Mammút – Karkari

Mammút - Karkari
Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2008
Label: Record Records

Myrkrapoppsveit með metnaðarfulla texta

Mammút er ein af þessum íslensku hljómsveitum sem spila bara tónlist, frekar en að fylgja til hlítar einhverjum ströngum reglum einnar stefnu. Mammút hefur þó eins og margar aðrar hljómsveitir sem þetta stunda eina grunnstefnu. Mammút er að grunninum til popphljómsveit. En það sem gerir Mammút frábrugðna því klisjuvæli sem virðist einkenna íslenska popptónlist er allt það sem hrært er út í grautinn, allavega á þessari plötu, Karkara. Mammút birtist sem myrkrapoppsveit, eða því hallast ég að. Það er í það minnsta eitthvað óráðið eða einhver drungi sem er tónlistinni á Karkara undirliggjandi.

Með þessu fær Mammút sinn eigin hljóm. Ef kafað er dýpra í lögin má líka heyra ýmis falleg smáatriði í útsetningunum sem gefa tónlistinni meiri dýpt en flest popp hefur að bera. Þar mætti nefna fyllingar trommarans, tungusmelli Kötu söngkonu, eða einhverja gítar- eða bassaeffekta sem alla jafna mætti ekki heyra þarna einhvers staðar á bak við í hljóðheimi Mammút. Eins er bassaleikurinn góður, þegar hann fær að njóta sín, sem er reyndar ekki beint alltaf.

Svo maður fari aðeins nánar í gítarleikinn þá á hann það til að kasta rýrð á lögin, sem er slæmt því gítar leikur mjög stórt hlutverk í tónsmíðum Mammút. Riffin sem spiluð eru undir í viðlögunum eru til dæmis full einsleit. En það mætti kannski kalla tilfallandi skaða af þeirri staðreynd að Mammút spilar popp. Miðað við það að þetta er einfaldlega popp er þetta vel gerð plata, en það má ekki bara miða við það. Poppið dregur plötuna niður, hún er satt að segja full venjuleg og fyrirsjáanleg á köflum. Bygging laganna fellur nánast algjörlega undir poppformúluna og oft veit maður hvað kemur næst. Á næstu plötu langar mig að heyra Mammút spreyta sig á óhefðbundnari tónsmíðum, því það býr á bak við poppið ákveðinn efnisviður sem ég held að spryngi betur út á öðrum vígstöðvum en popptónlist.

Söngur og textagerð eru hinsvegar dæmi um hluti til fyrirmyndar á þessari plötu. Söngspíran Kata er með virkilega góða rödd, og það sem betra er, söngstíllinn er einnig stórgóður. Söngurinn bætir oft fyrir einfalt og klisjukennt undirspil. Sjálfur stóð ég mig að því oftar en einu sinni að syngja með, því línurnar eru sumar mjög grípandi, en ekki þó án þess að vera dularfullar. Textarnir taka sig vel út sungnir með kynþokkafullri röddu Kötu og ríma vel við þennan undirliggjandi drunga sem alltaf springur einhvers staðar út inni á milli. „Dýradóttir“ og „Endir“ gefa góð dæmi um söng Kötu. Það verður einnig að segjast að það hjálpar Mammút tvímælalaust að syngja á íslensku. Maður fær mun betri tilfinningu fyrir lögunum og veit að það er metnaður lagður í textana, annað en hjá allt of mörgum íslenskum hljómsveitum sem gaula bara eitthvert raus á ensku algjörlega án metnaðar og dýpri merkingar. Textar Mammút eru þó ekki glæsilegir bara vegna samkeppnisskorts, heldur vegna þess að þeir eru dulúðlegir og ljóðrænir og geta borið ýmsar fleiri merkingar með sér en mann grunar fyrst. Aðrir tónlistarmenn, hvort sem þeir syngja á íslensku eða ensku, mættu taka sér vinnuna sem lögð var í söng og texta á Karkara til fyrirmyndar.

