Dr. Spock – Falcon Christ

Einkunn: 2,5
Útgáfuár: 2008
Útgáfa: Smekkleysa

Falcon ChristHvað er Dr. Spock? Þungarokk? Öfgarokk? Klassískt rokk? Lounge-tónlist? Djass? Eina stundina emjar á mann hljómborð, aðra tekur við fönkað rokk að hætti Rage Against the Machine, þess á milli spastískt öfgarokk sem minnir á Meshuggah og á eftir því sirkustaktar. Hvað í ósköpunum gerist eiginlega á æfingum hjá Dr. Spock? Það eru engar hömlur settar á lagasmíðarnar og stundum er það gott, stundum ekki.

Þar sem ægir saman öllum mögulegum stílum er ansi hætt við að lög og plötur verði sundurlaus verk og sú staða kemur vissulega upp. Það er ekki beint samstillt að spila fönkrokk og á eftir því breakdown með austur-evrópskum tregafullum söng yfir. Það verður ekki tekið af Spock-mönnum að tónlistin er skapandi og frumleg og leitar alls staðar fanga. Á köflum verður hún þó of sundurslitin og fullmikið tilraunakennd til að viðkomandi lag geti talist lag í hefðbundnum skilningi, samt bindur eitthvað tónsmíðarnar saman. Falcon Christ virkar í fyrstu á mann sem safnhaugur eða ruslakista tónsmíða hjá geðklofa hljómsveit (geðklofa í tónlistarlegum skilningi) en það er eitthvað sem bindur saman plötuna. Það má jafnan rekja einn örsmáan þráð í gegn þó að hann verði á stundum ansi þunnur og veðurbarinn. Það er alltaf einhver taktföst ákveðni á bak við allt sama hvernig viðrar í veðrahvolfi Dr. Spock. Það verður ekki annað sagt en að Dr. Spock sé hæf og æfð hljómsveit, hljóðfæraleikararnir fara vel með hljóðfærin og sýna takta og það þarf vissulega góða æfingu til að halda dampi í svona handahófskenndum og erfiðum lögum.

Það sem verður Dr. Spock hinsvegar aðallega að falli er það að Botnleðja er fyrir nokkuð löngu búin að fullkomna drjúgan hluta af tónlistinni sem Dr. Spock hefur fram að færa. Spock-menn mega þó eiga það að þeir taka Botnleðju mikið fram í öfgum og furðulegheitum. Þessi plata er út af fyrir sig eðlilegt framhald af þeirri síðustu frá sveitinni og það sem telst eðlilegt á þeim bænum er eins og ef Botnleðja hefði sameinast Ham og Ensími og ákveðið að hætta að syngja og fara að hlusta meira á System of a Down, Meshuggah og þungarokk almennt.

Á heildina litið er ég eiginlega á báðum áttum með þessa plötu, hún er bæði rík að kostum og göllum. Virkilega skemmtileg plata en ansi erfið afspilunar á köflum.

4 responses to “Dr. Spock – Falcon Christ”

 1. Franz says:

  Legg ekki í vana að svara dómum sem skrifaðir eru en ég verð að benda á nokkra vankanta í dómi þessum.

  Dr. Spock hefur hingað til ekki leitast við að gera hefðbundna tónlist og ef gagnrýnandi hefði kynnt sér sveitina þá hefði sú vitneskja komið honum til góða í þessum skrifum sínum.

  Það er enginn örsmár þráður gegnumgangandi á Falcon Christ og því er mat gagnrýnandans kolröng.

  Hvernig væri nú að útskýra þá fullyrðingu að Botnleðja hafi verið búin að fullkomna drjúgan hluta af tónlistinni sem Dr. Spock hefur fram að færa? Óskiljanlegt.

  “Þessi plata er út af fyrir sig eðlilegt framhald af þeirri síðustu frá sveitinni og það sem telst eðlilegt á þeim bænum er eins og ef Botnleðja hefði sameinast Ham og Ensími og ákveðið að hætta að syngja og fara að hlusta meira á System of a Down, Meshuggah og þungarokk almennt.”

