• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Pivot – O Soundtrack My Heart

Einkunn: 4
Utgafuar: 2009
Label: Warp Records

Yndislegur B-klassa vísindaskáldskapur í hljóðformi. Ein af bestu plötum síðasta árs.

Pivot - O Soundtrack My HeartÚtgáfufélagið Warp Records er þekktast sem (ó)krýndur konungur IDM stefnunnar. Á tveimur áratugum hafa margir af áhrifamestu raftónlistarmönnum samtímans sprottið fram á þeirra vegum: Autechre, Squarepusher, Boards of Canada og að ógleymdum Aphex Twin. En undanfarið hefur Warp verið að sækja í sig veðrið í rokksenunni, með bönd eins og Grizzly Bear, !!! og Battles á sínum snærum. Ástralski tríóinn Pivot bættist svo við á tilkomumikinn flytjendalistann í lok árs með sinni annari breiðskífu, O Soundtrack My Heart.

Það má segja að tónlistarsköpun Pivot rísi upp úr rústum síðrokksins – og ýmislegt (og misáhugavert) hefur nú komið þaðan. Pivot fellur í hóp post-rokk sveita eins og Mogwai og Errors sem í endurfæðingunni sóttu til raf- og danstónlistar. En það er auðveldlega hægt að greina önnur minni úr sögu rokktónlistarinnar en einungis post-rokk: þarna er kraut, math og þesslags stærðfræðiformúlur, smá sækadellika, 8-bæta popp og jafnvel nett glys. Hvað elektrónísku hlið Pivot varðar, þá sækja þremenningarnir enn lengra aftur í tímann en fyrrnefndar sveitir; mér dettur helst í hug Kraftverk og Mike Oldfield. Og á köflum B-klassa vísindaskáldskapur frá Hollywood einhverntímann á áttunda áratugnum. Þetta er aðlaðandi og ferskur hljóðheimur – sérstaklega á tímum þar sem endurkoma níunda áratugarins virðist tröllríða allri elektrónískri tónlistarsköpun.

Já, B-klassa vísindatryllir er ekki svo fjarri lagi! Inngangslagið „October“ staðsetur þig og neglir stemninguna með tölvupípi: ekki plánetan jörð heldur eitthvað framandi landslag, annarleg birtuskilyrði og mögulega er einhver geimmaður þarna á reiki. Í titillagi plötunnar, „O Soundtrack My Heart“, er klikkaði vísindamaðurinn (og aðal illmenni vellunnar) kynntur til leiks með fyrsta digital hljóðgervli sögunnar og suddalegum rokk-rythma. Brjálæðisleg áform hans koma svo fram eins og hreðjaspark með vælandi gítar. Í „Fool in Rain“ er flogið um í geimskutlu og í óteljandi mæliglösum mallar marglitur vökvi. „My Heart Like Marching Band“ ómar undir þegar að söguhetjan kyssir stúlkuna einu, eftir að hafa nýlokið við að slátra slímugri veru. Og auðvitað deyr stúlkan í upphafi „Epsilon“ af völdum vísindamannsins svo að söguhetjan eltir hann eftir allri endilangri vetrarbrautina og drepur rétt undir lok með laser-kjarnorku-sprengjuvörpu. Að lokum er honum tekið eins og keisara við heimkomu sína í „Sing, You Sinners“ með kyrjandi áströlum, síendurteknum gítarriffum og taktsmellum.

Þetta er sennilega fremur torskilið, gerum þetta skipulega! Það sem Pivot gerir, er að færa framsækna rokktónlist inn í þematískan hljóðheim, skapaðan úr elektróník af gamla skólanum. Lagasmíðarnar eru bæði í senn melódískar og rythmískar; á köflum epískar eða jafnvel hetjulegar, frá því að vera einungis dáleiðandi hljóðumhverfi og andrúmsloft og yfir í að vera sundurtætt stemning með tíðum kaflaskiptingum. Þremenningarnir eru líka óhræddir við tilraunastarfsemi og hittir hún yfirleitt í mark.

O Soundtrack My Heart hljómar í fyrstu eins og eitthvað sem vinur þinn sýnir þér og þú segir: „Auj! Kúl“ en hlustar svo ekkert meira á. En ef plötunni er leyft að veltast um í spilaranum nokkrum sinnum, þá vinnur hún skuggalega á! Hví? Jú, hrynjandi og melódíur kallast á við hvort annað í snilldarlegu jafnvægi. Sköpunargleðin skín i gegn og lagasmíðarnar óvæntar og skemmtilegar. Og síðan er frumlegur, dáleiðandi hljóðheimur listilega fléttaður við herlegheitin. Að mínu mati, án efa, sjöunda besta plata síðasta árs!

Pivot – O Soundtrack My Heart

Leave a Reply