• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Introbeats – Tivoli Chillout

  • Birt: 26/01/2009
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Fín plata og góð viðbót í safnið sem breytir þó tæpast heiminum

Introbeats - Tivoli Chillout

Það eru ekki margir sem hafa gert jafn mikið fyrir íslenskt hiphop og Introbeats en hann hefur meðal annars áður gefið út tvær plötur með hljómsveit sinni Forgotten Lores sem flestir setja í hóp með bestu íslensku hiphopplötum sem hafa verið gerðar hingað til og er hann aðal taktsmiður bandsins. Nú hefur hann gefið út sína fyrstu sóló plötu sem ber nafnið Tívoli Chillout.

Rétt er að útskýra fyrir lesendum hvernig platan er byggð upp þar sem fáar plötur í þessum stíl hafa verið gefnar út á Íslandi. Öfugt á við sóló plötur hjá einstaklingum í flestum tónlistarstefnum sér Introbeats eingöngu um tónlistina en kemur ekki nálægt textagerð og rappi heldur fær til sín 15 gestarappara sem tjá sig í 14 lögum.

Platan byrjar heldur óskemmtilega en fyrstu 30 sek er eytt í einhverja feedbackhljóma sem seint væri hægt að kalla tónlist. Maður er þó ekki lengi að fyrirgefa Introbeats þetta þegar Byrkir B úr Forgotten Lores byrjar að rappa um lífið og sjálfan sig (eins og er gert í mörgum lögum á þessari plötu) á afar skemmtilegan máta. Pirrandi bakrödd sem Byrkir skellir í viðlagið dregur lagið þó niður.

Í næsta lagi mætir Dóri DNA til leiks og fangar athygli hlustandans strax með beittri rímu um leti, kæruleysi og hversu skítsama honum er. Þegar DNA segir að honum sé skítsama um dauðann vegna þess að hann gangi aftur með stæl og að líf sitt sé eins og Egils-saga þá er ekki annað hægt en að dást að færni mannsins og sýnir textinn greinilega af hverju hann er einn af fremstu röppurum landsins. En það er oft sem góður texti og góður flutningur dugir ekki vegna þess hversu lélegur takturinn er en hér kemur Introbeats með einn þéttasta og háværasta takt sem ég hef lengi heyrt. Synthahljóðið sem er í fyrirrúmi allt lagið er svo gott sem guðdómlegt og ofan á það leggur hann einfaldar trommur sem smellpassa og er sneriltromman ein og sér stórkostleg.

Eftir þessa dýrð róast Introbeats smávegis og biður BófaTófuna, Didda Fel og 7berg að gera það sem þeir gera best í laginu „Eins og…“ en það er leikur einn yfir þann tjillaða takt sem þeir fá. Trommurnar hans Introbeats eru talsvert útpældari en í fyrstu tveimur lögunum og leikur hann sér að því að skipta um sneriltrommu og sleppir slögum inni á milli. Rappararnir skila sínu ágætlega er þeir rappa um þá hluti sem þeir kjósa að gera í lífinu þó svo að BófaTófan sé með öðruvísi flæði sem passar ekki jafn vel við taktinn og félagar hans í laginu gera.

Diddi Fel og BófaTófan halda áfram að rappa í næsta lagi, sem heitir „Lúkurnar upp“, en B-Kay kemur í staðinn fyrir 7berg. Allir rappararnir standa sig þokkalega en ber Diddi Fel þó af. Viðlagið er gott og takturinn nær einhvern veginn að virka en hann virðist nánast eingöngu vera gerður úr trommuhljóðum.

Byrkir B snýr aftur í laginu „Ertu með?“ og er G.Maris með honum og rappa þeir um lífið og peninga og tekst það ágætlega en takturinn er fulltýpískur og hafa margar útgáfur að þessum sama takti heyrst um heiminn.

Næst býður Introbeats okkur uppá lagið „Ég og Þú“ þar sem Opee rappar um konu drauma sinna en lagið er betra en flest slík lög vegna þess að Opee virðist hafa öðruvísi rappstíl en flestir íslenskir rapparar, enda hefur hann aðallega verið þekktur fyrir að rappa á ensku og hjálpar það honum mikið í þessu lagi. Takturinn sjálfur er mjög góður og minnir mikið á taktsmiðinn Pete Rock.