Gott dæmi um hversu vel heppnuð Mammút-útgáfan af popptónlist getur verið er hið baneitraða lag „Svefnsýkt“. Mörgum virðist líka vel við alla plötuna, en þetta lag hefur (að mínu mati eðlilega) hlotið hvað bestar viðtökur. Popparar, indíkrakkar jafnt sem metalhausar virðast allir hrífast af laginu, sem er popp blandað við eðal eyðimerkurrokk. Bassaleikur sem dettur inn og út úr hljómi, baneitraðar gítarlínur, grípandi viðlag, kynþokkafullur undirtónn, óharmónískt trompet í millikaflanum; þetta lag er eðalslagari og tilraunakenndur að auki, í það minnsta á poppskalanum. Aldrei þessu vant fór almennilegt lag á toppinn á X-inu.

Það er fjölbreytni á plötunni. Stuð, drungi, keyrsla, rólegheit, fallegir tónar, ljótir tónar, ýmsar tilfinningar í gangi. Mismunandi litlar anekdótur til að pæla í. Þessi plata ætti að njóta sín live og ef allt gengur að óskum verða komandi útgáfutónleikar góðir. Hinsvegar þola lögin á Karkara (að nokkrum undanskildum) illa margar spilanir. Þessi plata er ágæt til að spila þangað til maður fær eitthvað annað í hendurnar. Þegar allt kemur til alls er Mammút nefnilega bara popp, þó svo að þetta sé vel gert popp.

18 responses to “Mammút – Karkari”

 1. Hildur Maral says:

  Þetta finnst mér skemmtileg plata. 3.5 *

 2. Helgi says:

  Frekar slappt að þú skulir nota orðið popp sem nokkurskonar blótsyrði. Ágætis dómur en ég ætla samt að kaupa mér þessa plötu. Mammút er að mínu mati eitt áhugaverðasta íslenska band síðustu ára og mér finnst það ekki skemma fyrir að það sé user-friendly.

 3. Dagbjartur Gunnar says:

  Ég verð að vera ósammála með poppstimpilinn, melódískt altern. rokk hljómar sanngjarnar að mínu mati.
  Ég verð líka að vera ósammála þér með að á bakvið texta plötunnar sé almennt metnaður. Einn og einn texti sker sig úr með fallegum myndhverfingum og djúpum skírskotunum í blæti eða söknuð, rest hljómar líkt og samin í flýti.
  Að öðru leiti er ég sammála þér með að þetta sé framúrskarandi plata 😉
  Góður dómur.

 4. Sævar Atli Sævarsson says:

  Ágætis dómur, hafði samt gefið henni 3 (er samt ekki búinn að hlusta á hana mjög mikið).

  Skil þig samt ekki af hverju þú notar pop-stimpil í svona negatífri meiningu. Poppstimpilinn er þó nokkuð loðinn í dag, en samt.

 5. Lilja Kristín says:

  ,,Þegar allt kemur til alls er Mammút nefnilega bara popp, þó svo að þetta sé vel gert popp.”

  Þessi setning finnst mér stórlega gölluð, og bera mjög mikinn keim af einhverju artí fartí snobbi. Hljómar eins og þér finnist popp bara ömurlegt.
  Popp er eitt æðsta form tónlistar. Er ekki Mammút líka aðeins meira töff rokk en hefðbundið íslenskt popp (þar á ég við Á móti sól, Ingó og Veðurguðina, Í svörtum fötum, Sálina, Írafár og svo framvegis)?
  Hef reyndar ekki heyrt þessa plötu neitt að ráði, langaði bara í internetslag.

 6. Bjössi M. says:

  Þessi ritdómur er einn sá undarlegasti og gallaðasti sem ég hef lesið. Hlutdrægnin skín svo hlægilega mikið í gegn að maður fer hjá sér. Þessi hluti fannst mér t.d. alveg frábær:
  “Riffin sem spiluð eru undir í viðlögunum eru til dæmis full einsleit. En það mætti kannski kalla tilfallandi skaða af þeirri staðreynd að Mammút spilar popp. Miðað við það að þetta er einfaldlega popp er þetta vel gerð plata, en það má ekki bara miða við það. Poppið dregur plötuna niður…”
  Hvað ertu eiginlega að reyna að segja maður? Mammút semsagt spilar popp og slæmur ávinningur þeirrar staðreyndar er m.a. að riffin verða einsleit??
  Höfundur ritdómsins fyrirlítur greinilega það sem hann kallar “popp” (af hverju þarf annars alltaf að vera að flokka tónlist svona mikið alltaf??) og býr til einhverja steypu og þvælu í kring til að koma þessari skoðun sinni á framfæri.
  Mér bara blöskrar svona feiknarlega ófagmannleg vinnubrögð og finnst afar skrýtið að þessi dómur hafi komist í gegn á þessari annars mjög góðu síðu.
  Takk fyrir.

