• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

LungA á Seyðisfirði

  • Birt: 15/08/2008
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 1

LungA á Seyðisfirði

…helgi í paradís!

Listahátíð ungs fólks á Austurlandi, LungA, var haldin í níunda sinn dagana 14.-18.júlí. Rjóminn var að sjálfsögðu á staðnum

Vinalegt var það, andrúmsloftið sem tók á móti undirritaðri föstudaginn 18.júlí á Seyðisfirði. Það setti að vissu leyti tóninn fyrir restina af helginni, en eitt af sérkennum LungA er hve afslöppuð og kósý hátíðin er. Hún var upphaflega hugsuð sem leið til að hvetja ungt fólk áfram í listsköpun sinni, efla áhuga þeirra á hinum ýmsu listum og að fá Seyðisfjarðarbörnin heim að námi loknu – en meira að segja miðbæjarrottunum fannst þær vera komnar heim þegar þær keyrðu inn fjörðinn. Seyðisfjörður er náttúrulega ein af náttúruperlum landsins okkar og það þarf því varla að koma neinum á óvart að listahátíð á slíkum stað geti ekki annað en heppnast vel. Að því sögðu verða viðburðir helgarinnar raktir í stuttu máli.

 

Föstudagur

Þegar rennt var í hlað á föstudagseftirmiðdegi voru listasmiðjur vikunnar búnar í bili og töluverð spenna komin í mannskapinn varðandi ævintýri helgarinnar. Föstudagskvöld LungA er yfirleitt tileinkað tónlistinni og var engin undantekning á því þetta árið, en plötuútgáfan Kimi Records var mætt með fjórar af sínum hljómsveitum og bauð auk þess lókalsveitinni Miri að spila með sér þetta kvöld. Tónleikarnir voru partur af sumartúr Kimi Records og sást glöggt hversu hlýtt er orðið á milli hljómsveitanna – Baldvin Esra er greinilega kærleiksríkur fjölskyldufaðir! En þrátt fyrir þetta frábæra úrval tónlistarmanna var Herðubreið (salurinn) aðeins hálf full megnið af kvöldinu og er því eflaust um að kenna að það kostaði þúsund krónur aukalega á tónleikana. Eitthvað var það illa auglýst og margir héldu að tónleikarnir væru innifaldir í LungA miðanum, en svo var ekki og sneru þeir vonsviknu því flestir aftur á tjaldsvæðið. Því vantaði töluvert upp á stemninguna, en hljómsveitirnar skiluðu allar sínu af stakri snilld og tónleikarnir gengu hratt og örugglega fyrir sig. 

Fyrst á svið var austfirska sveitin Miri en hún er með efnilegri sveitum landsins þessa stundina. Þeir félagarnir eiga dygga aðdáendur sem hafa flestir séð þá margoft og sást það glögglega á tónleikunum, en gestirnir þekktu margir hverjir lögin þeirra. Miri stóðu sig með prýði og er óhætt að mæla með þeim á tónleikum, en spilagleðin bókstaflega skín af hljómsveitarmeðlimum. Þeir hlutu fínar viðtökur og voru klappaðir upp þar sem þeir tóku Hamingjulagið við miklar undirtektir áhorfenda. Miri eru nú að flytja suður til að taka upp sína fyrstu breiðskífu með engum öðrum en John Congleton, en hann hefur unnið með hljómsveitum á borð við Modest Mouse og Explosions in the Sky. Það verður forvitnilegt að sjá hvað kemur út úr því samstarfi og eru lesendur hvattir til að fylgjast náið með Miri á næstu misserum. Morðingjarnir voru næstir á svið og skiluðu sínu af mikilli snilld. Þeir sem hafa ekki enn hlustað á nýjustu plötu þeirra félaga, Áfram Ísland, ættu að gera það hið snarasta þar sem jafn hressandi pönkrokk er vandfundið þessa dagana! Það var þó ekki laust við að hljómsveitin og áhorfendur mynduðu undarlega blöndu, kannski ekki beint sá hópur sem Morðingjarnir eru vanir að spila fyrir. Það sama gilti um næstu hljómsveit á eftir, Reykjavík!. Þeir eru mikið í því að spila á sveittum rokkbúllum sem er ekki beint Herðubreið í hnotskurn… Aftur á móti tókst þeim á einhvern undraverðan hátt að rífa upp stemninguna og fá nánast alla viðstadda til að svitna svo um munaði, enda alltaf hressir og í fantaformi. Alvöru rokkstjörnur, þessir menn. Sérstaklega gaman hversu óhræddur Bóas söngvari er við að syngja meðal áhorfendanna. Hef gaman af því hversu líkur hann er frænda sínum Birki úr harðkjarnasveitinni sálugu I Adapt, en þeir státa af mjög svipuðum töktum á sviði. Næstir á svið voru hinsvegar Borko, en þeir mættu til leiks íklæddir hlýrabolum og keyrðu sitt prógramm áfram af miklum krafti. Klárlega ein áhugaverðasta sveit landsins um þessar mundir. Sérstaklega gaman var að heyra þá spila Morðingjalag með karlakór á bak við sig sem innihélt meðlimi úr hinum sveitunum. Benni Hemm Hemm var síðasta hljómsveit kvöldsins. Hætt var að rukka inn á einhverjum tímapunkti og var því orðið nokkuð troðið þegar Benni og félagar hófu leik. Þeir komu skemmtilega á óvart, voru hressir og náðu upp mikilli stemningu. Að tónleikum þeirra loknum flykktust hinar Kimi hljómsveitirnar upp á svið með þeim og tóku saman sumargleðilag Kimi Records við mikinn fögnuð viðstaddra. Sungið var með og dansað eins og enginn væri morgundagurinn og er óhætt að segja að flestir hafi farið út sáttir. Kvöldið var þó ekki búið, en plötusnúðarnir Gísli Galdur og Curver sáu um að skemmta fólki fram á rauða nótt. Rýmið var þröngt en það virtist þó ekki fara fyrir brjóstið á viðstöddum sem skemmtu sér konunglega.

