Airwaves dómur: Borko – Celebrating Life

Airwaves dómur: Borko - Celebrating Life
Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2008
Label: Morr Music/Kimi Records

Fyrr á þessu ári á Rjómanum: Frumleg og skemmtileg!

Fyrsta plata Björns Kristjánssonar, eða Borko, hefur litið dagsins ljós á vegum Kimi Records. Platan ber nafnið Celebrating Life og inniheldur átta hressandi lög sem allir ættu að tékka á. Af hverju? Jú, hér eru allavega þrjár ástæður;

 

1. Tónlistin er frumleg. Einhvers konar tilraunakennd tónlist með skírskotun í klassískan grunn og þó mikið grúv á köflum. 

2. Borko er fullur af skemmtilegum hugmyndum og lætur þær verða að veruleika. Ekki skemmir fyrir að hann er með viðkunnalega rödd og er dúlla. 

3. Þetta er einfaldlega flottasta íslenska plata sem ég hef heyrt í langan tíma. Mig hefði aldrei getað grunað að þvílíkur dýrgripur biði þess að vera uppgtötvaður. Lögin á Celebrating Life gætu hæglega verið undirspil frábærrar kvikmyndar, og það er einmitt svolítið þannig sem ég upplifi tónlistina – sem eyrnakonfekt gert til að bragða á og búa til góðar minningar um leið.

 

Eins og vill oft verða tekur þó að halla aðeins undan fæti þegar nær dregur lokum plötunnar en seinni helmingurinn skilur ekki eins mikið eftir sig og sá fyrri. Hann nær til dæmis ekki sömu hæðum og "Spoonstabber", en þar gætir Mugison áhrifa og fuglasöngs sem minnir á 17.júní-fuglakallana sem keppast um að blístra til ágóða. Ég hefði aldrei getað giskað á að ég ætti nokkurntíman eftir að hugsa um þá í jákvæðu samhengi, en svona er lífið óútreiknanlegt. Önnur frábær lög eru til að mynda "Continental Love", þar sem manni líður svolítið eins og maður sé neðansjávar að hlusta – og "Sushi Stakeout", sem ber mann til fjarlægari landa. 

Hin lögin eru þó nægilega góð til að hægt sé að kalla Celebrating Life afbragðs frumraun og ferska viðbót við íslenska tónlist. Frekari sannfæring er óþörf – hvet alla til að hlusta á þessa!

 

 Borko – Hondo & Borko:

 

 Borko spilar á Tunglinu miðvikudag kl. 21 og á Hressó laugardagskvöld kl. 21.30

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.