Mælginn MC er næstur á dagskrá með lagið „Sjáðu“. Hann rappar á hvetjandi máta um að fólk megi ekki gefast upp og er það allt gott og blessað en það vottar fyrir málfræðivillum í textanum sem er náttúrulega aldrei gott. Mælginn bjargar sér þó með skemmtilegum flutningi og fær mann til að hugsa minna um galla textans. Takturinn er þokkalegur, reggískotinn og lítið hægt að setja út á hann.

Nú er platan hálfnuð og hljómsveitin 1985! (Dóri DNA og Daníel Deluxe) og G.Maris koma saman og gera lagið „Kæfan“. Dóri DNA fer í það að telja upp eins mörg gælunöfn og slanguryrði og honum dettur í hug sem fær mann til að brosa, eftir ágætis viðlag tekur G.Maris við og rappar um lélega rappara á mjög almennan hátt. Daníel Deluxe er seinastur af köppunum og er kátur og fær mann alveg eins og Dóri DNA til að brosa. Daníel segir meðal annars „Sonur, þú ferð í lygapróf. Þú þarft meira en gullkeðju og strigaskó“. Mér finnst stórmerkilegt að enginn hafi rímað lygapróf við strigaskó áður. Vel gert, Daníel. Introbeats töfrar fram fínan takt sem hægt væri að gera þéttari með því að hækka aðeins í bassatrommunni og skipta um hihat.

„Ekkert Grín“ er næsta lag og sjá þeir Stjáni Blái (Stjáni úr Afkvæmum Guðanna) og Kötturinn Felix (Diddi Fel) um rappið. Ég gæti eflaust skrifað heilan dóm um þetta lag eitt og sér, svo gott er það. Stjáni fer hreinlega á kostum og á hiklaust einn af bestu textunum á þessari plötu. Oftast verður maður fyrir vonbrigðum með næsta rappara eftir að hafa heyrt svona texta og flutning en það gerist ekki hérna, Diddi Fel nær á einhvern óskiljanlegan hátt að toppa Stjána. Besti textinn á plötunni og örugglega einn af þeim bestu í íslensku rappi hingað til. Öll þessi textasnilld er síðan hífð uppá hærra plan þegar Introbeats leyfir okkur að heyra heitasta takt sem heyrst hefur síðan „Þér er ekki boðið“, eða svo gott sem. Málmblásturshljóðfæri til hægri, fiðlur til vinstri og hrista notuð sem hihat.

Eftir alla snilldina í laginu á undan fá Diddi Fel og Bent það hlutverk að fylgja því eftir. Þeir félagarnir rappa um afskipti lögreglu af sér og eru ósáttir með slíkt. Eins og lagið á undan er gott þá er þetta lag jafn lélegt. Þetta lag hefði aldrei átt að komast á plötuna.

7berg, BófaTófan og Diddi Fel koma saman aftur og búa til lagið „Húkkaðu Hómí Upp“. Útkoman er spes, takturinn full einhæfur og rappið ekkert til að missa sig yfir.

Þríeykið heldur áfram í næsta lagi, „Útum Allt“ og bættist Byrkir B í hópinn. Vinahópurinn rappar um náttúruna og er með landafræðitilvísanir þar í bland. Þeim tekst öllum vel til og þá sérstaklega Didda Fel. Takturinn er samsuða af hörpuslætti, synth-um og passar vel við yrkisefni rapparana.

Eins og mátti við búast koma Forgotten Lores saman og búa til lag og er lagið „Borg Óttans“ þeirra framlag. Byrkir B er betri en Class B í þessu lagi þó svo hann standi sig að sama skapi vel. Diddi Fel flytur síðan viðlagið. Takturinn er góður og tekst ætlunarverk sitt, að skapa taugaveiklað andrúmsloft. Eina sem hægt er að setja útá lagið er að það minnir fullmikið á „Veriði Hrædd“ sem var á seinustu plötu Forgotten Lores.

Seinasta lagið er „Auður Strigi“ sem er í höndum Mc Rain. Því miður er risið á því lagi ekki mikið. Furðulegri flutning á texta hef ég ekki heyrt lengi og takturinn minnir mest á leiðinlegt jazz lag. Ef þetta væri ekki seinasta lagið þá myndi ég klárlega ýta á next á geislaspilaranum.

Tívoli Chillout er fín plata og góð viðbót í safnið sem breytir þó tæpast heiminum.

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.


Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Leave a Reply