• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

M83 – Saturdays = Youth

Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2008
Label: Mute

Hrífandi óður til níunda áratugarins. Besta plata M83 til þessa!

M83 - Saturdays = YouthM83 er listamannsnafn Anthony nokkurs Gonzalez og Anthony þessi er pervert. Ekki misskilja mig: hann er hvorki sado/maso pervert né bearnaise-sósu pervert. Hann er einn af þessum hljóðgervla öfuguggum sem eru eins og viljalaust verkfæri í tónlistarsköpun sinni án analog syntha. Saturdays = Youth er fimmta breiðskífa M83 en er á henni sleginn töluvert annar tónn en á fyrri plötunum. Sagt er skilið við þessa rokkskotnu raftónlist og ortur einskonar óður til popptónlistar níunda áratugarins – ferðalag um liðinn tíma.

Ferðalagið hefst strax í fyrsta lagi plötunnar, „You, Appearing“, þar sem þú ert sóttur á rúntinn af rólegri píanó ballöðru sem stigmagnast svo og keyrir þig beina leið inn í hljóðheim níunda áratugarins. Það margt kunnulegt á ferðinni þinni: í „Graveyard Girl“ er gítarlína sem gæti allteins verið ættuð frá „The Cure“, lagið „Up!“ hefði sæmt sér vel sem Cindy Lauper smáskífa og „Couleurs“ hefði án efa gert allt vitlaust í house-partíunum í New York. Þau „Kim & Jessie“ bjóða þér í heimsókn með sitt fullkomna, slípaða eitís-sánd, í lagasmíði sem minnir einhvernveginn á My Bloody Valentine, Brian Eno og Peter Gabriel á sama tíma – með hvíslandi söng Gonzalez undir. „Skin of the Night“ er svo grípandi lag þar sem vintage-trommuheilar og analog hljóðgervlar Gonzalez fara á stefnumót við Kate Bush og í „Midnight Souls Still Remain“, lokalagi plötunnar ert þú sendur inn í ljúfan draumaheim – 11 mínútna ambient-stykki a la Eno.

Vegna allra þessa mismundandi áhrifa sem M83 sækir í, þá hljómar platan við fyrstu hlustanir eins og sándtrakkið við The Breakfast Club 2. Lög sem fylgja hvort á eftir öðru samhengislaust. Aftur á móti nær Gonzalez að flétta þessum áhrifum saman með sínum sérstæða stíl: hvíslandi söngur, effekta-drekktur gítar, grípandi bassalínur, melódísk syntha-riff og þéttriðnir róbotta taktar. Platan vinnur mann því fljótt á sitt band, full af fegurð og angist, melódíum og nostalgíum, rólegheitum og æsingi. Eftir að hafa fínkembt plötuna nokkrum sinnum er ómögulegt að finna á henni veikan blett: lagasmíðarnar framúrskarandi og sándið einhvernveginn ‘ekta’. Þetta er hreinlega besta plata M83 til þessa!

Þó hafa eflaust sumir aðdáendur M83 fussað yfir plötunni, enda er hún að mestu leiti úr takt við það sem áður hefur heyrst frá kappanum. En það er núna í fyrsta sinn sem að hr. M83 sættir sig við hvar rætur hans í tónlistarsköpun liggja – hvert sándtrakkið var við unglingsár hans, við ástina og dramað. Hann er tilbúinn til þess að vefja sig utan um þá hallærislegu hluti sem níundi áratugurinn færði honum og brúka þá til góðs: hvort sem þeir valda nostalgískum kjánahrolli eða rísandi hárum af unaði, þá er markmiðinu náð. Platan er nefnilega ofboðslega heiðarleg þó svo að hún hljómi tilgerðarleg í fyrstu. Sagt er að unglingsárin séu sætustu ár lífsins og því kominn tími til að sættast við þau og búa til eitthvað úr þeim annað en tilvistarkreppu: í þetta skiptið undurfögur, melódísk mixtúra hrærð saman af alúð við rafpopp, skógláp, ambient og danstónlist. Undarlegt að níundi áratugurinn hafi fært okkur eina bestu plötu ársins 2008…

„Kim & Jessie“

3 Athugasemdir

 1. Hildur Maral · 26/10/2008

  Flottur dómur! Þarf að kynna mér þessa plötu betur, líkar mjög vel það sem ég hef heyrt. Við fyrstu hlustun minnir þetta mig á einhverskonar samblöndu af Mew og Bang Gang ásamt því sem þú minntist á, ágætis kokteill…

 2. Hildur Maral · 04/11/2008

  Búin að hlusta betur og þetta er klárlega ein af betri plötum ársins.

  Minnir mann líka svolítið á Cure, þá helst plötuna Disintegration.

 3. siggasig · 21/11/2008

  Æ, ágæt plata en er hún ekki pínu ofmetin?

Leave a Reply