• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Hróarskeldudómur: Battles – Mirrored

  • Birt: 10/06/2008
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Hróarskeldudómur: Battles - Mirrored
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2008
Label: Warp Records

Orrusta sem tekur á.

Hróaskelduhátíðin nálgast og birtum við því aftur nokkra vel valda Rjómadóma yfir plötur þeirra flytjanda sem þar koma fram.

Það er ekki að ástæðulausu að Battles sé stundum titluð sem hálfgerð súper-grúppa. Forsprakki hennar, gítar- og hljómborðsleikarinn Ian Williams, plokkaði áður strengina í Don Caballero á meðan trommuleikarinn John Stanier er þekktastur fyrir afrek sín með Helmet og síðar Tomahawk. Þá var gítar- og bassaleikarinn Dave Konopka í Lynx og loks hefur fjórði meðlimurinn, Tyondai Braxton (sonur djassistans Anthony Braxton), sem spilar á hljómborð og gítar auk þess að syngja, m.a. unnið með Prefuse 73 og gefið út eigið efni.

Fjórmenningarnir stofnuðu Battles fyrir um fjórum árum og sendu í kjölfarið frá sér tvær stuttskífur, EP C og B EP, sem voru gefnar út saman undir merkjum Warp í fyrra. Nýverið leit fyrsta eiginlega breiðskífa sveitarinnar, Mirrored, síðan dagsins ljós á vegum sama útgáfufyrirtækis, sem hefur að sjálfsögðu verið með fjölda frábærra listamanna á sínum í gegnum tíðina. Það er hins vegar óhætt að fullyrða að Battles hljómar ekki eins neinn þeirra og í raun er afar erfitt að lýsa tónlist hennar í stuttu máli. Eins og ætla má af aldri og fyrri störfum hljómsveitarmeðlima er mikið um stílaflökt, flóknar pælingar og alls kyns óhljóð þannig að úr verður hinn undarlegasti hrærigrautur.

Viðtal við Battles (Stanier, Konopka, Braxton og Williams)

Platan fer vel af stað með laginu „Race:In“ og endar raunar á svipuðum nótum með „Race:Out“. Annað lagið, hið 7 mínútna langa „Atlas“ (sem NME valdi merkilegt nokk smáskífu vikunnar fyrir ekki margt löngu) er dásamlega grípandi og svalt í súrleika sínum og sömu sögu má segja af „Ddiamondd“ og „Tonto“. Eftir það fer hins vegar að halla örlítið undan fæti en ég ætla rétt að vona hljómsveitarinnar vegna að fimmta lagið, „Leyendecker“, sé eitthvað djók þó ég eigi erfitt með að fatta brandarann….eða bara hlusta á lagið yfirhöfuð. Að mínu mati hefðu þeir því mátt sleppa því og reyndar „Bad Trails“ líka þar sem það bætir afar litlu við plötuna. „Rainbow“ er aftur á móti öllu skemmtilegra, sérstaklega fyrstu 6 mínúturnar sem hljóma einna helst eins og býfluga á sýrutrippi þó síðasti fjórðungurinn sé í raun ekkert til hrópa húrra fyrir. Slíkt misræmi er einmitt eitt af einkennum plötunnar í heild sinni; það úir og grúir af athyglisverðum pælingum en á hinn bóginn fara fjórmenningarnir stundum vel yfir strikið í fáránleikanum, sérstaklega hvað varðar sönginn. Í flestum tilfellum syngur Braxton í gegnum raddgervil (nema hann sé í svona hryllilega þröngum buxum) og því hljómar Battles stundum eins og ef Don Caballero og Apparat Organ Quartet myndu sameina krafta sína og búa til sína eigin útgáfu af Haraldur í Skríplalandi.

Ég get ímyndað mér að fólk muni skiptast í tvær fylkingar hvað varðar álit á þessari plötu. Á meðan sumir dásama eflaust þá sýru og tilraunagleði sem einkennir hana vissulega munu aðrir finna henni allt til foráttu. Söngurinn fer þannig án efa í taugarnar á mörgum, hvort sem þeir hafa heyrt eldra efni sveitarinnar eður ei. Mirrored er sömuleiðis tæplega fyrir fólk með athyglisbrest á mjög háu stigi því hún fer út og suður og aftur til baka eins og hendi sé veifað. Eins og áður segir er þó margt mjög vel gert; trommuleikur John Stanier er jafn klikkaður og búast mátti við og þá er handbragð Ian Williams einnig auðþekkjanlegt. Lögin byggjast flest á mikilli endurtekningu og þungri hrynjandi sem virðist stundum ætla að gera út af við hátalarana. Engu að síður mæli ég með að fólk hækki vel í græjunum þegar það hlustar á Battles þó sú hætta skapist óhjákvæmilega að hringt verði á lögregluna….já, eða kallana í hvítu sloppunum.

Atlas (edit)

Leave a Reply