• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Alias – Resurgam

Alias - Resurgam
Einkunn: 3
Utgafuar: 2008
Label: Anticon

Aðdáendur hinna þungu, brotnu takta ættu að leggja við hlustir.

Alias er listamannsnafn Brendon nokkurs Whitney. Hann er áhugaverður raftónlistarmaður sem dýfir stóru tánni af og til í volga strauma analog tónlistar og grípur þá oftast í gígjuna. Rætur hans liggja í austurstrandar Hip-hop senunni í Bandaríkjunum en undanfarin ár hefur hann þróað sig áfram með ólíkar stefnur og skilar nú af sér afar áheyrilegri plötu, sinni fyrstu sólóplötu í fimm ár, sem segja má að sé afrakstur þessa þróunarstarfs.

Alias byggir tónlist sína að grunninum til á instrumental Hip-hoppi en hleður svo ofan á lag eftir lag af örlítið þunglyndislegri melódíu, gítarspili, hljómborðum, hljóðsmölun og takkatvisti sem skilar rafrænum hljómheim sem minnir á samblöndu af DJ Shadow og listamönnum eins og Jem, Amon Tobin eða Four Tet.

Það er fyrst og fremst í þeim lögum þar sem melódían og gestasöngvararnir fá að njóta sín að platan sem hér um ræðir nær góðu flugi. Restin af plötunni er, eins og áður sagði, meira og minna instrumental Hip-Hop og þó það sé á köflum helvíti þétt verður því seint haldið fram að þar heyri maður eitthvað nýtt. Stundum bregður fyrir einstaka óvæntum takti eða skemmtilegri úrvinnslu en á heildina litið er ekki mikið fyrir frumleikanum að fara. Í einu lagi heyrði ég meira að segja hljóðbút frá Wiseguys sem lítið var gert til að fela. Hvort sem það á að vera virðingavottur eða léleg vinnubrögð skal ósagt látið en það hitti allavega ekki í mark hjá undirrituðum.

Lagið "Well Water Black", þar sem Yoni Wolf úr WHY? (sem er einnig á mála hjá Anticon) syngur, ber höfuð og herðar yfir önnur lög á plötunni. Það er gaman að heyra hvernig þungir og drífandi taktarnir ná samhljómi með laglínunni. Segja má að þetta sé svona "Indie meets Hip-Hop/Electronica" lag og verður að segjast að það heppnast fullkomlega að bræða þessar stefnur saman.

Af öðrum lögum sem vert er að nefna er hægt að telja til "Death Watch" og "Weathering" þar sem The One AM Radio, eða Hrishikesh Hirway eins og hann heitir víst, ljáir laginu undurfagran blæ með ljúfri rödd sinni.

Resurgam er ekki gallalaus plata en þegar á heildina er litið eru plúsarnir eru samt margfalt fleiri en mínusarnir. Hún er vel þess virði að eignast þessi þrátt fyrir að verða seint talin til frumlegri verka innan þessa tónlistargeira. Aðdáendur hinna þungu, brotnu takta ættu einna helst að leggja við hlustir.

[MP3]

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Egill er ritstjóri Rjómans, vefhönnuður, bloggari, faðir, hundaeigandi og tónlistar- og fótboltaunnandi. Egill hefur m.a. setið í dómnefnd Kraums Tónlistarsjóðs, fagráði Airwaves og verið álitsgjafi um ýmislegt tengt tónlist og tengdum málefnum.

2 Athugasemdir

  1. Sævar Atli Sævarsson · 15/09/2008

    Hljómar eins og nokkuð áhugaverð plata. Ætli maður verði ekki að checka á þessu.

  2. Egill · 15/09/2008

    Ég held þú verðir að gera það 🙂

Leave a Reply