Merzedes Club – I Wanna Touch You

Einkunn: 1
Utgafuar: 2008
Label: Cod Music

Appelsínugult og ómerkilegt

Merzedes Club - I Wanna Touch YouÞað væri lítið mál að eyða löngu máli í umræðu um kosti og galla hnakkastefnunnar í íslenskri menningu enda líklega eitt furðulegasta fyrirbrigði hér á landi undanfarin ár. Hljómsveitin Merzedes Club [sic] má líta á sem einskonar erkiímynd hnakkans. Sveitin gengur reyndar svo langt í að vera hnakkar að hún verður í raun paródía af hnökkum – maður gæti jafnvel velt fyrir sér hvort Gilzenegger sé póstmódernisti?

En já, þetta er víst plötudómur en ekki menningarfræðileg stúdía á hnökkum. Platan I Wanna Touch You kom út nú í sumar og fylgir hinum ofur-vinsæla evróvision smelli sveitarinnar „Ho Ho Ho We Say Hey Hey Hey“ sem festist í huga flestra Íslendinga fyrir um ári en tapaði í keppninni í vor fyrir einhverju öðru framlagi sem allir eru víst búnir að gleyma í dag. Barði Jóhannsson semur öll lög skífunnar og læðist sá grunur að manni að hann sé nettur hnakki inn við hjartað þó að hann þráist við að halda all ólíkri ímynd út á við. Þeir sem heyrt hafa „Ho Ho Ho“ gætu líklega gert sér í hugarlund hvernig afgangurinn af plötunni hljómar en Barði fylgir fast þeirri europopp formúlu sem kom ævintýrinu af stað.

Formúlur eru ekki endilega slæmar. Fyrir um ári kom út mjög vel heppnuð plata Páls Óskar sem fylgdi nákvæmum formúlum diskós og europopps og sýndi hann að hægt væri með lagni að notfæra sér klisjurnar á skemmtilegan hátt sem gladdi bæði lýðinn og lærða. Það er töluvert meiri fljótfærnisbragur á I Wanna Touch You sem skýrist líklega á að aðstandendur sveitarinnar vildu hamra járnið meðan það var heitast (og voru kannski samt hálfu ári of seinir með skífuna?). Lagasmíðarnar jaðra sumar við það að vera óþægilega klisjulegar og þrátt fyrir það eru ekki nema örfá lög sem eru nægilega grípandi til að vera vinsældarvæn.

Hið margumtalaða „Ho“ lag er jú hið fínasta heilalím og þó að það þreytist fljótt er engin vafi á að það er sniðug lagasmíð og á vafalaust eftir að ganga í endurnýjun lífdaga eftir hálfan annan áratug (svona líkt og örlí-90‘s ravelög nú í dag). Af öðrum lögum er „Dance Tonight“ skást með nokkuð fínum krókum þó ekki sé það ýkja eftirminnilegt. Restin er því miður fyrir neðan flestar hellur og nokkur lög ná jafnvel þeim merka árangri að framkalla klígju og óþægindi hjá hlustendum. Sum lögin eru svo hreinlega bara vond og bjóst ég satt að segja við fagmannlegri vinnu hjá Barða, enda hefur hann yfirleitt sýnt betri hliðar á hæfileikum sínum en hér.

Svo er það hljómsveitin… það er eiginlega ómögulegt að sjá út hvert framlag „hljómsveitarmeðlima“ til plötunnar er. Það heyrist reyndar í söngkonunni Rakel í lögunum og Ceres4  hrópar hér þar í c.a. öðru hvoru lagi. Aðrir meðlimir eru fjarri nema þeir prýða umslagið berir að ofan, vöðvastæltir og appelsínugulir (fyrirgefiðið – ég meina „sólbrúnir“). En það skiptir víst litlu máli í þessu samhengi því hæfileikar eru jú munaður sem ekki er öllum gefinn. Þrautseigja og eljusemi í ræktinni og á ljósabekkjastofum er það sem blífur í hnakkasamfélaginu.

Flestir töldu Merzedes Club vera grínatriði þegar sveitin kom fram í Evróvision fyrir um ári en meðlimir reyndu hvað sem þeir gátu að halda feisi og lýsa því yfir að þeim væri full alvara með þessum tónlistartilburðum. Hljómplatan I Wanna Touch You festir mann þó enn frekar í trúnni að þetta sé allt einn allsherjar djókur enda trúir varla nokkur að einhverjum sé alvara að baki þessu. Þeir sem hafa húmór fyrir dæminu geta þó glaðst yfir því að platan verður væntanlega komin í 99 króna fötuna í plötubúðum í janúar.

Merzedes Club – Ho Ho Ho We Say Hey Hey Hey

One response to “Merzedes Club – I Wanna Touch You”

  1. Sævar Atli Sævarsson says:

    Langt síðan maður hefur séð ásinn.

    Verðskulduð einkunn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.