Andrúm – Andvakar

Einkunn: 2.5
Utgafuar: 2008
Label: Andrúm

Fá andköf yfir Andrúm

Andrúm - AndvakarLítt kunn landsmönnum gaf hljómsveitin Andrúm út sína fyrstu plötu fyrr á þessu ári. Þó hafði hún gefð út litla EP-plötu fyrr sem lítið bar á.
Sveitin, skipuð fjórum drengjum og einni stúlku, ákvað að nefna frumburð sinn Andvakar.
Frumburð sem inniheldur sex lög sem öll rúlla í gegn án andartaks af þögn.

Í upphafi virðist Andvakar ekki bera á meiru en tilraunum. Tilraunum sem ganga engan veginn upp að mínu mati og kveikja innra með mér vantraust til áframhaldsins.
Þannig er upphafslag Andvakar, sem samnefnt er plötunni, til að byrja með allt of langt og langdregið og kaflaskiptingar engan veginn framkvæmdar að hlustandi vakni til lífsins, fái gæsahúð eða yljar að innan. Söngkona sveitarinnar, Jóna Palla, raular og hummar undir ábótavönu proggi sveitarinnar.

Örlítið lyftist platan upp í öðru lagi, Nozinan. Taktar eru þar keyrðir ögn hraðar og textar gengnir til liðs við tónlistina. Gítar er afar einfaldur en fallegt orgel ómar fyrir aftan einfaldan spilandann sem Jóna Palla breiðir yfir fallegan söng og íslenskum texta. Laglínan er þó ekki eins sérstæð og maður hefði haldið vegna einfaldleika lagsins sjálfs en þó gengur lagið vel upp með ágætis keim af sýru á síðustu metrunum sem svo keyrir aftur inn í einfaldleikann áður en lagi lýkur.

Report er þristur plötunnar en hér er sungið á ensku. Suðurríkjakennt og mun rokkaðara en fyrri lög plötunnar, sýnir sveitin á sér ferska hlið. Þó textar séu oft á tíðum afar klisjukenndir er uppbyggingin ágæt og viðlagið grípandi.

Hugurinn Reikar er ágætis nafn yfir lagið sem lét mig minnast meistara Sigur Rós. Upphafstef lagsins er í raun allt of líkt upphafi lagsins Ágætis Byrun til að hægt sé að njóta þess sem frumlegs og áhugasömu efni frá nýrri sveit. Þó gítarlínur séu auðvitað ekki þær sömu og hjá Sigur Rós er uppbyggingin og smíðar of líkar til að lagið festist við. Einnig má nefna að píanóleikurinn minnir sömuleiðis (í þessu samhengi tónlistarinnar) á lag af sömu plötu Sigur Rósar. Hljóma Andrúm hér líkt og Sigur Rós fyrir rúmum áratug, með fínni söngkonu. Textar lagsins eru þó ágætir. Þau mega eiga það.

Eftir flashback til ársins 1999 heldur platan áfram með laginu Pictures. Enskan er hér aftur notuð til textagerðar en þar sem textarnir voru ágætir á móðurmálinu hefði sveitin þess vegna getað haldið sig við íslenskuna á plötunni því lítið stendur eftir af textagerð ensku parta plötunnar. Fimmta lagið er þó ágætt og keyrt er örugglega í gegn með blúsuðum gítar og tregakenndum söng. Gengur ágætlega upp með fínum gítareinleik fyrir því miðju en lagið er rúmar tíu mínútur.

Rólega keyrist síðasta lag plötunnar Móab upp í ágætis blúsrokk sem líður út í hálf vandræðalega stund af bassatrommu-sneril-leik og bassaleik sem lekur út í sýru þegar lítið er eftir af laginu. Rennir svo sveitin í einfalt rokk-riff og andar frá sér þessari fyrstu plötu sinni.

Ég veit ekki hversu mikið er hægt að mæla með þessari plötu. Fyrir hvern og af hverju? Án efa væri þó ágætis skemmtun að sjá þessa ágætis sveit á ágætis sviði. Hingað til hefur hún þó ekki heillað en þeir sem þó vilja prófa, skoða og meta sjálfir ættu að kynna sér Andrúm. Ný og fersk sveit sem jú, leitar mjög í annarra rætur. á kannski eitthvað fyrir ákveðinn hóp hér á landi sem aðrir eiga ekki.