 7. Jóhanna Sif says:

  Ætla að næla mér í þessa við tækifæri!

 8. Guðmundur Einar says:

  Nú verð ég að vera sammála Bjössa M.
  Alveg fáránlegur dómur.
  Það er alveg augljóst að gagnrýnandi hefur mjög þröngan tónlistarsmekk, og því ætti hann ekki að vera að gagnrýna plötu undir þeirri tónlistarstefnu sem hann er búinn að ákveða fyrirfram að hann þoli ekki. Leiðinlegt hvað hann notar orðið popp á niðrandi hátt. Engan vegin dómur sem hægt er að taka mark á! (að frátöldu því að vera illa skrifaður og nánast óskiljanlegur á köflum). Góður gagnrýnandi ætti að vera opinn fyrir öllu.

  Nú hef ég sjálfur hlustað mikið á þessa plötu síðan ég festi kaup á henni, og verð að vera algjörlega ósammála gagnrýnanda með að þetta sé “bara popp”. Þessi plata býður upp á svo miklu meira. Margar tónlistarstefnur sem koma fram á henni og fjölbreytileiki mikill. Tónlist þarf heldur ekki að vera flókin til þess að maður heillist að henni eða að hún sé grípandi góð. Þvert á móti þá er less oft more.
  Þetta er mín skoðun og kom mér það rosalega á óvart að platan fengi ekki betri dóm á þessari síðu, þar sem ég er oftast sammála gagnrýni sem ég les hér.
  Ég ætla m.a.s. að gerast svo djarfur að segja að þetta sé ein af betri íslensku plötum á árinu og ég er spenntur að sjá hvað Mammút krakkarnir taka sér fyrir hendur eftir svona stykki!

 9. Svava Kristín says:

  2,5?
  Ef maður ber þetta saman við aðra dóma á þessari síðu þá er þetta mjög lág tala.
  Þetta er fínn diskur og mér finnst hann eiga skilið aðeins hærri tölu. Amk 3,5-4,0.

  Ég væri til í að sjá annan dóm en þennan. þar sem þessi diskur er að fá almennt mjög góða dóma.
  kv. Svava

 10. Kristján (ekki gagnrýnandi þó, heldur bara nafni) says:

  Mér finnst svolítið merkilegt að fólk þurfi alltaf að vera að hakka gagnrýnendur í sig fyrir það eitt að hafa aðra skoðun en hinir. Tökum dæmi: Systir mín hefur mjög gaman af rapparanum Dabba T. Mér finnst hann hundleiðinlegur og textarnir eru leiðinlegir og kjánalegir að mínu mati. Annað dæmi: Mamma mín hefur gaman af Geirmundi Valtýssyni. Ekki ég. Ég fæ smá kjánahroll þegar ég heyri í honum. Þriðja dæmið: Kærasti mömmu minnar hefur gaman af Bubba Morthens. Mér hinsvegar finnst tónlistin sem hann hefur verið að gera upp á síðkastið leiðinlegt væl sem ég hef heyrt frá honum oft áður. Er ég þá bara fífl því að ég hef aðra skoðun en þau? Eða hef ég ekki vit á tónlist því að mér finnst flest “mainstream” tónlist leiðinleg? Nei, þetta kallast einfaldlega að hafa annan smekk en aðrir og það hafa allir rétt á því, og líka sá sem gagnrýndi þessa plötu. Hann segir í þessum dóm frá sinni upplifun og sinni skoðun á þessari plötu, og hefur nákvæmlega sama rétt á því án þess að þurfa að eiga von á því að fólk sé með leiðindi við hann vegna þess.

