• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

200.000 Naglbítar og Lúðrasveit Verkalýðsins – 200.000 Naglbítar og Lúðrasveit Verkalýðsins

Einkunn: 5
Utgafuar: 2008
Label: Canned Records

Naglbítarnir og Lúðrasveit Verkalýðsins senda frá sér hreint og klárt meistaraverk!

200.000 Naglbítar og Lúðrasveit Verkalýðsins - 200.000 Naglbítar og Lúðrasveit VerkalýðsinsVilli Naglbítur setti sig í samband við Lúðrasveitina og vildi gera plötu. Þetta var fyrir nákvæmlega ári síðan. Síðan þá hafa um 100 manns komið að verkefninu við ýmist stífar æfingar eða upptökur. Þetta gerðu menn meðfram vinnu og skóla enda er Lúðrasveitin jú áhugamannasveit. Upptökur hófust svo sumarið 2008 og því óhætt að álykta að nostrað hafi verið við hvert einasta smáatriði (sem heyrist reyndar strax við fyrsta tón). Nú, nákvæmlega ári seinna, hefur afrakstur þessarar vinnu litið dagsins ljós og er varla hægt að segja annað en allir sem að verkinu komu megi vera afar stoltir af útkomunni.

Það hefur sjálfsagt ekki reynst auðvelt að útsetja lög Naglbítanna fyrir Lúðrasveitina enda rokktónlist töluvert frábrugðin mörsum og öðru sem lúðrasveitir flytja almennt. Þeim Einari Jónssyni, Haraldi V. Sveinbjörnssyni, Inga Garðari Erlendssyni, Mattías V. Baldurssyni og Páli ívan Pálssyni, sem sjá um útsetningar, tekst þó meistaralega vel til verks og eiga mikið hrós skilið. Ekki bara fyrir að túlka tónlist Naglbítanna yfir í eitthvað bitastætt fyrir Lúðrasveitina heldur líka fyrir að leyfa henni að njóta sín í heild sinni. Hér eru tvær ólíkar sveitir að spila saman sem jafningjar og þeim tekst það fullkomlega. Ef eitthvað er þá eru það Naglbítarnir sem spila undir hjá Lúðrasveitinni en ekki öfugt, eins og maður hefði haldið að tilhneiging væri til.

Lög Naglbítanna sem tekin eru fyrir á plötunni voru vel flest ágæt í sínum upprunalega útsetningum en færast yfir í allt aðra vídd með aðkomu Lúðrasveitarinnar og snilldarlegum útsetningum fimmmenningana sem minnst var á hér að ofan. Allt vopnabúr Lúðrasveitarinnar er nýtt við flutning laganna og fær hvert einasta hljóðfæri að njóta sín. Þetta gerir það að verkum að lögin eru allt í senn gædd dramatík, spennu, drunga, mikilfengleika og hugljúfri angurværð sem maður gat vart ímyndað sér að leyndust í annars ágætum tónsmíðum Naglbítanna. Ljúfsárar melódíur breytast í tilfinningalega rússíbanareið og kæruleysislegar dægurflugur breytast í upphefjandi lofsöngva sem skáka myndu hvaða ættjarðaróði sem er.

Flutningur, útsetningar og upptökustjórn er nánast óaðfinnanleg. Ef ég væri virkilega tilneyddur að finna eitthvað til setja út á, sem ég á erfitt með, þá væri það útsetningin á laginu “Neðanjarðar” sem mér fannst aðeins of hæg en engu að síður er lagið frábært, eins og öll hin lögin á plötunni. Annars er ekki mikið meira um málið að segja. Naglbítarnir og Lúðrasveit Verkalýðsins hafa galdrað fram hreint og klárt meistaraverk sem á án efa eftir að lifa lengi með landsmönnum öllum.

Sjaldan hefur niðurstaða plötudóms sem ég hef skrifað (og hef skrifað þá allmarga) verið jafn borðleggjandi og augljós eins og í þessu tilfelli. Niðurstaðan er einfaldlega þessi: 200.000 Naglbítar og Lúðrasveit Verkalýðsins fá fullt hús stiga fyrir plötu ársins!

Til hamingju!

Egill er ritstjóri Rjómans, vefhönnuður, bloggari, faðir, hundaeigandi og tónlistar- og fótboltaunnandi. Egill hefur m.a. setið í dómnefnd Kraums Tónlistarsjóðs, fagráði Airwaves og verið álitsgjafi um ýmislegt tengt tónlist og tengdum málefnum.

10 Athugasemdir

 1. Gudmundur Vestmann · 19/12/2008

  Vá! Fimma! Maður verður tá víst að kynna sér þessa!

 2. Torfi Karl Antonsson · 19/12/2008

  Já þetta er sko plata sem allir eiga að gera að skyldueign. Fimma er sko svo sannarlega ofrausn.

 3. Torfi Karl Antonsson · 19/12/2008

  Leiðrétting á færslu hér á undan. Fimma er sko svo sannarlega engin ofrausn.
  Torfi

 4. Árni Viðar · 26/12/2008

  Fullkomin plata? Eitt af mestu meistarastykkjum tónlistarsögunnar? Ég veit það ekki enda ekki heyrt plötuna en mér finnst að aðeins slíkar plötur eigi að fá 5.

 5. Einar A · 26/12/2008

  Tjah, hann kallaði þetta nú einusinni “plötu ársins”.

  …en mér virðist Egill Harðar yfirleitt finnast þetta um allar plötur sem hann yfirleitt hlustar á.

 6. Egill · 28/12/2008

  Enda skrifa ég yfirleitt bara um mjög góðar plötur.

 7. Árni Viðar · 29/12/2008

  Ég er alls ekki að kasta rýrð á skrif eða skoðun Egils enda engin ástæða til.

  Mér hefur samt alltaf fundist það draga úr trúverðugleika miðla þegar hver súper-dómurinn rekur annan. Það þýðir samt ekki að pennar eigi að ákveða fyrirfram að skrifa lélegan dóm.

  Ég skil þetta líka að vissu leyti því auðvitað er skemmtilegra að skrifa dóma um góðar plötur. Ég þurfti t.d. einu sinni að eyða jólum í að hlusta á og dæma Kalla Bjarna og Pál Rósinkrans fyrir Grapevine.

  Þegar ég skrifaði fyrir Rjómann reyndi ég að finna einhvern milliveg og stundum fór það þannig að ég hafði væntingar til platna, sem stóðu síðan ekki undir þeim og fengu fyrir vikið slaka dóma.

  Gleðileg hátíð til lesenda Rjómans og að sjálfsögðu allra pennanna!

 8. Haukur SM · 08/01/2009

  Alltaf nóg að gerast á Rjómanum…

 9. siggasig · 20/01/2009

  rjóminn hættur að hlusta á músik? 🙂

 10. Sævar · 22/01/2009

  KOMASO!

Leave a Reply