• facebook
 • soundcloud
 • twitter
 • youtube
 • mail

Röyksopp – Junior

Einkunn: 3,5
Útgáfuár: 2009
Label: Astralwerks

royksopp-juniorÞriðju plötu Röyksopp hefur verið beðið með töluverðri eftirvæntingu, en síðasta plata þeirra kom út árið 2005. Nú er Junior komin í búðir og er að mörgu leyti athyglisverð plata sem vert er að skoða aðeins nánar.

Platan byrjar á hressandi hlátri með laginu „Happy Up Here“ sem setur tóninn fyrir restina af plötunni. Hún er nefnilega fyrst og fremst skemmtileg; popp/elektró partýplata gerð með það í huga að fá fólk til að dansa. Þetta er nýjung hjá hljómsveitinni, en þeir Brundtland og Berge sem skipa sveitina hafa hingað til verið þekktari fyrir eilítið myrkar lagasmíðar sveipaðar dulúð auk stanslausra raftónlistartilrauna. Hér kveður við nýjan tón, rafbræðingurinn víkur fyrir innri poppdívum dúósins sem fá hvern mann til að sprikla á dansgólfinu eins og enginn sé morgundagurinn.

Reyndar eru þeirra innri dívur ekki þær einu sem fá að njóta sín á plötunni. Það hefur allt frá byrjun verið eitt af einkennum Röyksopp að fá með sér ýmiss konar tónlistarmenn til að syngja lög þeirra og Junior engin undantekning. Í eldri lögum hljómsveitarinnar má meðal annars heyra rödd Erlend Øye úr Whitest Boy Alive/Kings of Convenience en á Junior ráða söngkonur ríkjum. Þær Robyn og Lykke Li syngja hér í fyrsta sinn með Röyksopp en auk þeirra ljá Karin Dreijer úr The Knife og hin norska Anneli Drecker þeim raddir sínar. Þær hafa báðar unnið með þeim áður; Dreijer með laginu „What Else Is There?“ af The Understanding, sem að mínu mati er eitt flottasta lag sveitarinnar og Drecker frá árinu 2001 þegar fyrsta plata Röyksopp, Melody A.M., kom út.

Söngkonunum er dreift niður á lögin af mikilli kostgæfni; þannig syngur t. d. Robyn ofurslagara plötunnar; „The Girl and the Robot“ þar sem sungið samtal á sér stað milli pars; „vélmennis“ (sem líklega á að skilja sem tiltölulega óhugulsaman vinnufíkil) – sem Brundtland og Berge ljá raddir sínar – og stelpu sem Robyn leikur. Hugsanlega eitt stærsta lag ársins 2009, það hefur a.m.k. burði til að gera allt vitlaust á dansgólfinu. Lykke Li hlýtur þann heiður að syngja hina sykursætu rafballöðu „Miss It So Much“ sem hentar hennar rödd ákaflega vel. Karin Dreijer vekur með manni ljúfan hroll með hinu töfrandi „This Must Be It“ og svo laginu „Tricky Tricky“ sem gæti vel verið komið beint úr smiðju The Knife. Anneli Drecker syngur svo um framtíðarsýn í „Vision One“ auk þess að syngja hið ljúfsára „You Don’t Have a Clue“ og „True to Life“ og verður að segjast að hún fær almennt ekki næga athygli fyrir fallega rödd sína.

En hvað gera þá eiginlega Brundtland og Berge, gætu sumir spurt. Þeir eru að sjálfsögðu heilarnir á bak við frábærar lagasmíðirnar og semja öll lögin, auk þess að pródúsera, mixa, útsetja og lagfæra öll smáatriði á plötunni af sinni alkunnu snilld. Það að þeim finnist aðrar raddir henta betur en sínar eigin í sumar af smíðunum finnst mér bera vott um tónlistargáfur – hversu oft hefur maður ekki heyrt frábær lög sem missa marks vegna söngs sem ekki á við. Röyksopp kunna svo sannarlega að velja sér samstarfsmenn, jafnt á þessari plötu sem og eldri og fá þeir plús í kladdann fyrir það. Þeir vita jafnframt hvenær þeirra raddir eiga við en þær henta yfirleitt í einfaldari lögunum, sbr. „Happy Up Here“ og lokalaginu „It’s What I Want“ þar sem þeir syngja um þrá þeirra eftir hinu einfalda í lífinu.

Það er ljóst að Röyksopp munu með þessari plötu afla sér nýrra aðdáenda enda er þetta aðgengilegasta plata þeirra til þessa. Þeir hafa náð að búa til rafpopp með heljarinnar karakter – eitthvað sem ekki getur talist algengt nú til dags. Gamlir aðdéndur sveitarinnar ættu einnig að geta unað sáttir við sitt svo lengi sem þeir sætta sig við þá staðreynd að hljómsveitin hefur þróast frá því að vera tiltölulega „underground“ triphopsveit yfir í það að vera elektrópopphljómsveit sem gæti auðveldlega endað sem partýband á Broadway eitthvert laugardagskvöld í framtíðinni.

Það er heilmikið varið í þessa þriðju plötu Röyksopp-liða. Hún er meiri heild en plöturnar á undan þrátt fyrir að státa ekki af eins flottum einstaka lögum. Þrátt fyrir að dvína eftir því sem líður á hana er hún skemmtileg áheyrnar og kemur manni í stuð. Á Junior ná þeir Brundtland og Berge að tvinna saman hið hressa Röyksopp-popp og myrkari teknóhliðar hljómsveitarinnar og vita svo sannarlega hvað þeir eru að gera. Heiti plötunnar er afar viðeigandi, en hún er full af þrótti og mismunandi tilfinningum rétt eins og æskan sjálf. Heyrst hefur að í haust eigi að koma út systurplata Junior sem bera eigi nafnið Senior og er þá forvitnilegt að spá hvort þar verði á ferð þroskaðri lagasmíðar í takt við nafnið og jafnvel flóknari lög. Eitt er að minnsta kosti víst, allt sem Röyksopp snerta virðist breytast í gull – svo ætli við verðum ekki bara að bíða og sjá.


Röyksopp – „The Girl and the Robot“

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Röyksopp – „Happy Up Here“

3 Athugasemdir

 1. Óttar · 09/05/2009

  Klárlega ein af sumarplötum 2009!

 2. Númur · 24/05/2009

  Mér fannst nú melody am nokkuð aðgengileg.
  Ásamt nokkrum rokkaravinum mínum sem hlusta
  yfirleitt ekki á svona tónlist.

 3. Hrafninn · 06/07/2009

  Snildar plata hér á ferð.

Leave a Reply