• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Dimma – Stigmata

Dimma - Stigmata
Einkunn: 3
Utgafuar: 2008
Label: GB Records

Ágætis rokkskífa frá rokkhundunum í Dimmu

Leidd af fyrrum Stripshow-bræðrunum Ingó og Silla Geirdal hefur þungarokksveitin Dimma getið sér gott orð fyrir líflega sviðsframkomu og dugnað í skítugu og ruddalegu þungarokki. Auk þeirra Ingó og Silla, mynda þeir Hjalti Ómar Ágústsson (söngur) og Bjarki Magnússon (trommur), hljómsveitina Dimma.
Stigmata fylgir eftir frumburði sveitarinnar og gefur lítið eftir í samanburði við ágæti þeirrar plötu, sem samnefnd var sveitinni. Að sögn meðlima er Stigmata í raun hálfgerð þema-plata. Meðlimir gera út á að platan beri með sér reynsluna af fæðingu inn í þennan heim, æskuupplifuninni, táningsárunum og eldri árum og svo loks hinum stóra, síðasta anda. Lýsir hulstur plötunnar líklega þemanu ágætlega en framhlið plötuhulstursins státar af fóstri í móðurkvið. Einnig að sögn meðlima, mun það vera í fyrsta sinn sem sónarmynd prýðir plötuhulstur.

Önnur breiðskífa Dimmu á marga góða spretti. Túlkun fæðingar og á aðskilnaðinum við móðurkvið, inn í hinn kalda og stóra heim fer ágætlega fram í laginu Rosebud. Deila má um það hvort Sykurmola-ábreiðan Mama, hefði átt að fylgja þessari seinni plötu sveitarinnar. Sveitin, eins og flestir ættu að vita, vann ábreiðusamkeppni Rásar 2 hér um árið um bestu Sykurmola-ábreiðuna og vakti gríðarlega athygli í kjölfarið. Undirritaður er þó ögn hissa á að lagið hafi fylgt plötunni og var oft erfitt að smella því í samhengi við þema plötunnar. Spyrja má hvort ábreiðan sé ekki helst til of gömul nú þegar hjá sveitinni og hvort lagið hefði ekki sómað sér betur sem kynningarstarfsemi fyrir plötuna, fremur en slagari á plötunni sjálfri. Er það í raun í höndum hvers og eins að dæma það frá eigin smekk.

Þriðja lag plötunnar og án efa eitt allra besta lag hljómsveitarinnar til þessa, Dimmey, hefur allt að bera þegar leitað er eftir gæsahúðarframkallandi og þungu rokki. Allt gengur í raun upp í þristinum og eru raddir þeirra Hjalta og gestasöngkonunnar Elísabetar Eyþórsdóttur að smella vel saman. Elísabet kveður litla vísu og gefur viðlaginu keim sem gerir Dimmey að ávanabindandi smell sem vert er að hlusta á vel oftar en tvisvar. Þungar bassalínur, englakenndar raddir í bland við trega, drungafullan texta og öskrandi gítara gera lagið með eindæmum frábært.
Sveitin keyrir svo í titillag plötunnar og er þar um að ræða hálf epískt þungarokk að ræða en þó kannski helst til of langt lag sem Stigmata er. Lagið státar þó af ágætis köflum hér og þar en verður á öðrum endanum hálf þreytulegt og hefði vel mátt stytta lagið um mínútu eða tvær. Undirritaður telur að með örlítilli styttingu hefði lagið geta orðið mun öflugra og sæti þar afleiðandi betur eftir til lengri tíma litið.  

Í laginu U&I er staðar numið í æviferlinu og litið yfir farinn veg þ.a.s. lífsreynsluna hingað til. 
Textinn skilar vel og þó lagið sé engan veginn það frumlegasta, virkar það vel sem öruggur popp/rokksmellur. Ljúfar og þægilegar kassagítarlínur skila laginu ágætlega frá sér. Hljómsveitir á borð við Alice In Chains koma upp í hugann þegar lagið líður undir lok og eru Seattle-áhrifin greinileg.
Ekki er eftir neinu að bíða og keyrir sveitin plötuna aftur upp frá gruggugum kassagítarlínum í skítugt og þungt rokk og ról með laginu Masterplan. Lagið ætti að þóknast flestum þungarokksþyrstum hlustendum og gengur lagið vel upp og skilar sér vel í Dimmu stíl. Barnalegar enda svo lagið á ógnvekjandi hátt og minna vel á hryllingsmyndir á borð við Nightmare On Elm Street.
Sömuleiðis býr lagið Machina yfir dimmum og skelfandi pælingum sveitarinnar. Gítarlínur Ingó eru hér framúrskarandi og á þessi stórkostlegi gítarileikari hér algjöran stórleik. Djöfullegar melódíur og öskrandi dimm rödd Hjalta Ómars gera lagið að einu því besta sem finna má á plötunni.

All The King´s Men fleytir plötunni inn í endalokin og Desert Nightwish, með Andreu Gylfadóttur sem gestasöngkonu, hefur lítið fram að færa til að teljast með betri lögum plötunnar. Lagið grípur undirritaðan á lítinn sem engan hátt og gleymist lagið, ásamt texta í raun strax að hlustun lokinni. Synd að undirrituðum sé ekki haldið föstum í greipum rokks og róls út plötuna. Skemmtilegt er þó að heyra hina stórfenglegu söngkonu Andreu Gylfadóttur blandast við þá myrku og dimmu hljómsveit sem Dimma svo sannarlega er. Einnig kemur fyrrum bassaleikari Alice Cooper Group og góðvinur sveitarinnar, Dennis Dunaway, hér við sögu og leikur á bassa.  

Hljómsveitin lýkur seinni breiðskífu sinni á laginu Swan Song og málar upp ansi daprar myndir og vísun í sjálfsvíg má hugleiða. Vonleysi og uppgjöf kemur til hugar. Áhugavert er að heyra ögn trip-hop kenndan takt í laginu og er tregafullum söng Hjalta Ómars blandað við fallegar gítarmelódíur og þungan bassa. Ingó Geirdal á hér enn einn stórleikinn og skreytir lagið með fallegum gítareinleikjum en lagið missir marks hjá undirrituðum í raun vegna ófrumleika þess. Í raun má segja að undirritaður hafi heyrt svipað lag kannski einum of oft til að geta tekið sér að hjarta þetta, svosem ágæta lag.

Dimma skilur undirritaðan eftir með bros á vör, þrátt fyrir nokkrar holur í malbikinu hér og þar. Klárt er að sveitin sleikir toppinn á ísjakanum þegar litið er yfir betri þungarokksbönd Íslands og sómar sér vel við hlið fremstu rokksveita Íslands. Hins vegar hafa þeir ekki heillað undirritaðan líkt og þeir gerðu með frumburði sínum, Dimma, en hafa þó lagt fram ágætis rokkplötu sem verðugt er að kynna sér og finna keiminn af. Mæli ég þá eindregið með þessari plötu fyrir alla þá sem hlustað hafa á þá bræður Ingó og Silla í gegnum tíðina og notið þess sem þeir gefa af sér og sömuleiðis mega þeir sem lítið sem ekkert hafa í þeim heyrt, endilega ná sér í eintak. Því þó hér sé ekki um að ræða bestu rokkplötu ársins er hér öflug og skemmtileg plata á ferðinni.

Nú er bara að sjá hvernig Dimma smyr vélina og hvort hún svífi inn í sólarlagið eða klífi hæstu tinda á næstunni.

 

Leave a Reply