Tilvalin jólagjöf fyrir unglinginn sem er að skoða proggrokkið og leika sér með hljóðfæri í skjóli stofunnar heima á sér.

Einnig vil ég hrósa hljómsveitinni í hástert fyrir albúm plötunnar en myndin sem kápuna ber gefur mjög góða innsýn inn í þessa tegund tónlistar. Fínnar tónlistar sem hentar þó engan veginn öllum.

16 responses to “Andrúm – Andvakar”

 1. Það getur talið óvenjulegt og jafnvel einsdæmi það að listarmenn svari dómum um listaverk sín. Í þessu tilfelli hef ég þó ákveðið að hafa þann hátt á og munu eflaust margir meina að ég ætti heldur að þegja.

  Í eftirfarandi greinargerð ætla ég að gera grein fyrir minni skoðun á þessari gagnrýni hér að ofan og ber mér að taka fram að skrif mín eru algjörlega á minni ábyrgð og endurspegla aðeins mína skoðun þó margir deili henni eflaust með mér.

  “Í upphafi virðist Andvakar ekki bera á meiru en tilraunum. Tilraunum sem ganga engan veginn upp að mínu mati og kveikja innra með mér vantraust til áframhaldsins.”

  Skoðun: Listamenn gefa ekki út tilraunir, þeir gera hinsvegar miklar tilraunir áður en verk eru fullmótuð. Oft á tíðum er góð ástæða fyrir þeim ákvörðunum sem listamaðurinn tekur við gerð verksins og hafa þau fengið hlutverk og tilgang. Hver þessi tilgangur er, er eitthvað sem gagnrýnandi getur velt fyrir sér þó hann komist líklega seint að því hvað liggur á bakvið ákvörðun listamannsins.

  “..upphafslag Andvakar…er til að byrja með allt of langt og langdregið og kaflaskiptingar engan veginn framkvæmdar að hlustandi vakni til lífsins, fái gæsahúð eða yljar að innan.”

 2. koðun: Það var ætlunin að lagið væri langt og Daníel má finnast það langdregið. En það er ekki hlutverk hans að tjá sig um það hvernig honum fyndist að lagið ætti að vera. Listamanninum finnst að lagið ætti að vera svona, Daníel á frekar að velta því fyrir sér afhverju ákveður listamaðurinn að hafa það svona? Hvaða tilgangi þjónar það? Nær listamaðurinn þeim tilgangi.
  Eins og ég sagði áðan þá finnur gagnrýnandi líklega ekki réttu svörin við þessum spurningum, aðeins sín eigin. Stundum liggja hlutirnir samt í augum uppi. Sprengjuhöllin gerir 3 – 4 minútna popplög, tilgangur: gripandi, söluvænt, skemmtilegt 🙂 (Ég er að kaupa þetta sprengjuhallar-dæmi btw.)
  Ef fólk vill vakna, fá gæsahúð eða hjartahlýju þá mæli ég frekar með vekjaraklukku, standa berfætt/ur úti í frostinu eða ehhh… finna ástina í lífinu.

  Hugurinn Reikar

  “Upphafsstef lagsins er í raun allt of líkt upphafi lagsins Ágætis Byrjun til að hægt sé að njóta þess sem frumlegs og áhugasömu efni frá nýrri sveit.”

  Skoðun: Það að lag sé líkt öðru lagi og það geri tiltekið lag verra fyrir vikið er tóm vitleysa. Fyrir mörgum er allt pönk, kántrí og blús alveg eins, hingað til hef ég aldrei lesið gagnrýni sem segir: “þetta sökkar! ég hef heyrt þennan blús gang áður.”
  Það er ekki tilgangur tónlistarmanna að finna upp hjólið aftur og aftur, menn skapa sitt eigið sánd en vestræn tónlist hefur ennþá bara sömu 12 tónana að velja á milli.
  Það er samt gaman að segja frá því að við gerðum okkur vel grein fyrir því að gítarinn í Ágætis Byrjun og Hugurinn Reikar væru keimlíkir, annar sannleikur er sá að þessi gítar er raunar stolinn úr laginu Hero of The Day með Metallica.

