• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Ultra Mega Technobandið Stefán – Circus

Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2008
Label: Tuddi

Teknópönkararnir hemja sig en skila þó ótrúlegri orku til áheyrenda

Ultra Mega Technobandið Stefán - CircusÞegar Ultra Mega Technobandið Stefán stígur á svið og hefur tónleika leysist ótrúlegur kraftur úr læðingi og á milli hljómsveitar og áheyrenda myndast spenna – já, og stuð! Frumburður UMTBS hefur verið lengi á leiðinni og voru margir efins um að sveitin gæti náð að fanga „rétta“ stemningu í plastform.

Sveitin er jú mun hrárri og kraftmeiri á tónleikum en á Circus og saknar maður þess að hafa ekki aðeins meira rokk og brjálæði. Á móti notar UMTBS tækifærið til þess að bæta ýmsum smáatriðum við lögin sem minna fer fyrir á tónleikum. Lögin eru þó einföld í grunninn – pönkað teknó þar sem áherslan er á ótrúlega grípandi laglínur. Þessi formúla virkar jafnvel á plasti og á tónleikum og sannfærir áheyrendur um að það sé meira spunnið í drengina en óbeisluð gredda.

Ultra Mega Technobandið Stefán –  Story of a Star

UMTBS hefur safnað sér ágætu safni af grípandi lögur þar sem „Story of a Star“, „Cockpitter“ og „3D Love“ standa upp úr og mörg önnur eru vel stuðvæn. Nokkur lög eru þó á grensunni hvað varðar gæði en ef ekki væri fyrir nokkuð hresst synthasóló í „Must Move Me“ myndi ég líklega skippa yfir lagið við hverja hlustun. Textarnir eru svo sér á báti en furðulegri textasmíði er vandfundari, þeir eru þó ómissandi hluti af lögunum og hvet ég fólk til að lesa textablað plötunnar sér til skemmtunar.

Helsti galli plötunnar er umgjörð hennar – en af einhverri ástæðu þá ákvað sveitina að umlykja lögin hálf asnalegu sirkús þema. Hluti af því er hrikalega ljótt umslagið sem ómögulegt er að finna nokkuð jákvætt við (því miður). Verra eru þó sirkúslegir kaflar sem heyrast í byrjun, um  miðbik og í enda plötunnar. Þeir eru ekki bara hrikalega hallærislegir heldur algjörlega úr takt við tónlist sveitarinnar. Maður hristir eiginlega hausinn yfir því afhverju einhver nákominn sveitinni benti þeim ekki á að vænlegra væri að sleppa þessu þema algjörlega – því það dregur plötuna því miður niður.

Þegar á heildina er litið mætti ýmislegt hafa verið betur gert á Circus en Ultra Mega Technobandið Stefán stendur þó vel fyrir sínu. Fáar sveitir hafa yfir jafnmikilli orku að búa og hún skilar sér óbeisluð til áheyrenda. Circus kemur flestum í gott skap (nema kannski helstu fýlupúkum) og eykur sjálfkrafa orku áheyrenda. Hún virkar því einstaklega vel í partýum og í ræktinni – en gleður líka undir öðrum kringumstæðum. Ég myndi samt sleppa því að hlusta á hana rétt fyrir svefninn, hætta er á að maður sleppi fram af sér beislinu og fari að gera eitthvað allt annað.

Ultra Mega Technobandið Stefán –  3D Love

Leave a Reply