• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Sólstafir – Köld

  • Birt: 22/03/2009
  • Höfundur:
  • Skoðanir: 0

Einkunn: 4,0
Útgáfuár: 2009
Label: Ranka Recordings

SólstafirHér er komin þriðja breiðskífa Sólstafa og ber hún heitið Köld. Þessi lítt þekkta íslenska sveit (utan þungarokkssenunnar) hóf feril sinn á frekar hefðbundinn hátt sem svartmálmssveit en tók síðan að blanda hinu og þessu saman við, t.d. einhvers konar áhrifum frá bæði Motörhead og Mogwai. Einnig mætti nefna það að sumir hafa viljað líkja Sólstöfum við blöndu af Sigur rós og Darkthrone, hversu rökrænt sem það kann að hljóma. Það er hreint ekki svo auðvelt að koma böndum á Sólstafi með skilgreiningum og flokkunum en sjálfur hef ég samt sem áður kosið að kalla tónlist Sólstafa epískt kúrekarokk.

Þetta furðulega hugtak „epískt kúrekarokk“ finnst mér einmitt fanga stemmningu þessarar plötu, því þetta eru tvö helstu þemu plötunnar. Epíkin og rík og atmosferísk hljóðumhverfi eru gegnumgangandi en einnig kúrekastemmning og áhrif frá klassísku rokki sem og pungarokki að hætti Motörhead. Fyrsta lag plötunnar, „78 Days in the Desert“, er gott dæmi um þetta. Lagið er rúmlega átta mínútna epískt sönglaust lag eins og það gerist best hjá Sólstöfum, fangar kúrekatilfinninguna á epískan hátt og gerir afskaplega vel sem upphafslag plötunnar því það skilgreinir hana. Þarna mætast annars vegar epísk gerð af klassískum rokklögum og hinsvegar ríkt og náttúrulegt andrúmsloft sem minnir á vegferð um sanda Suðurlands á sólbjörtum degi. Kúreki ekur götuna í hitamollunni með sólgleraugu en í stað amerískrar eyðimerkur blasa við út um bílgluggann stórbrotnir jöklar sem sitja mikilfenglegir á hásæti sínu.

Svo maður hlaupi yfir nokkur önnur góð lög mætti nefna titillag plötunnar sem er nokkurs konar blanda af eðal svartmálmsslagara og jarðarfararsálmi að hætti Sigur Rósar. Lagið er  tilfinningaríkt og -sterkt og þar hjálpar til að textagerð er á íslensku. Annað áhugavert lag er „She Destroys Again“ sem fangar kúrekastemmninguna en minnir einnig framan af á það ef hljómsveitin Ensími færi að spila svartmálm. Sem fyrr koma áhrifin á tónsköpun Sólstafa víða að eins og vel heyrist á þessu lagi.

Fyrri hluti plötunnar er mestmegnis innan þessarar stemmningar og á útopnu en seinni hlutinn er að mestu innhverfari og íhugulli. Mætti þar t.d. nefna „World Void of Souls“ sem minnir einna helst á hljómsveitina Godspeed You! Black Emperor. Seinni hluti plötunnar er almennt í rólegri kantinum miðað við þann fyrri og nær heldur ekki alveg sama flugi í lagasmíðum ef frá er talið eina lagið í seinni hlutanum sem ekki er á rólegu nótunum, „Love is the Devil (and I am in Love)“. Það er aukinheldur langstysta lag plötunnar, innan við fimm mínútur að lengd og fetar að mestu slóð hefðbundins rokks og brýtur ágætlega upp seinni hlutann. Rólegri lög seinni hlutans eiga sér ágætan efnivið en missa eilítið marks og þá aðallega fyrir aðeins of langar útsetningar þó að ákveðnir kaflar inni á milli séu til fyrirmyndar.

Í það heila er þetta virkilega góð plata, frumleg og í rauninni einstök, þó að hún endi hinsvegar ekki jafn vel og hún byrjar.

Leave a Reply