  Lilja Kristín skrifaði: “Popp er eitt æðsta form tónlistar.”
  Hvernig er hægt að kasta þessari fullyrðingu fram? Hvað er það sem gerir popptónlist æðri en t.d. jazz, fönk, sinfóníutónlist, black metal, death metal, doom metal, pönk eða rokk?

 11. Zakarías Herman Gunnarsson says:

  Ég er búinn að fá fullt nýtt í hendurnar síðan að ég keypti mér Karkara. Burtséð frá því hlusta ég oft á hana á dag ennþá. Mér finnst hún brjáluð. Ég hef ekkert að setja út á þennan dóm, allir hafa sinn smekk og það er ekki mitt né ykkar að véfengja það sem þessi gaur er að tjá.

  Mér finnst aftur á móti mjög skrítið að hann minnist ekki einu sinni á Rauðalæk í dómnum sínum. Rauðilækur er svo ógeðslega spikfeitt lag að það hálfa væri nóg. Það hálfa væri bláu augun.

 12. Lilja Kristín says:

  Ég sagði ,,eitt æðsta form tónlistar” af því ég tel það meðal (og þá undirstrika ég MEÐAL) þeirrar tónlistar sem er hvað merkilegust. Að minnsta kosti finnst mér alltaf mikið afrek að búa til popptónlist, þ.e. ,,popular music” sem fellur ekki bara einum, ekki bara tveimur heldur mjög mörgum í geð á sama tíma og sameinar þannig mannfólk þessa alheims á einhverju einu plani. Allavega er ég mjög heilluð af popptónlist hvað þetta varðar. Þarna var alls ekki ætlunin að skíta yfir aðrar tónlistarstefnur, sem að sjálfsögðu eru allar jafn yndislegar á sinn hátt.

  Svo snýst rifrildið hérna alls ekki um það að greinarhöfundur hafi aðra skoðun en aðrir. Þetta snýst um orðaval og það að hafa opinn huga.
  Friður.

 13. Hildur Maral says:

  Ah sammála með Rauðalæk, geggjað lag.

  Fannst það ekkert brjálað fyrst en eftir nokkrar hlustanir vex það algjörlega í áliti!

 14. Zakarías Herman Gunnarsson says:

  án alls gríns, ég fór að gráta um daginn þegar ég hlustaði á það.

 15. Binni says:

  “bara popp” segir allt um hrokann í þessum dómi. Fyrir mér skiptir engu máli hvort heitið sé Animal Collective eða Justin Timberlake. Góð tónlist er góð tónlist. “Popp” er ekki niðrandi orð um tónlist.

 16. Birkir Brynjarsson says:

  Persónulega finnst mér ekki að gagnrýnandi eigi að láta eigin skoðun á tónlist ráða ferðinni. Gagnrýnandi á að hafa vit á að vera óhlutdrægur og sökkva sér ofaní tónlistinni frá sjónarhorni hins almenna hlustanda auk þess að skoða tónlistina frá hlið listamannsins.
  Mér finnst persónulega mjög skrýtið þegar gagnrýnandi segir: “mér finnst þetta lag vera of langt, eða ég hefði sett eitthvað hressara lag til að enda plötuna o.s.frv” eins og það sé einhver ákveðinn formúla til þess að plata sé rétt gerð (fullkominn). Gagnrýnandi á frekar að reyna að svara spurningum einsog: “hvað vakti fyrir listamanninum með þessu verki”, og er hann að ná þeim markmiðum.

  Ef það var markmið hljómsveitar að gera 3 mínútna alternative rokk lög til að grípa hlustendur við fyrstu útvarpshlustun, þá er spurningin hvort það markmið hafi verið náð.

  Sjálfur hef ég ekki kynnt mér þessa plötu með Mammút en ef hún er pop-ular miðað við það sem gagnrýnandi segir, hlýtur það að vera jákvætt fyrir mammút-liða.

 17. Dagur Bollason says:

  Greinilegt að höfundur er ekki að hlusta á plötuna með opnum huga, ég legg til að einhver annar geri dóm um hana hérna.

 18. Vignir says:

  Kemur á óvart að höfundur nefni ekki Rauðalæk sem er án efa vinsælasta og mest commercial lag plötunnar.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.