Skakkamanage – All Over The Face

Einkunn: 3.5
Utgafuar: 2009
Label: Skakkapopp

Önnur plata Skakkakrakkanna festir þau í sessi sem eina skemmtilegustu sveit landsins

Skakkamanage - All Over The FaceHjónakornin Svavar og Berglind skipa Skakkamanage ásamt nokkrum vinum sínum og sendu þau nýlega frá sér sína aðra skífu sem fylgir í kjölfar hinnar ágætu Lab of Love frá 2006. Líkt og fyrri skífan þá er All Over The Face uppfull af lunknum lagasmíðum sem vaxa gífurlega við hverja hlustun – sem er jú ágætis vísir að eigulegri plötu.

Skakkamanage minnir eilítið í bandaríska lo-fi-ið sem var aðal fyrir 10-15 árum, en nöfn eins og Smog, Pavement o.fl. mætar sveitir koma óneitanlega upp í hugann þegar tónlist Skakkamanage heyrist. Sjálfur sá ég fyrst sveitina (sem var þá reyndar 1-mannsprójekt + fartölva) spila fyrir rúmum 5 árum sem upphitunaratriði fyrir Sebadoh, eina helstu lo-fi rokkara 10. áratugarins, svo tengingin er greypt í huga minn. Skakkamanage hefur þó sína íslensku áru sem reyndar fer aðeins minna fyrir á þeirri plötu sem hér er til umfjöllunar en á Lab of Love.

Skakkamanage – Like You Did

Platan byrjar hressilega á „Like You Did“ og svo sveiflast sveitin í 33 mínútur á milli kæruleysislegra rokklaga og innhverfra poppsmíða. Ekkert laganna er jafn auðgrípanlegt við fyrstu hlustun og bestu lög frumburðarins en All Over The Face er hins vegar mun jafnari plata og má þar finna nóg kjöt á lagabeinunum. Sem fyrr einkennist flutningur sveitarinnar af nett kærulausri spilamennsku sem hentar lagasmíðunum vel og svo raulu Svavars og Berglindar. Ég verð að játa að textarnir fara að mestu fram hjá mér og af einhverri ástæðu næ ég aldrei að einbeita mér að því að hlusta eftir innihaldi þeirra. Það væri reyndar ekki galin hugmynd að prófa íslenska texta á næstu Skakkamanage plötu og sjá hvernig til tekst. Þau Svavar og Berglind sendu nefnilega frá sér frábært jólalag á íslensku í lok síðasta árs undir nafninu Létt á bárunni sem sýndi að þau væru fullfær um skemmtilegar textasmíðar.

All Over The Face festir Skakkamanage í sessi sem eina af skemmtilegustu sveitum landsins en líkt og svo margar gæðaplötur íslenskrar tónlistasögu þá hefur hún af einhverjum ástæðum ekki farið mjög hátt. Skakkamanage er kannski ætlað það hlutskipti að vera ein af þeim sveitum sem verða metnar að verðleikum löngu eftir að sjoppunni hefur verið lokað, en það er víst lítið við því að gera. Og já, umslag All Over The Face er með því hressasta síðastliðin ár.

2 responses to “Skakkamanage – All Over The Face”

  1. Gumm says:

    Þetta er flott stuff finnst mér. Sérstaklega finnst mér þetta myndband vera mikið snilldarverk. Byggist upp eins og lagið og þegar allt verður vitlaust verður allt vitlaust í pottinum.

    Flott hjá þeim.

  2. […] eilítið í bandaríska lo-fi-ið sem var aðal fyrir 10-15 árum,“ segir Pétur Valsson í plötudóm um All Over the Face og bætir svo við: „… en nöfn eins og Smog, Pavement o.fl. mætar sveitir koma […]

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.