  Er gagnrýnandi að grínast með þessari málsgrein eða hafði bara ekkert vitsmunalegt að segja og var í rauninni bara að fylla upp í textann?

  Liðsmenn hafa ekki hlustað á system of a down, Messuggah eða Botnleðju sem viðmiðunarsveitir við tónlistarsköpun. Að blanda saman þessum sveitum ásamt Ham og Ensími er algjör fásinna enda auðheyrt að Tónlist Dr. Spock á fátt sameiginlegt með þessum sveitum fyrir utan að liðsmenn Dr. Spock eru meðlimir áðurnefndra sveita (Ensími, Ham).

  Ég vona að gagnrýnandinn leggi aðeins meiri metnað í skriftir sínar með því að kynna sér efnivið þann sem hann glímir við betur og koma texta frá sér án fáránlegra fullyrðinga.

  Einnig er skrítið að lögin á plötunni eru ekki krufin eins og gengur og gerist í plöturýnum fyrir utan að kalla þau ruslakistu.

  Mikið hefur verið þrætt og rætt almennt um gagnrýni á íslandi hvort sem það er í tónlist, leiklist eða öðrum listgreinum. Ef gagnrýnendur vilja láta taka mark á sér þá er einföld krafa lesenda að gagnrýnendur skili af sér texta sem lýsir innihaldi viðfangsefnisins og forði sig frá skrítnum fullyrðingum og útúrdúrum hverskonar.

  Kveðja
  F.

 2. Ég hafði nú sjálfur alltaf séð fyrir mér tengingu við meistara eins og John Zorn þegar ég heyri Dr. Spock spila. Er eitthvað til í því?

 3. Já það er endalaust hægt að gagnrýna og gagnrýna gagnrýnanda… Held að allir verði bara að sættast á að vera sammála um að vera ósammála.

  Annars finn ég ekki fyrir neinni skyldu hjá mér sem gagnrýnanda að kryfja plötur þannig að hvert lag fái sér umfjöllun, stundum á það við og stundum ekki.

  Annars hef ég ekki hlustað nóg á gripinn til að mynda mér skoðun svo ég stoppa hér. 🙂

 4. Kristján Friðbjörn says:

  Sæll Franz.

  Ég bið ykkur í Dr. Spock ekki um að gera hefðbundna tónlist, ég bið ykkur ekki um neitt. Ég er raunar feginn að þið fetið oft ótroðnar eða furðulegar slóðir, þannig er langlíklegast að þið haldið tónsköpuninni ferskri. Hitt er annað mál að þessi plötudómur er skoðun mín, ekki vísindaleg krufning á náttúrulögmálum eða staðreyndum. Mér finnst þið t.d. ekki alls staðar hitta í mark. Ég ætla ekki að fara að gera ykkur upp áhrifavalda, það sem ég skrifaði er einfaldlega það sem kemur upp í hugann.

  Þér finnst þetta kannski ófaglegt, ég skal ekki segja. Mér fyndist það hinsvegar langtum ófaglegra að fara að segja eitthvert bull sem mér finnst ekki í raun og veru. Ég get bara skrifað það sem mér finnst, ekki annað. Ég gæti þóst vera rosalega mikill maður eitthvað og reynt að fylgja einhverju almenningsáliti og rómað plötuna ykkar í topp en það væri kranablaðamennska og virkilega ófaglegt (svo langt sem hugtakið “faglegt” nær í skoðanaskrifum).

  Með Botnleðju get ég ekki bent á annað en það að hlusta á Fólk er fífl eða Magnyl…en enn og aftur ætla ég að benda á það að það er bara mín skoðun að þið sverjið ykkur í ætt við Botnleðju.

  Annars er alltaf gaman að fá greinargóð svör við skrifunum en ég held að við verðum bara að vera sammála um að vera ósammála. Þú getur ekki ætlast til þess að ég hlusti á sömu plötu og þú og fái nákvæmlega sömu hughrif og þú, eins finnst mér ansi tæpt að ég eigi að skilja plötuna alveg 100%, það er eitthvað sem enginn getur nema viðkomandi listamaður.

  -Kristján

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

Connect with Facebook

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.