 3. Drull, kaldhæðni og neikvæðni

  “Ég veit ekki hversu mikið er hægt að mæla með þessari plötu. Fyrir hvern og af hverju?”

  “…tónlistar sem hentar þó engan veginn öllum”

  Skoðun: Þetta kallast neikvæðni, því tónlist mun aldrei henta öllum og það var aldrei tilgangurinn með þessari plötu að hún hentaði öllum.

  Hvernig eiga gagnrýnendur að starfa (skoðun):
  – Greina ætti á milli umfjöllunar og gagnrýni, gott er að skrifa fyrst umfjöllun um plötu og draga síðan saman að lokum með eigin gagnrýni og skoðunum.
  – Ef gagnrýnandi feel-ar ekki tónlistina ætti hann annaðhvort að sleppa því að gagnrýna eða læra að fjalla um hana án þess láta skoðun sína á tiltekinni tónlistarstefnu draga plötuna niður.
  – Hér með alhæfi ég að eitt listaverk getur ekki gert annað listaverk verra, þau eru ekki til samanburðar. Ég hef aldrei skilið það þegar ákveðin plata með tónlistarmanni er léleg vegna þess að fyrri platan hans var svo miklu betri.
  – “Það er alltaf hægt að gera betur, þess vegna á engin plata skilið 5 stjörnur.” … þessum hugsunarhætti þyrfti að breyta, ef hann er til staðar.
  – Eflaust margt fleira.

 4. Að lokum.
  Ég er ekki fúll vegna þess að platan fékk aðeins 2.5 stjörnur. Það sem ég vildi segja er að dómurinn hefði átt að vera málefnalegri. Það er ábyrgðarhlutur að vera gagnrýnandi, að sjálfsögðu eru til plötur sem fá 1 stjörnu, Andvakar verður kannski ein af þeim, en á bak við 1 stjörnu þarf að liggja góð rök. sömuleiðis 5.
  Ég hef það á tilfinningunni að það sé aðeins tímaspursmál hvenær ég fer sjálfur að gagnrýna 🙂

  Vill bæta við
  Andrúm er ekki progressive tónlist þó gagnrýnandi vilji meina það.
  Ég hvet fólk til að hlusta á tónlistina á myspace síðu Andrúm (www.myspace.com/andrummusic).

  – Takk fyrir mig.

  – Birkir Brynjarsson (gítarleikari í hljómsveitinni Andrúm)

 5. Egill says:

  Takk fyrir þetta Birkir. Þetta er mjög góð greinagerð hjá þér og á fullan rétt á sér. Ég hef sjálfur ekki hlustað nógu mikið á plötuna ykkar til að geta tjáð mig almennilega um málið en get engu að síður tekið undir margt af því sem þú segir. Gagnrýni ætti ekki að vera persónuleg skoðun heldur uppbyggjandi og/eða hlutlaus umfjöllun um ákveðið viðfangsefni. Reyndar segir það sig sjálft: gagnrýni = að rýna til gagns.

  Þess má svo geta að við hér á Rjómanum tækjum þér fagnandi hefðir þú hug á að gerast tónlistarrýnir 🙂

 6. Gunnar says:

  Hef nú hlustað á plötuna og finnst þetta engan vegin góð gagnrýni, minnir að þessi plata fékk 5 stjörnur í mogganum

 7. Daníel Guðmundur Hjálmtýsson says:

  Sjaldan hef ég áður tekið eftir slíkri greinagerð eftir plötugagnrýni og sérstaklega það frá meðlimi tilteknar sveitar sem við á.
  Hins vegar finnst mér mikilvægt að allir fái að koma sínum eigin skoðunum á framfæri, þessi athugasemdardálkur er jú til þess eins að utanaðkomandi aðilar og þess vegna hljómsveitarmeðlimir fái að tjá sig sömuleiðis um verkið sem tekið er fyrir hverju sinni.

  Þó tel ég mig ekki knúinn til að afsaka dóminn að neinu ráði. Gagnrýni mín er gagnrýni eins manns og eins og platan hreif mig, er alls ekki víst að hún hrífi næsta mann á sama hátt.
  Varðandi Morgunblaðs-íunina vil ég bara segja eitt; Rjóminn.is er ekki Morgunblaðið og af engum ástæðum finnst mér ég knúinn til að vera sammála gagnrýnendum Morgunblaðsins. Svo það sé á hreinu.