 

Laugardagur

 

Laugardagurinn byrjaði með uppskeruhátíð LungA, en hún fór fram í öllum krókum hússins og var þar hægt að sjá margvíslegan afrakstur vikunnar skemmtilega framsettan. Greinilegt að gestir LungA lærðu ýmsilegt á að stunda listasmiðjur sínar, en það sem var í boði þetta árið var stomp, dj hljóðbræðingur, fatahönnun, teiknimyndasögusmiðja, gjörningasmiðja og sirkus.

Eftir að uppskeruhátíðinni lauk tóku við svokallaðir off venue tónleikar sem Jökull Snær stóð fyrir. Þeir voru haldnir úti í sólinni þar sem fólk flatmagaði laust við allar áhyggjur, umkringt fögrum fjöllum Seyðisfjarðar. Ýmsir sölubásar prýddu svæðið með úrval af varningi, m.a. lopavettlinga sem undirrituð fjárfesti í enda ekkert grín hversu kalt getur orðið á Seyðisfirði um kvöld. Ásamt Jökli komu fram á tónleikunum hljómsveitirnar Fist Fokkers, Slugs, For a Minor Reflection og (Casette). Tónlistarmaðurinn Ruxpin var líka búinn að staðfesta komu sína en spilaði þó ekki sem er mikill missir enda mjög flott tónlist. En af nógu var að taka þennan dag og spilagleðin réð ríkjum. Fist Fokkers hófu leika og var hrátt rokkið eins og köld vatnsgusa framan í áhorfendur, mjög hressandi hljómsveit sem gaman er að fylgjast með spila. Slugs bættu smá sýru í hljómkokteilinn með ögrandi framkomu og framsæknum hljómi á meðan Jökull Snær prófaði sig áfram í tilraunakenndri raftónlist. Árni Geir/ (Casette) afsakaði pent að hafa gleymt tæknibúnaði sínum og bauð í staðin fólki að spinna með sér af fingrum fram. Spuninn gekk í smá tíma og var ekki annað að sjá en að allir skemmtu sér vel. Sérstaklega var eitt stefið efnilegt, spurning hvort þeir strákarnir geti ekki hist aftur og gert eitthvað meira úr þessu? Jafnvel að hafa spunanámskeið/djammsession sem fastan lið á LungA á næsta ári, gæti verið skemmtilegt þar sem margir færir hljóðfæraleikarar eru samankomnir á sama staðnum. Væri jafnvel hægt að hafa lokatónleika með í uppskeruhátíðinni þar sem samansettar hljómsveitirnar kæmu fram. Bara pæling.

For a Minor Reflection enduðu útitónleika laugardagsins en þá voru margir farnir að týnast í mat. Þeir sem eftir voru störðu á falleg fjöllin á meðan ljúfir tónar FaMR ómuðu en spruttu svo sumir hverjir í dans í síðasta lagi þeirra sem er öllu pönkaðra og hressara. Að tónleikunum loknum var haldið í mat og kröfum safnað fyrir tónleika kvöldsins. 

