• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Celestine – At the Borders of Arcadia

 • Birt: 11/12/2008
 • Höfundur:
 • Skoðanir: 1

Einkunn: 4.5
Utgafuar: 2008
Label: Milkweed

Ofbeldisfull og níðþung árás.

Celestine - At the Borders of ArcadiaPost-metall á Íslandi? Sjaldséður. Íslenskur post-metall eða þær leifar af honum sem hafa borist í hljóm íslenskra öfgarokkssveita (svo maður steli orði Arnars Eggerts) er líka frábrugðinn hinum erlenda post-metal. Þær íslensku sveitir sem spila eitthvað í líkingu við þessa tónlist sverja sig helst í ætt við hljómsveitir eins og Time to Burn eða fyrstu plötu Cult of Luna, ef eitthvað er. Í stað þess að vera partur af klisjusúpunni sem einkennir post-metal erlendis (en ofboðslega margar sveitir eru starfandi núna sem hljóma nákvæmlega eins og Isis eða Rosetta) er íslenska greinin mun dimmri og myrkari, tregafyllri og sorglegri. Umfram allt eru menn ekki að reyna að vera alltof atmosferískir og með fullt af delay og reverb heldur einbeita þeir sér að óhefðbundnum byggingum og kaflaskiptum. Það er einnig mun meiri harðkjarni en síðrokk í íslenskum post-metal.

Þessi plata með Celestine er gott dæmi um þetta. Virkilega, ógeðslega, hrár og þungur metall sem byggir á níðþungum hljómum frá mikið lækkuðum gíturum, gríðarlega örvæntingarfullum öskrum og dulmögnuðum laglínum þar á milli.

At the Borders of Arcadia er byggð upp sem eitt heildstætt verk og nýtur sín langbest þegar maður rennir henni allri í gegn, það gefur hverju lagi fyrir sig betra samhengi. Celestine gefur lítið fyrir tóntegundir, spilar bara sinn ómstríða og ofbeldisfulla metal og gerir árás. Það er eitt af því sem gefur plötunni sinn sérstaka blæ. Eftir andartak af seiðmögnuðum gítartónum í bland við feedback frá hinum gítarnum tekur við gjöreyðingin og örvæntingin þegar trommur, öskur og meiri distortion koma inn.

Öll þessi orka og þessi óhemja af örvæntingu, skelfingu, brjálæði og geðsýki gerir þessa plötu einhverja þá öfgakenndustu sem komið hefur út á þessu ári. Þessi hljóðveggur sem kýlir mann í andlitið þegar maður hlustar á plötuna er vel þess verður að vera líkt við beljandi Dettifoss af Arnari Eggert. Beljandi foss, lemjandi snjóbylur, hvirfilbylur. Þetta kemur upp í hugann þegar þessi ótamda orka losnar úr læðingi og kremur allt sem á vegi hennar verður.

Það er eitthvað magnþrungið við tilfinningarnar sem koma í ljós. „Despair“ er réttnefni á fyrsta laginu. Það er reitt og örvæntingarfullt lag. „God“ er einn af hápunktum plötunnar, maður finnur þessa óljósu yfirvofandi hættu í hámarki lagsins. Sjálfur hápunktur plötunnar er þó sennilega niðurlag hennar og lokakafli seinasta lagsins; „Me“. Það er einkar ljótt lag framan af (á góðan hátt, ef svo mætti segja), níðþungt og kremjandi. Í lokin brýst svo fram einhver undarlega falleg orka sem er jafnframt full af trega, harmi og dauða. Það er sérstaklega skerandi að heyra í þeim sem öskrar til skiptis við Axel (aðalsöngvara sveitarinnar),  örvæntingin skín í gegn, án þess gera lítið úr Axeli sem öskrar frábærlega á allri plötunni.

Frábær plata og einstök. Ég hef ekki fundið neina aðra sem hljómar eins og þessi. Hún er miklu ljótari og harðari en Isis oftast, dularfyllri og hægari en Meshuggah og þyngri en Cult of Luna eða Callisto til dæmis. Umfram allt eru tjáðar ríkar og sterkar tilfinningar og það er mikil innlifun í þessum myrkragrip. Einungis um 25 mínútur að lengd en fyllilega peninganna virði.

1 Athugasemd

 1. Sævar Atli Sævarsson · 18/12/2008

  Skemmtilegur dómur, held að maður verði að hluta á þessa plötu.

  „Það er einnig mun meiri harðkjarni en síðrokk í íslenskum post-metal.“

  Og ég er ekki frá því að þetta sé skemmtilegasta setning sem ég hef lesið í rjómadóm.

Leave a Reply