  Birkir; Til hamingju með þessa plötu. Henni vegnar vel. Þó svo að einum finnist eitt, þá finnst oft fleirum annað. Taktu það til ígrundunar. Gagnrýni mín, þessi eða önnur, hefur aldrei lagst á það plan að vera persónuleg árás og mun hún aldrei gera slíkt. Mér fannst þessi plata ekki vera meira en 50/50 og þannig verður það að standa.

  Annað: Hvað varðar ummæli forsvarenda hér að þá er ég ringlaður en auðvitað er alltaf pláss fyrir öflugt fólk hér. Það efast ég ekki um.

  Birkir; Eigðu góða helgi og megi hljómsveitin þín dafna vel og eiga bjarta framtíð.

  Með þessu tel ég mig hafa komið nokkrum af mínum skoðunum um þetta mál á framfæri en ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni.

  -Takk

 8. Það er alveg hreint sjálfsagt að gagnrýnendur hafi eigin skoðun og styðjist við hana í skrifum sínum. Það verða aldrei allir sammála um ágæti mismunandi tónlistar. Það sem ég vildi samt fyrst og fremst koma á framfæri með minni greinargerð var að gagnrýni má ekki einvurðungis litast af persónlegri skoðun gagnrýnenda heldur einnig málefnalegri umfjöllun.

  það er réttmæt krafa lesandans að hann sé einhverju nær um það hvernig tónlist er að finna á plötunni eftir lesturinn.

  Tek það fram að þessi grein mín var ekki persónuleg árás á þig Daníel, mínar skoðanir þurfa ekki að vera þínar. Ég vildi bara koma þeim á framfæri og vona bara að sem flestir velti þeim fyrir sér.

 9. Einar A says:

  Gagnrýni á gagnrýnina:

  Gagnrýnandinn Daníel Guðmundur Hjálmtýsson veldur því miður enganveginn því skrúðuga orðfæri er hann reynir að beita.

  Af þeim sökum fer flest sem hann segir þar fyrir ofan garð og neðan.

  Þú myndir ekki reyna smíða kofa með hamri sem þú loftaðir ekki.

 10. Þórir says:

  Ég hef ekki enþá hlustað á þessa plötu sjálfur og ætla því ekkert að koma inná dóminn um hana eða dóminn um dóminn en aftur á móti verð ég að segja að staðhæfingunni “Gagnrýni ætti ekki að vera persónuleg skoðun heldur uppbyggjandi og/eða hlutlaus umfjöllun um ákveðið viðfangsefni.” gæti ég ekki verið meira ósammála.

  Auðvitað hlýtur gagnrýni á list að vera persónuleg skoðun þar sem að áhrif listarinnar eru alltaf persónuleg og í rauninni ekki hægt að meta hvort að list sé “góð” heldur bara hvernig maður upplyfir hana sjálfur.

  Ef að menn færu eftir þessari staðhæfingu væri niðurstaðan alltaf sú sama.. prog-rokk og jazz gæfu frá sér bestu plötur í heiminum og allt annað væri verra/lélegt…

  Eða það finnst mér allavegana.

 11. Eiríkur says:

  Eitt verð ég að segja, ef menn hafa ekki hlustað á tiltekna plötu, hvað er viðkomandi að tjá sig um málið? Einnig það, að meðlimur hljómsveitarinnar sé að “afsaka” eða reyna að “verja” gagnrínina á frumburði sínum með kommentum undir umræddri gagnríni þykir mér einkar sorglegt. Í góðu lagi að velta fyrir sér útaf fyrir sig og meðlima bandins rök og mögulega ástæðu ríninar, en að skrifa um það sem eitthvað væl er alveg út úr kortinu, OG að ritstjóri blaðsins (Egill) sé að taka undir skrif frá hljómsveitarmeðlimi og BJÓÐA HONUM RITSTÖRF??!!! HALLÓ!! Er ekki allt í lagi með fólk??? Er þetta land og lítið fyrir gagnríni?? Eru menn of viðkvæmir fyir dómum á plötur sínar?? Er ritstjórinn það mikil gunga að styðja við bak sinna starfsmanna??? Veit ég um margar hljómsveitir sem hafa fengið misgóða dóma fyrir plötur og jafnvel svarta dóma á móti hvítum annarsstaðar og ekki eru þeir að væla í blöðum eða á netinu… Dómurinn eða gagnrínin er fallin og so be it!!!!
  Hinsvegar eiga allir tónlistarmenn skilið að fá klapp á bakið og vil ég óska meðlimum Andrúm til hamingju með gripinn, hér ætla ég ekki að leggja minn dóm á plötuna þar sem þetta er of viðkvæmt málefni.
  Takk fyrir

