• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Beck – Modern Guilt

Beck - Modern Guilt
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2008
Label: XL/Interscope

Sumum einstaklingum var einfaldlega ætlað að gera tónlist og það frábæra tónlist!

Meistari Bek David Campbell eða Beck Hansen er hér mættur með áttundu breiðskífu sína, Modern Guilt.

Beck hefur undanfarin ár gert aðdáendum sínum sem og öðrum, erfitt fyrir að túlka nákvæmlega hvaða stefnu skuli flokka tónlist hans undir. Sjö undanfarar Modern Guilt hafa allir ákveðna sérstöðu og bjóða allar upp á ákveðna súpu í hvert skipti. Má þá í raun líkja plötum Beck við "súpu dagsins" á næsta veitingahúsi. Í þeim skilning að plöturnar hljóma í raun aldrei eins og alltaf ber á einhverju fersku, nýju og spennandi. Svo ekki megi gleyma, frábæru!

Á þessari áttundu breiðskífu sinni skefur Beck lítið undan því að vera sérstakur og til aðstoðar við gerð plötunnar og efni hennar, fékk hann til liðs við sig hinn víðþekka og furðulega Danger Mouse. Danger Mouse hefur getið sér gott orð fyrir endursköpun á hinum ýmsu plötum og lögum, auk þess að vinna að breiðskífum hljómsveita á borð við The Rapture, Gorillaz og Gnarls Barkley. Mætti telja Danger Mouse sem afar ágætan aðstoðarkokk fyrir þessa áttundu plötu meistarans.
Modern Guilt fylgir í kjölfar plötunnar The Information, frá árinu 2006 en platan sú innihélt m.a. ofursmellinn Think Im In Love og lagið Nausea. Platan sem hér um ræðir er að visu ekki full af smellum, líkt og The Information, hins vegar er hún fersk og bragðmikil ný Beck-súpa. Platan ætti í raun að höfða til allra núverandi, fyrrum eða tilvonandi, hvort sem fólk hafi hrifist af Odelay! (1996), Midnite Vultures (1999) eða Sea Change (2002), Beck aðdáenda og má þar með segja að hér sé öllum súpunum sjö, blandað saman í einn furðulega skemmtilegan rétt sem steinliggur.

Beck tekur á móti hlustanda með rafskotnum þunga í laginu Orphans en færir sig svo yfir í kassagítarinn með ljúfa takta undir og enn ljúfari rödd sinni yfir. Algjört yndi til að hefja plötuna á.
Eftir væna hlustun á þægilega fínt popp er mikils að vænta þegar kemur að næsta lagi. Ekki var langt í brosið hjá undirrituðum og í laginu Gamma Ray er allt sem aðdáendur Beck ættu að heillast af og auðvitað, hinn gæinn á horninu sem á eftir að hlusta! Hér er einfaldur gítar, miklar raddir og mikið stuð og vart er hægt að halda kyrru fyrir. Algjör snilld.
Chemtrails er fyrsta smáskífa plötunnar en lagið fylgir á eftir hinu frábæra Gamma Ray. Hér sést vel fjölbreytni þessa listamanns og er hlustanda leyft að tylla sér og anda eftir danstaktana og þess í stað halla sér aftur og njóta ljúfrar raddar Beck í bland við 70´s kenndar trommur og rafræna alsælu. Lagið endar svo á klassíkri sýru að hætti Beck. Titillag plötunnar Modern Guilt ber með sér keim af aðstoðarkokknum Danger Mouse og býður hlustanda enn meira bragðefni í súpuna. Lagið, sem er sing-a-long-hæft, framkvæmir ákveðið líkamlegt dill og gleði. Þrátt fyrir að textinn líklega vísi í annað. Beck-súpan fer vel í magann og hefur súpan sjaldan verið eins góð.
Fimman Youthless hendir hlustanda vel inn í sjötta lag plötunnar, Walls. Hér fær Beck hina þokkafullu Cat Power, sér til aðstoðar í bakraddir (einnig kom hún fram í laginu Orphans) og má finna örlitla lykt frá listamanninum Beirut í þessu frábæra lagi. Beck tekur hér hráefnin, hristir vel og mallar vel. Lagið er í styttri kantinum en það slær rétt yfir aðra mínútuna en gengur hins vegar vel upp á miðri plötunni. Þessi plata ber með sér þann styrk að halda hlustanda allt frá byrjun til enda og sleppur við að missa mann frá sér um miðja plötu og vekja mann svo aftur rétt í lokin.

