• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

TV on the Radio – Dear Science

Einkunn: 4
Utgafuar: 2008
Label: 4AD/Interscope

Ekki gallalaus – en það sem er gott, er MJÖG gott!

TV on the Radio - Dear ScienceFyrir rúmum tveimur árum vakti platan Return to Cookie Mountain mikla lukku hjá áhugafólki um frumlega rokkmúsík. Í kringum gerð plötunnar var söfnuður fimm gjörólíkra einstaklinga með mismunandi bakgrunn í tónlist og í oflæti sínu skelltu meðlimir saman stefnum og straumum í harkalegan árekstur. Kölluðu sig svo rokkband og komust upp með allt saman! Dear Science er þriðja breiðskífa TVOTR sem fyllir mann efasemdum um þetta rokk-brennimerki sem hljómsveitin ber.

Á fyrstu plötu sveitarinnar, Desperate Youth, Blood Thirsty Babes, einkenndist hljómurinn mjög af síendurteknum takt-lúppum kæfðum í fuzzy rafgítar og svo var einhver annarleg acapella stemningu á köflum. Fyrsta lag plötunnar, “Halfway Home”, er trú þeim resept. Bætum þó við soul-söng Adebimpe og Malone, drynjandi elektrónískum töktum, lófaklöppum og þéttu rokk aksjóni. Mjög hressandi upphaf!

En síðan er slökkt á overdrive-pedalanum og nokkur varfærnisleg skref tekinn nær popptónlist. Það er daðrað við hip-hop, fönk, nýbylgjurokk og danstónlist og ofan á það eru svo breidd lög af brassi, strengjum, hljóðgervlum og raddpælingum. “Stork and Owl” er dæmi um lag sem grípur þessi element þéttum tökum: raddirnar látnar fylgja syntha-stefi á skemmtilegan máta, bítið er flott og grípandi og strengirnir gefa svo fremur einfaldri lagasmíðinni dýpt. “Crying” er annað lag sem vert er að minnast á: semi-fönkaður rafbræðingur þar sem brassið mætir í partí og Adebimpe syngur grípandi söngmelódíuna á sinn yndislega hátt. Textinn er líka andskoti góður! (og reyndar eru textarnir flestir mjög metnaðarfullir.)

TVOTR kunna þó fleira en að rokka og dansa til að gleyma. Þeir hafa vald á því að semja gullfalleg lög, sem dæmi má nefna “Tonight” af Cookie Mountain. “Love Dog” er sorgarvísa sungin við virkilega flott bít, Rhodes-píanó og strengi – hittir beint í mark! “Family Tree” er svo hreinræktuð ballaðra: fallegt píanóstef tekið i gegnum delay, hálfvæmnar beiskt/sætar strengja útsetningar og sárþjáð rödd Adebimpe túlkar texta um forboðnar ástir. Og undir lok lags lauma þeir svo inn látlausum takti sem rekur smiðshöggið á snilldina! Bræðir stálhjörtu eins og smjör . . .

En platan er alls ekki gallalaus. Í dag væri nærtækast að sækja myndmálið í kreppuna: það vantar samstöðu í lagahópinn. Óreiðukennt er þotið úr einu í annað og hljómur laganna er svo ólíkur að hlustendur verða kolringlaðir í höfðinu. Kannski væri bara nóg að breyta uppröðun laganna, byrja hátt og enda lágt – já, eða bara öfugt! Nokkur lögin er heldur ekkert til að hrópa húrra! fyrir: “Red Dress” og “Golden Age” væri helst að nefna, frekar ódýrir en dansvænir popparar sem falla ekki inn í þennan fyrrnefnda laga-hóp.

Ég las viðtal við Adebimpe fyrir stuttu þar sem hann sagðist hafa reykt um 300 grömm af grasi á mánuði við gerð síðustu plötu en á þessari hafi hann verið að mestu leiti edrú. Þetta skilar sér, því það er stigið upp úr mókinu og ærslagangur listamannanna birtist í músíkinni. Því þó svo að TVOTR vilja láta taka sig alvarlega þá gera þeir það svo kannski ekkert sjálfir. Húmorinn og hressleikinn gerir plötunni bara gott!

Dear Science er án efa aðgengilegasta plata sveitarinnar. Þeir sem ekki hafa skilið TV on the Radio til þessa, fá núna séns til þess. Platan er melódísk og grípandi, frumleg en sækir engu að síður í það klassíska og skiptist á milli að vera hress og glaðleg og sorgmædd og tregafull. Og þó svo að hún beri nokkra auma marbletti, þá er það sem gott er á skífunni, hreinlega MJÖG gott! TV on the Radio er eitt að þessum “hæpuðu” böndum sem verðskulda alveg athyglina . . .

TV on the Radio – Dancing Choose

5 Athugasemdir

 1. Sævar · 04/12/2008

  …hlustendur verða kolringlaðir í höfðinu…

  Ég varð ekki kolringlaður í höfðinu.

 2. Guðmundur Vestmann · 04/12/2008

  hehehe!

  oh-jæja! get svosem tekið undir að þetta er fullt sterkt til orða tekið, en þú getur nú varla neitað því að platan sé töluvert stefnulaus, er það?

 3. Sævar · 05/12/2008

  Sæll. Ég var nú bara að stríða þér með þessu kommenti mínu. Mér finnst dómurinn þinn vera mjög góður.

  Jú hún er kannski stefnulaus en þarf það alltaf að vera ókostur?

  En ég er ekki eins hrifin af TVOTR eins og gagnrýnendur virðast vera í hinum stóra heimi.

  Eru fínir en ekki æðislegir að mínu mati.

 4. Guðmundur Vestmann · 05/12/2008

  Dr. Gunni skrifaði í dómi ekki fyrir svo löngu að plötur sem væru ‘heilsteyptar’ væru oft bara einhæfar.. þannig að stefnulausar = fjölhæfar?

  eg veit ekki …

 5. aMusickBoy · 05/12/2008

  Flottur og metnaðarfullur dómur. En get ekki séð að ósamstaða í lagahópnum sé galli við þessa plötu. Og myndi aldrei segja að hún væri stefnulaus (það er einsog TVOTR séu að gera e-ð sem þeir ráða ekki við), frekar tilraunakennd.

Leave a Reply