Baggalútur – Nýjasta Nýtt

Einkunn: 4
Útgáfurár: 2008
Label: Sena

Baggalútur - Nýjasta nýttGleðipoppið glímir við gáfumannapoppið. Annað er ættað frá Selfossi, hresst og skemmtilegt en umfram allt ómerkilegt og auðgleymanlegt. Gáfumannapoppið er spilað í kúltiveruðum partíum hjá bókmenntafræðingum en stuðið er víðsfjarri. Textarnir eru þó djúpir, fyndnir og fallegir. Hvort um sig er ágætt en alls ekki fullnægjandi eitt og sér.

Hvort vill maður þá hlusta á?

Svarið við því er einfalt. Þú vilt hvorugt eða bæði. Þú vilt líklega Baggalút. Baggalútur getur nefnilega bæði verið hresst, eftirminnilegt og aðlagandi. Stuðið er ógurlegt og textarnir fyndnir, fjörugir og frábærir. Baggalútur færir á plötunni „Nýjasta nýtt“ gleðilegt gáfumannapopp par exelans.

Og við sinn kísilbætta barm
þær bera hljóðan innri harm.
Og gráti þær þá gjörist netið hægt.

-úr Stelpunum á Internetinu

Af mörgum góðum lögum er „Laugardagskvöldið“ sungið af Karli Sigurðssyni líklega toppurinn eða að minnsta kosti í uppáhaldi hjá mér hérna. Frábærlega hress tragikómískur stuðsöngur um félagann sem fullur bjartsýni fer á fyllerí fullur af bjartsýni og fínni stemmningu. Um leið og ég sætti mig við hina ætluðu viljandi málfarsvillu í textanum og fór hreinlega að fíla hana var lagið algjörlega skothelt.

Græja drykki, gaumgæfi framboðið.
Gamall lager, hér er mér ekkert samboðið.
Svona á fyrsta bjór.

-úr Kósíkvöldi í kvöld

Önnur topplög eru upphafslagið „Kósíkvöld í kvöld“, „Bannað að reykja“ sem Eiki Hauks syngur og „Túvalú“ sem var víst samið því „allir voru að gera svona eyjalög“. Öll lögin eru þó þrælfín og fara vel í flestar græjur í stofu sem eldhúsi.

Baggalútur á skemmtilegustu plötu síðasta árs. Mæli eindregið með henni og hvet Baggalúta til áframhaldandi gleðigjafar. Verði stuð!

Fjögur lög af plötunni á vef Baggalúts

7 responses to “Baggalútur – Nýjasta Nýtt”

 1. Því miður hefur mér algjörlega mistekist að finnast eitthvað skemmtilegt við þessa hljómsveit. Mér finnst svo svakalega mikil rembingsfyndni í textunum og enn hef ég ekki heyrt eina laglínu frá Baggalúti sem mér finnst skemmtileg.

  Ég hef velt því mikið fyrir mér, en mér er enn ómögulegt að skilja hvernig menn sem geta haldið út jafn sniðugri heimasíðu og baggalutur.is er geti á sama tíma verið í landsins leiðinlegustu hljómsveit.

 2. Ég held að þú sért að taka þetta allt of alvarlega Pétur minn.

 3. Nei, ég hef bara reynt að skilja vinsældir þessarar hljómsveitar – en ekki enn tekist

 4. Guðmundur Vestmann says:

  Ég verð að vera sammála Pétri – hef ekki gaman af þessari sveit. Finnst **** alltof há einkunn fyrir þessa plötu . . .

 5. Kiddi says:

  Glatað band. Trommarinn sökkar.

 6. Það er satt. Ef finna má eitthvað að bandinu þá er það trommarinn.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.