• facebook
  • soundcloud
  • twitter
  • youtube
  • mail

Daath – The Concealers

Einkunn: 4,0
Útgáfuár: 2009
Útgáfa: Roadrunner/Century Media

The ConcealersÞað er allt of sjaldgæft að manni berist til eyrna þunga- eða dauðarokk sem er þess virði að segja frá. Platan sem hér um ræðir kemur því eins og ferskur andblær ofan í þann fúla drullupytt sem þessar tónlistarstefnur eru sokknar í.

The Concealers er þriðja stóra plata suðuríkjametalsveitarinnar Daath en hún hefur getið sér góðs nafns fyrir fjölbreyttan stíl sinn og nánast óaðfinnanlega spilamennsku. Sveitin var stofnuð um mitt ár 2003 og rúmu ári seinna gaf hún út, á eigin vegum, sína fyrstu plötu sem nefnist Futility. Rúmum þremur árum seinna gera liðsmenn Daath samning við hið goðsagnakennda þungarokkslabel Roadrunner Records og gefa í kjölfarið út plötuna The Hinderers en á henni sá sjálft gítargoðið James Murphy (Obituary, Death, Testament) um upptökustjórn.

Stuttu eftir útgáfu The Hinderers gætti mikils ósættis innan raða Daath og urðu málalok þau að söngvari (ef mér leyfist að nota það orð) sveitarinnar yfirgaf sveitina. Einhverjar mannabreytingar hafa einnig orðið í bandinu nýlega þó mér sé ekki kunnugt hvort viðkomandi aðilar hafi náð að spila á plötunni sem hér er til umræðu eður ei.

Snúum okkur nú að efninu. Ef fjölbreytni, óaðfinnanleg spilamennska, kristaltært sánd, melódísk, frumleg og tæknilega fullkomin riff er það sem þú leitar að þá er þessi plata einmitt fyrir þig. Hér er boðið uppá sannkallað þungarokks hlaðborð enda úir og grúir af ólíkum stefnum og straumum sem sveitinni tekst að bera fram sem nánast fullkomna heild.

The Concealers inniheldur allt sem þungarokkarinn gæti óskað sér, allt frá rafrænum industrial málmi að hætti Rammstein yfir í hömlulaus blackmetal. Strangt til tekið spila Daath það sem kallað er “groove metal” eða “modern metal“, stefna sem sveit eins og Lamb of God eru hvað þekktust fyrir. Málið er þó ekki svo einfalt því liðsmenn Daath flakka áreynslulaust frá yfirlýstri eða einkennandi stefnu sinni yfir í dauðarokk af gamla skólanum og þaðan yfir þær stefnur tvær sem ég nefndi hér að ofan. Inn á milli má svo jafnvel greina smávægilegar skírskotanir í thrashmetal og hreint og klárt rokk og ról.

Það eina sem kemur í veg fyrir að manni finnist maður hafa hér hina fullkomnu þungarokksplötu í höndunum er einhver nagandi tilfinning að, þó allt sé hér eins og best verði á kosið, þá eigi liðsmenn Daath enn meira inni en þeir bjóða upp á hér. Ég get ekki losað mig við þann grun að sum lögin, og jafnvel platan í heild, hefði getað orðið svo miklu betri en hún er.

En hverju sem því líður þá er hér, að mínu mati, ein besta þungarokksplata ársins sem enginn sannur metalhaus ætti að láta fram hjá sér fara.

Daath – The Unbinding Truth

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Egill er ritstjóri Rjómans.

2 Athugasemdir

  1. Gísli Pétur Hinriksson · 30/04/2009

    Þakka þér kærlega fyrir ég hef verið að leita af góðri þungarokkssveit síðan ég nauðgaði Killswitch Engage / As Daylight Dies. Ávallt góðar greinar frá þér Egill!

  2. Egill Harðar · 30/04/2009

    Takk kærlega. Njóttu vel!

Leave a Reply