Sudden Weather Change – Stop! Handgrenade in the Name of Crib Death ‘nderstand?

suddenminniEinkunn: 4,0
Útgáfuár: 2009
Útgáfa: Kimi Records

Frumburður strákanna í Sudden Weather Change heitir hinu þjála nafni Stop! Handgrenade in the Name of Crib Death ‘nderstand? – sem mætti útleggja sem Stans! Handsprengja í nafni vöggudauða skilurðu? á því ylhýra. Hljómsveitin hefur verið ansi iðinn við spilamennsku á undanförnum árum og náð að skapa sér ágætis nafn innan íslensku tónlistarsenunnar, en varla hafa tónleikar verið haldnir í höfuðborginni síðustu misseri án þess að SWC spili.

Sudden Weather Change liðar gera lítið til þess að fela áhrifavalda sína en tónlist sveitarinnar sækir mikið í gítardrifið jaðarrokk, sérstaklega af Bandaríska skólanum en SWC nær þó ágætlega að setja sín eigin einkenni á músíkina. Til að kóróna það syngja svo drengirnir á ensku (um hvað veit ég lítið um enda hef ég átt erfitt með að einbeita mér að því hvað textarnir fjalla um) svo tónlistin hljómar ekkert sérstaklega íslensk – sem er svo sem allt í lagi.

Í gegnum plötuna bjóða hin sviplegu veðraskipti hlustendum upp á nokkuð þéttriðið net af grípandi rokklögum sem hljóma ansi vel og er þar varla snöggan blett að finna. Fjölmörg góð lög er að finna á skífunni og líklega óþarfi að telja þau upp í löngum runum, en sum hver eiga góða möguleika á að festast í heilum þeirra sem á hlusta. Hljómur plötunnar einkennist af þremur gítörum sem keppa um athygli hlustenda ofan á traustum undirstöðum bassa og trommu. Ofan á allt saman syngja sveitarmeðlimir (a.m.k. tveir ef ekki þrír) hver í kapp við annan og þrátt fyrir að raddirnar séu missterkar virkar þessi tilhögun ágætlega á plötunni.

Ef tína til ætti einhverja galla á skífunni þá eru lagasmíðar og hljómur helst til einhæf og þrátt fyrir að lögin séu góð eru þau ekki alveg nógu fjölbreytt til þess að platan nái að halda óskiptri athygli hlustenda í klukkutíma. Þó einkennilegt sé að gera athugasemd við að of mörg lög séu á plötunni þá grunar mig að ef hljómsveitin hefðu ritstýrt sér betur hefði útkoman verið enn heildstæðari og þéttari plata.

Stop! Handgrenade in the Name of Crib Death ‘nderstand? er hörkugóð rokkskífa þar sem heyra má greinilega ósvikna spilagleði sveitarinnar og þrátt fyrir að hún sé e.t.v. nokkuð langdregin á köflum er platan með því allra besta sem heyrst hefur hér á landi það sem af er þessu ári.

Sudden Weather Change – St. Peters Day

Audio clip: Adobe Flash Player (version 9 or above) is required to play this audio clip. Download the latest version here. You also need to have JavaScript enabled in your browser.

Sudden Weather Change halda útgáfutónleika Stop! Handgrenade in the Name of Crib Death ‘nderstand? föstudagskvöldið 15. maí á Grand Rokk kl. 22. BoB og Skátar hita upp og er frítt inn á tónleikana.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.