið grallaraleg, ljúfsár og kannski pínulítið sorgleg. En umfram allt er hún hlaðin tilfinningu. Reyndar mætti segja að platan öll, tónlist og textar, sé ekkert nema tilfinningin ein og ástríða út í gegn.

Eitt af því sem heillar mig mest við Cloud Cult er rödd Craig Minowa söngvara sveitarinnar. Hann er ánægjulega hás og mjóradda en hefur samt nægilega breytt raddsvið og sterka söngrödd til að halda manni hugföngnum lag eftir lag. Ef eitthvað er þá má líkja honum við Conor Oberst söngvara Bright Eyes enda eiga þeir félagar ýmislegt sameiginlegt tónlistarlega séð.

Annað sem vert er að minnast á eru textasmíðar Craig Minowa sem eru á köflum hreint út sagt frábærar. Boðskapurinn er afar pólitískur og tekur aðallega á umgengni okkar mannfólksins um jarðkúluna sem við lifum á. Minowa fjallar líka á afar sérstæðan og skemmtilegan hátt um trúmál (besta texta plötunnar má finna í laginu "Story Of The Grandson Of Jesus") en einnig um lífið, dauðann og hringrás lífsins. Sumum gæti þótt sem boðskapur laganna væri stundum full beinskeyttur og að höfundur þyrfti að fá smá kennslustund í að kveða undir rós en fyrir mína parta finnst mér sem hlutunum sé oft best komið til skila á einfaldan og ákveðinn hátt.

Feel Good Ghosts (TeaPartying Through Tornadoes) er að mörgu leiti eins og tónlistarleg þeytivinda. Vissulega heldur platan ákveðnu striki en í gegnum hana alla er kastað að manni ólíkum stefnum á ólíklegustu stöðum þannig að maður veit aldrei á hverju maður á von á. Eflaust gæti sumum fundist þetta óþægilegt en mér finnst þessi tilraunakennda fjölbreytni æðisleg. Hún er líka til þess að maður finnur sig knúinn að hlusta aftur og aftur á sum lögin bara til að átta sig almennilega á hvað er að gerast.

Ég verð að játa að ég fæ hreinlega ekki nóg af þessari plötu. Hún hreyfir við mér á svo marga vegu að ég kann varla að koma orðum að því. Þetta er kannski ekki besta plata sem gerð hefur verið en hún gerir ansi góða tilraun til að ná fullkomnun. Lögin gleðja mann, hvetja mann, gera mann sárann og kannski örlítið reiðann en umfram allt halda þau manni hugföngnum og ánægðum. Ég hef verið aðdáandi Cloud Cult lengi en fyrst nú get ég sagt að sveitin sé komin til að vera. Fyrst nú hefur hún fundið sinn sanna hljóm og sína réttu stefnu.

Í stuttu máli kemst Feel Good Ghosts eins nálægt fullkomnun og hægt er og verður hún að teljast alger skyldueign!

[MP3]

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

 

4 responses to “Cloud Cult – Feel Good Ghosts (Tea-Partying Through Tornadoes)”

 1. Tumi says:

  Þessi dómur er alveg hinn póllinn á málinu miðað við Pitchfork. Hlakka til að hlusta á þetta.

 2. Hildur Maral says:

  Sama hér.

 3. Árni Viðar says:

  hverjum er ekki sama um hvað Bitchfart finnst….Cloud Cult: líklega umhverfisvænasta hljómsveit í heimi (og þá á ég ekki við þykjustu-umhverfisvæn eins og jeppakallarnir sem hópuðust á ráðstefnu al gore á ísland og skildu fátt eftir sig annað en mengunarský)

 4. aMuSickBoy says:

  Skylduhlustun. Get þó ekki sagt að þessi plata hafi gripið mig við fyrstu hlustun, því fyrst fannst mér virkilega óþægilegt hve ólík lögin eru. En gafst ekki upp og það var algjörlega þess virði.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.