• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Airwaves dómur: FM Belfast – How To Make Friends

Airwaves dómur: FM Belfast - How To Make Friends
Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2008
Label: World Champion Records

Partýið byrjar hér…

FM Belfast hefur undanfarin tvö ár eða svo verið eitt heitasta tónleikaband landsins og loksins er fyrsta breiðskífa sveitarinnar að koma út. Öflugar tónleikasveitir eiga það allt of oft til að verða fremur flatar þegar á plast er komið en á How To Make Friends sýnir FM Belfast að slíkar áhyggjur eru óþarfar og skila þau stuðinu ómenguðu til hlustenda.

Sveitin var upphaflega samstarfsverkefni parsins Árna Rúnars Hlöðverssonar (Plús Einn, Hungry & The Burger, Hairdoctor, Motion Boys o.s.frv.) og Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur en Árni Vilhjálmsson og Örvar Þóreyjarson Smárason (múm o.fl.) bættust fljótlega í hópinn. FM Belfast á reyndar til að vaxa enn frekar eftir tækifærum og er ekki óvanalegt að sjá fjölda fólks á sviðinu þegar hljómsveitin spilar. Þrátt fyrir að flokkast undir raf- eða danstónlist þá framkallar lífleg sviðsframkoma sveitarinnar ótrúlega stemmningu. FM Belfast tekur sig nefnilega hæfilega alvarlega og virðist ekki síður vera umhugað að skemmta sjálfum en áhorfendum – og gleðin er smitandi.

FM Belfast – Underwear

Frá fyrsta lagi How To Make Friends ná FM Belfast hlustendum á sitt band og dæla út hverjum gleðigjafanum á eftir öðrum. Inn á milli frumsaminna laga leynast tvö tökulög, „Pump“ (Pump Up The Jam) og „Lotus“ (Killing In The Name Of), sem fá reyndar bæði allsvakalega andlitslyftingu og væru vart þekkjanleg ef ekki væri fyrir kunnuglega textana. Þó að þessi lög kveiki jafnan mesta stuðið á tónleikum verða þau þó að láta í minni pokann fyrir frumsömdu lögunum þar sem sveitin sýnir ótvíræða hæfileika sína til smellasmíðar.

Þeir sem fylgst hafa með bandinu ættu flestir að kannast við „Synthia“ og „Tropical“ sem hafa verið aðgengileg í nokkurn tíma á vefnum. Á How To Make Friends er nóg að öðrum smellvænum lögum, t.d. „Underwear“, „Par Avion“ og „Frequency“, svo nokkur séu nefnd. Lög FM Belfast eru kannski ekki flókin að uppbyggingu en einstaklega vel og sparlega stíluð. Laglínurnar fá því að njóta sín og hvert smáatriði skilar sér því öllu óþarfa skrauti og kunnuglegum stúdíóklisjum.

How To Make Friends er líklega ein besta partýplata sem komið hefur út á Íslandi og er nokkuð öruggt að íslensk danstónlist hefur aldrei hljómað jafn skemmtilega áður. FM Belfast tekst á plötunni að fanga stemmninguna og stuðið tónleikum sveitarinnar og ef einhver er í vafa – þá byrjar partýið hér…

FM Belfast – Frequency

  

FM Belfast spila á Tunglinu fimmtudag á miðnætti og á Nasa laugardagskvöld kl. 01.45  

1 Athugasemd

  1. siggasig · 21/11/2008

    Ah, sammála! Frábær plata – besta íslenska partýplatan síðan Forever!

Leave a Reply