Vegna misskilnings um hvenær aðaltónleikar laugardagsins áttu að hefjast (FM Belfast, Dísa, Bang Gang, Bloodgroup) missti ég því miður af fyrstu tveimur hljómsveitum kvöldsins, FM Belfast og Dísu. Báðir tónleikarnir áttu þó að hafa verið frábærir hvor á sinn hátt og var talað um að plötu FM Belfast sé beðið með eftirvæntingu eftir tónleikana á meðan Dísa þótti koma nokkuð á óvart og gefa meira af sér en heyrist á fyrstu plötu hennar. Næst á svið var aðalhljómsveit kvöldsins, eða Barði og félagar í Bang Gang. Það er greinilegt að Bang Gang eiga aðdáendur meðal ungmennanna á Seyðisfirði en ekki þótti öllum mikið til koma, enda verður að segjast eins og er að Barði er töluvert falskur á tónleikum. Það er samt erfitt að kunna ekki að meta kjánalega brandarana, en hann verður seint þekktur fyrir að vera líflegur á sviði. Tónlistin er þó alltaf jafn góð, alveg í sérflokki, og er því aldrei þreytandi að sjá Bang Gang live þótt það séu vissulega vonbrigði miðað við hvernig hljómsveitin er á plasti. En nóg um það, Bloodgroup voru síðust á svið og það er best að það komi bara strax fram að þau kunna svo sannarlega að halda partý! Hvort sem um er að ræða partý á sveittum bar, grunnskólaballi eða Herðubreið á Seyðisfirði. Krafturinn og spilagleðin í þessu ferska bandi fóru ekki fram hjá neinum. Þau fengu mann til að gleyma stund og stað og gera bara það sem mestu máli skipti; dansa. Viðstaddir voru sko ekki á þeim buxunum að sleppa þeim strax og því var sniðugt af aðstandendum hátíðarinnar að fá þá Kasper Björke og Trentemöller til að enda laugardagskvöldið með brjáluðu eftirpartýi. Fáir eru jafn færir í að koma fólki í stuð og Trentemöller og var þetta kvöld engin undantekning. Góður endir á góðum degi. 

 

 

Sunnudagur

Síðasti dagur LungA rann upp og fólk fór að týnast heim í fyrra fallinu, enda löng bílferð framundan hjá mörgum. Það var þó mikill missir að mínu mati því einn af hápunktum hátíðarinnar fór fram um eittleytið á sunnudeginum – tónlistarmessa í Seyðisfjarðarkirkju. Messan var samin af Hjalta Jóni Sverrissyni, en honum til fulltingis í kirkjunni voru þeir Breki Steinn Mánason, Birkir Snær Mánason, Theódór Sigurðsson og Leifur Kristján Gjerde. Það var fámennt en góðmennt í kirkjunni, sem er klárlega ein fallegasta kirkja á Íslandi. Og ekki versnaði það þegar Hjalti og félagar hófu að spila. Messan var samfelld gæsahúð frá byrjun til enda, barnsleg einlægni í þroskaðri útsetningu. Flottar tónsmíðar og fallegt þakklæti í textunum settu tóninn þennan morgun og gengu líklega flestir út úr kirkjunni betri menn og með von í hjarta, a.m.k. ég.

Þá var stefnan tekin á ljósmyndasýningu á vegum LungA í samstarfi við Viktor Pétur ljósmyndara. Verkefnið var heldur sérstakt, en Viktor var alla hátíðina með myndavélina á lofti, smellti af og framkallaði samdægurs. Bestu myndirnar voru svo hengdar upp á þvottasnúru (ásamt gömlum sokkum og öðrum klæðnaði, nota bene) til sýnis og var hægt að fjárfesta í sinni uppáhalds gegn vægu gjaldi að sýningunni lokinni. Skemmtileg hugmynd og vel útfærð. 

Einnig var flott myndlistarsýning í Bókaverzlun Seyðisfjarðar undir heitinu Blaðberinn ber. Þar mátti sjá ýmiss konar listaverk efir nokkra listamenn og skoða um leið ferilskrár þeirra og afrek. Þannig að þótt Seyðisfjörður sé ekki endilega stærsti eða fjölmennasti bær á Íslandi skortir svo sannarlega ekki listalífið þar, og hefur LungA svo sannalega tekist að vekja athygli á því.

En þá var komið að kveðjustund. Fór hún fram í formi grills í boði aðstandenda LungA í sólríkri brekkunni fyrir framan Herðubreið. Þar sem ég lá í sólinni, smjattaði á pulsu og horfði upp í skýrann himininn velti ég því fyrir mér hvenær ég myndi nú eiginlega koma til Seyðisfjarðar aftur. Ef ekki fyrr, þá allavega á LungA 2009. Sjáumst þar, og takk kærlega fyrir mig!

1 Athugasemd

  1. Sigfríð · 16/08/2008

    Frábær fjöllun um frábæra hátíð! L.ung.A 2009 mun ekki vera síðri!! 🙂

Leave a Reply