Ótrúlegt en satt réttir Beck fram úr erminni ferskleikann á plötunni og býður lagið Replica upp á verulega hraða elektró-takta í bland við rólega rödd Beck og rólegheit allt í kring. Mætti í raun sjá fyrir sér klúbbakvöld í fullu fjöri og dansgólf fullt af ungu fólki að dansa við fasta og harða takta techno-tónlistar. Á meðan stendur Beck í sínu dressi á miðju dansgólfinu og raular fyrir unga snót vísu. Þessi maður er ótrúlegur.
Þungur gítar með desert-skotnum fíling, opnar lagið Soul Of A Man og er lagið með því svalasta á plötunni. Þó einfaldleikinn sé hér allsráðandi, nær meistarinn að flækja þetta örlítið til og blanda inn í gítarinn, furðulegum töktum og blönduðum áhrifum frá hinu og þessu horni tónlistarinnar.

Hið partýskotna Profanity Prayers og Volcano enda svo þessa áttundu plötu Beck. Volcano, er með betri lokalögum á plötum Beck og endar plötuna með rólyndis-kyrjun meistarans í bland við popp-skotinn takt, strengi og trip/hop kennt yndi.

Ég mæli eindregið með Modern Guilt fyrir alla þá sem hafa fylgst með Beck frá tímum Odelay! eða þess vegna frá tímum Guero. Einnig ætti platan að virka fyrir flesta þá sem vilja ferska, frábæra og ljúffenga plötu sem, án efa, ratar inn á lista yfir bestu plötur ársins 2008.
 

 

KYNNINGARMYNDBAND PLÖTUNNAR:

7 Athugasemdir

 1. Björn · 24/07/2008

  Fyrir mér samanstendur þessi plata af 3-4 mjög frambærilegum lögum. Restin hljómar aftur á móti alveg heiftarlega eins og uppfyllingarefni og platan líður fyrir það. 4,5 er alveg svaðalegt ofmat á þokkalegri plötu.

 2. Daníel · 24/07/2008

  Takk fyrir gott komment. Ætli þetta sé ekki líka bara smekksatriði hvers og eins líka.
  be well!

 3. Egill · 25/07/2008

  Ég verð að vera sammála fyrsta ræðumanni. Það eru nokkur lög þarna sem minna mann á gamla og góða Odelay takta en restin er óttalegt miðjumoð.

  Góður dómur engu að síður 🙂

 4. Friðrik S. · 27/07/2008

  eins og sagði við þig, frábær plata… kann að meta hana, einmitt rétt Egill, smá Odeley, bara afslappaðri og meira laid-b[e]ck

 5. Haukur · 17/08/2008

  Assgoti er rjóminn rislágr um þessar mundir.

  Vakna svo krakkar! Meira af lifandi umfjöllun! Samdægurs tónleikadóma! Ábendingum um skemmtilegt efni sem þið voruð að heyra! Diss á drasl! Lof á hresst! Húrrah! Húrrah! Húrrah!

  Þið eruð með frábæran miðil þarna, sem fólk les. Og slatta af rithæfileikum í farteskinu líka! Af hverju ekki gera meira úr því, vinna markvisst og vera hress?

  Kkv,

  Haukur

 6. Haukur · 22/08/2008

  Haaaaaa?

 7. aMusickBoy · 24/08/2008

  Tek undir með Hauki, þetta er flott síða sem fólk les og lang oftast flottar umfjallanir EN virðist ekki vera mikið líf hérna, t.d. er þessi plötugagnrýni orðin meira en mánaðargömul og er sú nýjasta á þessum miðli. Hljótið að geta betur en þetta.

Leave a Reply