 12. Egill says:

  Takk Eiki minn fyrir að básúna þessu yfir okkur. Það er athyglisvert að þú sjáir þér fært að gagnrýna alla aðila sem að málinu koma en ekki plötuna sem um ræðir vegna þess að það sé of viðkvæmt. Það finnst mér undarlegt af þinni hálfu.

  Aðgát skal höfð í nærveru sálar, eða svo var mér kennt, en þú ert greinilega ekki það viðkvæmur að slíkt sé að trufla þig í skoðunum þínum á okkur sem málið varðar. Að þú skulir geta uppnefnt fólk fyrir að þora að gagnrýna og segja skoðun sína en vilja svo sjálfur ekki taka afstöðu til plötunnar sem um ræðir fær mig til að halda að þú sért, í besta falli, gunga sjálfur.

  Vertu sæll.

 13. Eiríkur says:

  Ég gagnrýni ekki plötu sem ég hef ekki hlustað á.. Ef ég gerði það þá væri ég ekki marktækur. Ég er engin gunga og ef ég hef sært einhvern í mínum skrifum þá biðst ég afsökunar á því. Mér er bara óskiljanlegt hvernig ritstjóri getur í sinni stöðu, ekki séð sér fært um að verja sitt starfsfólk. Mér er lítið mál hinsvegar að hlusta á þessa plötu og koma með dóm á hana hér ef þess er óskað.

 14. Egill says:

  Ég sé ekki að ég þurfi að verja Daníel sem svarar skilmerkilega fyrir sig og stendur algerlega undir sinni gagnrýni. Upphaflegt svar mitt á heldur ekki að skilja sem svo að ég taki afstöðu með eða gegn einhverjum. Þar er ég að tala almennt og á góðlátlegum nótum.

 15. Sæll Eiki

  Ég er vissulega allt of hlutdrægur í skrifum mínum þar sem ég er að gagnrýna gagnrýninina, og er það líklega óviðeigandi að ég sé að reyna að réttlæti eitthvað á plötunni.

  Hinsvegar var ég í megin atriðum að reyna að benda á það að gagnrýnendur sem leggja metnað í vinnuna sína ættu að vera samkvæmir sjálfum sér og sýna samræmi í skrifum sínum (Persónulega finnst mér að menn ættu að búa sér til einhverskonar CODE til að miða við).

  Umfjöllunin ætti að snúast um innihald plötunnar svo lesandinn sé einhvers vissari um tónlistina… Útsetningar, hljóðfæranotkun, sánd, textar og þar fram eftir götunum.

  Mér er slétt sama þó að gagnrýnandinn feel-i ekki plötuna og gefi henni lélegan dóm, vil bara benda á að umfjöllunin ætti ekki að vera lituð af þeirri skoðun.

  Það hefði líklega verið réttara að ég kæmi þessari skoðun minni á framfæri í gagnrýni á einhverri plötu sem ég tengist ekki sjálfur.

  …Ég er eiginlega bara að skæla yfir því að hafa verið kallaður sorglegur. Hlæilegur kannski en plíís ekki sorglegur!

 16. ,,Það er eins og maður finni stundum fyrir því að gagnrýnendur tilheyri ekki markhópi viðkomandi listamans. Að þeir séu að meta músikina út frá vitlausum forsendum, eins og þeir séu að óska þess að hún sé eitthvað annað en hún er.”
  ,,Mér finnst stundum eins og þetta sé vettvangur fyrir einhverja ,,besservissera” til þess að skjóta.”
  – Eyþór Gunnarsson 2008:38

  Fréttablaðið 23. desember 2008

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.