• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Celestine – This Home Will Be Our Grave

 • Birt: 29/10/2008
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 2

Einkunn: 3
Utgafuar: 2008
Label: Milkweed/Sound Devastation

Þung en svöl

Celestine - This Home Will Be Our GraveCelestine virðist stefna í að verða allsherjar kamelljónsband, því það virðist alltaf vera skipt rækilega um gír þegar farið er í að semja nýtt efni. Auk þess að taka stökk inn í post-metalinn við gerð At the Borders of Arcadia (smáskífunnar sem áður var birtur dómur um) var tekin ný stefna á This Home Will Be Our Grave, og skv. viðtali við Celestine úr vefsjónvarpi Moggans í haust verður tekin enn ein ný stefna á komandi plötu þessarar mjög svo duglegu hljómsveitar.

This Home Will Be Our Grave breytir töluvert um stefnu frá síðustu plötu og er svo til algjörlega laus við post-metalinn sem fyrirfannst á henni. Það er oft inni á milli eitthvert stuð eða grúv í gítarlínunum og jafnvel ekki laust við að maður heyri einhver stóneráhrif, auk þess sem manni gæti stundum dottið í hug orðið pungarokk, án þess þó að þessi plata fari út í einhverja hallærislega stæla. Alvarleikinn er ennþá til staðar, en er hvergi nærri jafn örvæntingarfullur eða tilfinningaþrunginn og á At the Borders of Arcadia. Þessi plata skorar ekki mörg stig fyrir angurværð en er hinsvegar engan veginn jafn ljót (ekki illa meint) og laus við tónfræði og fyrri platan.

Það verður að segjast að þessi plata slær At the Borders of Arcadia ekki við enda erfitt verk það. Mér finnst það sniðugt hjá drengjunum að taka þess vegna nýja stefnu en ég held að það hafi ekki verið til að vera endilega ferskir á því heldur af því þá hafi einfaldlega frekar langað að fara að spila svona tónlist, örlítið hraðari, hressari og grúvaðri. At the Borders.. tæklar ákveðnar tilfinningar á gríðarlega öfgafullan hátt, að sama skapi tæklar This Home.. allt aðrar tilfinningar, svona oftast. Það er ennþá reiði og ákveðni en menn virðast ekki lengur fullir örvæntingar og heimshryggðar.

Það eru ákveðnir gallar á plötunni sem felast í útsetningu og uppbyggingu ákveðinna laga. Þannig mætti „Les Autres“ til dæmis vera styttra eða öðruvísi útsett enda hljómar það mestmegnis eins og sömu kaflarnir aftur og aftur. Hinsvegar inniheldur lagið ágætis niðurbrot og uppbyggingu í lokin. „Coroner“ er gott lag að mestu leyti en mætti vera mun styttra. Það mætti klippa svona eins og allavega síðustu mínútuna af þessu sjö mínútna lagi. Það er hnitmiðað framan af en í lokin brotnar það niður, missir allan damp og endar á einhverju sem ég myndi einfaldlega kalla sull. Þessir ágallar á þessum tveimur lögum draga talsvert úr annars ágætri upplifun og spilla fyrir flæði plötunnar við hlustun. Hið drungalega og rafræna „This Grave Will Be Our Home“ er lag sem passar ekki alveg við restina af plötunni en er engu að síður áhugaverður útúrdúr. Ég sé hinsvegar ekki fyrir mér að Celestine leggi frá sér gítarana á heilli plötu að hætti Radiohead og haldi á svo róttækar nýjar slóðir. Einna best er svo lagið „She is Queen“ sem hefst á spastískum nótum og er þungt og umbrotasamt framan af. Það endar hinsvegar á allt að því epískum nótum og er endirinn einn af hápunktum plötunnar. Það fer því vel á því að platan endi á því lagi.

Það sem endurspeglast fyrst og fremst á þessari plötu sýnist mér vera það að meðlimir Celestine hafi síst af öllu viljað gleyma sér í að vera alvarlegir og þá hafi einfaldlega langað að spila gott rokk og ról. Það er það sem þessi plata er á sinn sérstaka hátt. Það er líka kominn meiri harðkjarni í tónlistina sem er ennþá níðþung þrátt fyrir að vera léttari í skapinu en síðasta skífa, ef svo mætti segja.

This Home Will Be Our Grave er ekki frábær plata en hún er ágæt. Hún líður þó fyrir það að hvorki hljómgæði né lagasmíðar jafnast á við fyrstu plötu Celestine. Hún stendur örlítið í skugganum af þeirri plötu sem verður erfitt að toppa. Það getur verið erfitt fyrir hljómsveit að hafa gert svo góða plötu svo snemma á ferlinum en miðað við viðhorfið hjá Celestine er alveg eins von á að annað svoleiðis stykki detti inn fyrr eða síðar. Menn eru einfaldlega það opnir fyrir nýjungum.

2 Athugasemdir

 1. Þórir · 22/12/2008

  Flottur dómur. En mér finnst þessi plata einmitt töluvert ljótari og grófari en fyrri plata þeirra (og einnig mun betri).

  En svona eru eyru manna misjöfn.

 2. Árni · 30/12/2008

  Hressleiki, grúv og “léttari í skapinu” eru orð sem ég myndi seint (lesist sem aldrei) nota til að lýsa Celestine -hvað þá þessari plötu.
  Þetta er hugsanlega ein harðasta plata sem gefin hefur verið út á Íslandi, fyrr og síðar. Að hlusta á þetta er eins og að nudda andlitið á sér með sandpappír.
  En svo ég taki undir með “Þóri” hérna að ofan: Misjöfn eru eyru manna.

  Og já eitt í viðbót. Mér finnst soundið á þessi plötu geðveikt!

Leave a Reply